16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er auðséð af þeim yfirlýsingum, sem hafa verið gefnar í sambandi við þetta mál af hæstv. fjmrh. og af hæstv. forsrh. f. h. hvors stjórnarflokks um sig, að undanfarið hafa verið mjög skörp átök á milli stjórnarflokkanna og ástandið auðsjáanlega þannig í augnablikinu, að við stjórnarkreppu liggur. Hæstv. fjmrh. segir, að það hafi ekki náðst samkomulag um að afgreiða fjárlögin fyrir áramót. Hann segist hafa lagt ríka áherzlu á að afgreiða fjárl. fyrir áramót og ekki getað fengið því framgengt. M. ö. o.: Ríkisstj. getur ekki lengur komið sér saman um að afgreiða fjárl. á réttum tíma. Hæstv. fjmrh. segir enn fremur, að þetta hefði verið hægt, að það hafi ekki verið raunverulegir annmarkar á því, sem ekki hefði verið hægt að yfirvinna. Þess vegna hlýtur þarna að koma til, að stjórnarflokkarnir geti ekki komið sér saman um, hvernig eigi að stjórna landinu hvað þetta snertir. Hæstv. fjmrh. segir síðan, að hann stofni ekki til stjórnarkreppu nú, hann hefði ákveðið að vinna áfram í ríkisstj. M. ö. o.: Fyrir Framsfl. hefur sú spurning legið undanfarna daga, hvort hann ætti að stofna til stjórnarkreppu og hvort hann ætti að vinna áfram í ríkisstjórninni. Ég tel gott og nauðsynlegt, að þessar upplýsingar koma hér fram, vegna þess að fram að þessu hefur frekar verið reynt að dylja fyrir okkur þm., hvernig ástandið sé á stjórnarheimilinu. Síðan bendir hæstv. forsrh. á, að mjög mikilvæg lög falli úr gildi um áramótin, og það er vitað, að það er mjög mikill erfiðleiki, sem bíður úrlausnar fram undan viðvíkjandi öllum fiskiflota landsmanna. Síðan segir hæstv. forsrh., að Sjálfstfl. hafi ekki talið auðið að afgreiða fjárlög. M. ö. o.: Sjálfstfl. hefur stöðvað afgreiðslu fjárl., vegna þess að það hefur ekki fengizt samkomulag við Framsfl. um, hvernig ætti að tryggja, að sjávarútvegurinn yrði rekinn eftir áramótin. Þá segir hæstv. forsrh., að hann hefði kosið að ljúka þessum málum nú, en ekki getað fengið því framgengt.

Mér sýnast þessar yfirlýsingar beggja hæstv. ráðh. gefa okkur þm. þá mynd af stjórnarfarinu, af ástandinu í stjórnarherbúðunum, að þessir tveir stjórnarflokkar séu ekki færir um að fara með stjórn landsins lengur, — þeir lýsi því yfir hvor um sig. Hins vegar er gefið, að það er alveg rétt, sem hér hefur verið lögð áherzla á, að það bíða stór mál afgreiðslu, sem hefði þurft að afgreiða fyrir nýár. Og það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. Við höfðum nokkra hugmynd um þetta, Sósfl., og þess vegna skrifuðum við í fyrradag formönnum Framsfl. og Sjálfstfl. svo hljóðandi bréf, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér með leyfum vér oss að leggja til við yður með tilliti til yfirvofandi stöðvunar á allri útgerð landsmanna um næstu áramót, að fundum Alþ. sé ekki frestað nú, heldur sé fundum haldið áfram milli jóla og nýárs til þess að reyna að finna lausn á þeim vandamálum, er við blasa, svo að eigi komi til stöðvunar fiskiflotans í ársbyrjun. Væri þá í staðinn hægt að taka nokkurt þinghlé seinna í janúar, er afgreiðslu þessara mála væri lokið.“

Um leið og við sendum þetta til form. beggja stjórnarflokkanna, sendum við afrit af þessu til annarra flokka í stjórnarandstöðu til að láta þá vita, að við hefðum skrifað þetta. Ég álit, eins og mér fannst raunar skina í í orðum hæstv. forsrh., að það hefði raunverulega verið betra fyrir þingið í heild, ef það hefði lokið öllum þessum málum fyrir áramót, ef við þm. hefðum setið hér áfram, jafnvel þótt menn hefðu orðið að fresta sínu jólafríi raunverulega eða fórna því til þess að reyna að tryggja það, að útvegurinn gæti gengið af fullum krafti strax eftir áramótin, og það hefði að öllu leyti verið sæmst fyrir Alþingi og ánægjulegast, að Alþingi hefði getað fundið og komið sér saman um lausn á þessum málum. Hitt vil ég leggja áherzlu á, að það er auðséð, að sú tilraun, sem þessir tveir stjórnarfl. hafa haldið uppi undanfarið og hefur kostað á þessu ári, sem nú er að líða, svo hörð átök hjá þjóðinni, sú tilraun, sem þeir hafa gert til þess að stjórna landinu á móti vilja verkalýðsins í landinu, er misheppnuð, og því fyrr sem menn taka afleiðingunum af því, því betra. Menn verða að horfast í augu við það, að það er ekki hægt að stjórna landinu á móti verkalýðnum og móti núverandi stjórnarandstöðu.

Mér skilst, að hvor um sig hafi hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. gefið yfirlýsingu um pólitískt gjaldþrot ríkisstj., yfirlýsingu um það, að stjórnarkreppa sé raunverulega á komin, en hún sé ekki gerð alveg opinber, heldur sé henni frestað fram yfir nýár með þessu móti, sem geti hins vegar kostað landsmenn meira eða minna stöðvun á útgerðinni eftir nýárið. Þetta vildi ég láta koma hér fram einmitt út af þeim stórpólitísku yfirlýsingum, sem hæstv. ráðh. hafa gefið.

Viðvíkjandi því frv., sem hér liggur fyrir, er hins vegar ekki hægt að vera á móti því. Það er ómögulegt að ætla að stöðva fjárgreiðslur úr ríkissjóði, þó að svona sé komið, að sú ríkisstj., sem enn situr að völdum, komi sér ekki saman um afgreiðslu fjárl., þannig að það er ekki hægt annað en að styðja að framgangi þessa frv. Og ég þykist náttúrlega vita, að það duga ekki neinar langar ræður um þetta nú, en þessa afstöðu okkar vildi ég láta koma fram.