15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (1972)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég er einn af fim. þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 136, um kaup og útgerð togara og stuðning við sveitarfélög til atvinnuframkvæmda. Aðrir flm. þess eru hv. 3. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, hv. 9. landsk. þm., Karl Guðjónsson, og hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson. Mun ég hér gera grein fyrir flutningi frv. frá mínu sjónarmiði.

Eins og ég nú hef tekið fram, eru flm. frv. úr fjórum þingflokkum, en eins og skýrt er frá í grg. þess, er það að verulegu leyti sett saman úr og sniðið eftir fjórum lagafrv., er flutt voru á Alþ. 1954 og fjölluðu um atvinnulíf við sjávarsíðuna, þ. á m. og sér i lagi togaraútgerð til atvinnujöfnunar. Þessi frv. voru:

1) Frv. til l. um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar, sem ég var flm. að ásamt hv. 3. landsk. þm., Hannibal Valdimarssyni.

2) Frv. til l. um útgerð togara til þess að koma á og viðhalda jafnvægi i byggð landsins, flutt

af þrem þm. Framsfl. í Ed., hv. þm. S-Þ., Karli Kristjánssyni, hv. 1. þm. Eyf., Bernharð Stefánssyni, og hv. 2. þm. S-M., Vilhjálmi Hjálmarssyni.

3) Tvö frv., sem flutt voru af þm. úr Sósfl., hv. 9. landsk., hv. 11. landsk., hv. 4. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. Þau frv. fjölluðu um smíði togara innanlands og aukningu togaraflotans svo og stuðning bæjar- og sveitarfélaga til atvinnuframkvæmda.

Þess vil ég jafnframt gata, að ég hef snemma á þingi því, er nú situr, ásamt öðrum þingmanni úr Framsóknarflokknum, hv. þm. A-Sk., Páli Þorsteinssyni, flutt frv. um stofnun jafnvægislánadeildar við Framkvæmdabanka Íslands. Hef ég áður rætt það frv. í framsöguræðu við 1. umr., en það er nú til athugunar í þingnefnd. Mun ég ekki gera nánari grein fyrir því að þessu sinni, en annar ræðumanna Framsfl. mun væntanlega ræða það nokkru nánar.

Í frv. því, sem hér er til umr., er það fyrst og fremst II. kafli frv., um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar, sem veldur því, að ég er einn af flm. þess ásamt þm. úr flokkum, sem aðhyllast ríkisrekstur. Sjónarmið mitt í þessu efni er byggt á því, að ég veit, að það er skammgóður vermir fyrir lítil sjávarþorp að eignast að nafninu til togara til að afla hráefnis fyrir fiskiðjuver sín, togara, sem svo geta orðið févana þegar á fyrstu mánuðum með þeim afleiðingum, að byggðarlögin missi þá aftur eftir lengri eða skemmri tíma. Ef svo er, er hætt við, að slík útgerð skilji aðeins eftir vantrú fólksins á lífsafkomumöguleika í heimabyggð. Þar með er þó ekki loku fyrir það skotið, að útgerð, sem þannig er til stofnað, geti komið að gagni á hinum fjölmennari stöðum, og kem ég að því síðar. En togaraútgerð fyrir fámenn þorp verður naumast að gagni að mínum dómi, nema ríkið komi þar til sögunnar. Það er þess vegna, sem ég hef á undanförnum þingum ásamt hv. 3. landsk., Hannibal Valdimarssyni, gerzt flm. að fyrrnefndu frv. um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar. Í frv. okkar hv. 3. landsk. var gert ráð fyrir, að ríkið keypti og gerði sjálft út eigi færri en fjóra togara af þeirri stærð og gerð, sem að áliti reyndustu útgerðarmanna væru taldir heppilegastir til öflunar hráefnis á heimamiðum fyrir hraðfrystihúsin og önnur fiskiðjuver, sem illa eru hagnýtt vegna hráefnisskorts. Samkv. frv. okkar átti það að vera höfuðmarkmið þessarar togaraútgerðar ríkisins að jafna atvinnu í kaupstöðum og kauptúnum landsins á þann hátt, að togarinn legði þar einkum afla á land, sem atvinnuleysi gerir vart við sig og mest er þörf hráefnis og aukinnar atvinnu hverju sinni. Togaraútgerð ríkisins skyldi hafa sjálfstæðan fjárhag og reikningshald, en ríkissjóður bera ábyrgð á rekstri fyrirtækisins og sjá því fyrir rekstrarfé.

Nú gerir þetta frv., sem hér er til umr., ráð fyrir, að byggðir verði alls 15 togarar hér og erlendis, enda séu ekki færri en 5 þeirra reknir af ríkinu til atvinnujöfnunar. Þá er einnig tekið upp í hið nýja frv. okkar fjórmenninganna ákvæði í frv. hinna þriggja framsóknarþingmanna í Ed. frá í fyrra þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 5 millj. kr. til þess að kaupa hlutabréf í hlutafélögum, sem stofnuð eru með þátttöku tveggja eða fleiri bæjar- eða hreppsfélaga til að reka togaraútgerð. Þar og í frv. framsóknarmannanna þriggja segir svo m.a.:

„Nú verða stjórnir tveggja eða fleiri bæjar eða hreppsfélaga, þar sem atvinna er stopul eða fiskvinnslustöðvar skortir verkefni, sammála m að stofna félag til útgerðar og leggja fram hlutafé í þeim tilgangi, og skulu þær þá leita eftir hlutafjárframlögum hjá íbúunum, hver á sínum stað, og öðrum, er þær telja til greina koma sem hluthafa.

Þegar safnazt hefur hlutafé, er nemur a.m.k. 10% af áætluðum stofnkostnaði útgerðarinnar, er bæjar- eða hreppsstjórnum rétt að snúa sér til félmrn. með beiðni um hlutafjárframlag af hálfu ríkisins, og er þá ríkisstj. heimilt að leggja fram allt að 10% stofnkostnaðar, enda séu löndunar- og verkunarskilyrði á togaraafla fyrir hendi í þeim kaupstöðum eða kauptúnum, er að félagsstofnuninni standa. Ríkisstjórninni er heimílt að ábyrgjast f.h. ríkissjóðs lán allt að 80% af stofnkostnaði útgerðarfélaga, sem mynduð eru samkv. ákvæðum þessa kafla.“

Þetta eru ákvæði úr efrideildarfrumvarpi þriggja framsóknarmanna í fyrra, sem tekin hafa verið inn í frv. okkar fjórmenninganna og ég tel að komið geti að góðu gagni í hinum fjölmennari stöðum.

Framsfl. í heild er því fylgjandi, að þessi leið verði farin svo sem fært reynist, og hann hefur heldur enga flokkslega fordóma gegn ríkisrekstri, ef slíkt rekstrarform er að hans dómi óhjákvæmilegt til að leysa brýn verkefni, enda hefur nýafstaðið flokksþing Framsfl. gert svofellda yfirlýsingu:

„Komið verði á fót bæjar- og félagsútgerð eða ríkisútgerð togara til stuðnings þeim landshlutum, sem skortur er á atvinnutækjum í, og miðað að því að skapa skilyrði til löndunar á togarafiski, þar sem skortir hráefni til vinnslu í fiskiðjuverum.“

IV. kafli frv. okkar fjórmenninganna fjallar um það, að ríkisstj. sé heimilt að taka 50 millj. kr. lán, sem endurlánað verði bæjar- og sveitarfélögum til atvinnuframkvæmda og framleiðsluaukningar. Skal lánum til bæjar- og sveitarfélaga fyrst og fremst varið til byggingar og endurbóta á frystihúsum, fiskimjölsverksmiðjum, lýsisvinnslustöðvum og til annarra mikilvægra fiskvinnslustöðva. Einnig má veita slík lán til framkvæmda, er miða að því að bæta aðstöðu til afgreiðslu fiskiskipa eða með öðrum hætti að auðvelda hagnýtingu sjávarafla. Bæjar- og sveitarstjórnum er síðan heimilt að endurlána einstaklingum eða félögum lán þessi, enda sé jafnframt örugglega frá því gengið, að lánin komi þannig að fullu gagni til atvinnu- og framleiðsluaukningar á staðnum. Ræði ég þann kafla ekki nánar og ekki heldur I. kaflann, a.m.k. ekki í þetta sinn.

Ég kem þá aftur að togaraútgerðinni og ástæðum mínum fyrir því, að skapa þurfi löggjafargrundvöll fyrir ríkisútgerð a.m.k. vegna einhvers hluta togaraflotans. Það er vitað mál, að togaraútgerðin, sem nú er rekin í landinu, hefur þurft á s.l. ári til þess að fljóta að fá 2000 kr. tillag á dag, sem ríkið hefur orðið að afla með sérstökum bifreiðaskatti. Þetta hefur verið gert án þess, að nokkur afskipti ríkisvaldsins hafi komið til greina í þá átt að skylda togarana til að leggja afla á land á staði, sem vantaði hráefni til vinnslu. Svona ríkisaðstoð kemur ekki að gagni nema þeim, sem hlotið hafa togarana, sem fyrir eru í landinu. Nú hefur áðurnefnt tillag verið hækkað um 3000 kr. á hvern rekstrardag togaranna.

Það hefur orðið hlutskipti þeirra ríkisstjórna, sem með völdin hafa farið eftir heimsstyrjöldina, að endurnýja togaraflota landsmanna og gera á honum miklar umbætur til batnaðar, bæði hvað snertir afköst og aðra hætti. Nokkuð hefur áunnizt í því að dreifa skipunum út um landið til hinna fjölmennari staða, en enn þá eru flest minni kauptúnin á Vestur-, Norður- og Austurlandi með árstíðabundið atvinnuleysi og má jafnvel nefna ýmsa stærri staði þar með. Það er ekki að sjá, að togaraútgerðin í landinu sé byggð á fjárhagslega traustum grundvelli. Þessi atvinnurekstur er fjárfrekur, og þegar hallar á ógæfuhlið með slíkan rekstur, eru upphæðir það háar, að ekki er fært fyrir lítil hreppsfélög að ráða við slíkt ofurefli. Þess vegna hefur þróunin orðið sú, að það eru aðeins stærri bæjarfélögin með mikla tekjustofna, sem hafa getað haldið slíkum rekstri gangandi með meðgjöfum frá bæjarsjóðunum og nú frá ríkinu, en minni kauptúnin, þar sem bátafiskur gengur ekki á grunnmið, vantar hráefni til vinnslu og atvinnu a.m.k. hluta úr árinu.

Nú eru hinir eldri nýsköpunartogarar orðnir 8–9 ára gamlir og engin nýtízku skip, hafa e.t.v. aldrei verið það. Yngri togararnir, sem voru tíu talsins, munu vera 4–5 ára og fullkomnari skip. Endingartími togara er takmarkaður, sér í lagi að því er varðar samkeppnishæfni við veiðar. Að öllu þessu þarf að gefa gaum. Varðandi sérstaka landshluta kemur fleira til, sem ekki verður gengið fram hjá í sambandi við þetta mál.

Vorið 1951 var friðunarlína fiskimiða hér við land færð út, svo sem kunnugt er, og Faxaflói og fleiri breiðir firðir friðaðir fyrir botnvörpuveiðum. Þjóðin fagnaði þessum ráðstöfunum, svo sem vera ber, og þær eru til mikilla hagsbóta fyrir bátaútveginn í stórum landshluta, en ekki alls staðar. Á Vestfjörðum og víðar, þó einkanlega á Vestfjörðum, er það almannamál, að hinar nýju friðunarráðstafanir hafi komið að fremur litlu gagni, en hins vegar haft þar mjög alvarlegar afleiðingar. Togarar, sem hafa misst af veiðisvæðum við Suður- og Vesturland, hafa sótt miklu meira en áður á miðin úti fyrir Vestfjörðum og dregið úr aflamöguleikum bátaútvegsins þar. Fyrir Vestfirði er nýja friðunarlínan því algerlega ófullnægjandi. Hún þarf að vera a.m.k. 16 mílur fyrir utan grunnlínu eða 12 mílum utar en hún er nú. —

Á Alþingi hef ég ásamt hv. 3. landsk. þm. borið fram till. um, að reglugerðinni yrði breytt og friðunarlínan færð út, eins og nú hefur verið nefnt að nauðsynlegt er. Skal ekki nánar farið inn á að ræða það mál hér. En þjóðfélagið hefur skyldur að rækja við Vestfirði, því má ekki gleyma. Hafið úti fyrir Vestfjörðum er íslenzku togaraútgerðinni dýrmætasta veiðisvæðið hér við land og hefur verið það frá upphafi hennar. Halamið, Víkuráll og Hornbanki hafa oft og tíðum haft að geyma stærsta gjaldeyrisforða Landsbankans og þar með allrar þjóðarinnar. Það er því fullkomið réttlætismál, að það þjóðfélag, sem lætur yrja upp þann gjaldeyrissjóð vestfirzkrar alþýðu til sjávar og sveitar, skili örlitlu aftur til kaupa nýrra togara, svo að hún megi halda áfram að byggja upp sína fögru og frjósömu firði í stað þess að verða að taka þátt í þjóðflutningunum til Reykjanesskagans.

Við ykkur Vestfirðinga, einkum þá, er á hinum fámennari stöðum búa, vil ég segja þetta: Ég þekki orðið svo vel, hvernig er að útvega fisk til vinnslu í landi á þeim tímum, sem þörfin er mest og brýnust ástæða til úrbóta, að mér er ljóst, að öryggi fyrir efnahagslegu sjálfstæði er ekki unnt að skapa með öðru en ríkisreknum togurum í félitlum byggðarlögum, sem geta ekki staðið undir óhöppum eða töpum af rekstri. En það sýnir reynslan af allri togaraútgerð hér á landi, að fjárhagsgrundvöllur fyrir rekstri hennar er ótryggur, enda verða þá jafnan aðgerðir Alþingis og ríkisstj. að koma til, ef á ógæfuhlið hallar með þann rekstur, eins og ég áður hef á minnzt, enda réttmætt, af því að þjóðarheildin þarf á gjaldeyrisöflun togaranna að halda.

Það er ekki unnt að byggja trú fólks á lífsafkomumöguleika fyrir langa framtíð, þó að einhver tækifærissinni, sem fallvalt veraldarhjól snýst í haginn fyrir í dag á einhverju sviði, sýnist gegnum stundarduttlunga taka að sér að tapa á framleiðslu í bili, þangað til hann gefst upp fyrir fjárþröng eða missir áhuga fyrir hugsjón, sem aldrei rætist eða verður að veruleika. Sameiginleg átök þjóðarinnar verða að koma til í enn ríkara mæli en áður til aukinnar hagsældar í afskekktum byggðarlögum landsins. Vestfirðingar og aðrir, sem líkt stendur á fyrir í útvegsmálum, verða að standa sameinaðir.

En enga þarf að undra, þótt Sjálfstfl. eða fulltrúar hans velti vöngum yfir þessu frv. Það eru eðlileg viðbrögð þess flokks. Bak við vangaveltur hans býr að vísu umhyggja, en ekki fyrir þeim, sem mega sin miður, heldur fyrir sérréttindum og ójöfnuði. Nú er tími til kominn fyrir þjóðina að svara þeim pólitísku öflum innan sinna vébanda á verðugan hátt, er setja rétt einstaklinga ofar hagsmunum fjöldans, hvar í byggð sem er. Þeir verða að krefjast réttlætis og skynsamlegra aðgerða.

Á Suðurnesjum hafa að undanförnu gerzt vellystingarævintýri, en ekki má öll þjóðin safnast þangað. Það mundi ekki verða henni til hamingju, og sem betur fer er víðar en þar gott að vera í okkar fagra landi, ef rétt er á haldið.

Jafnvægi í byggð landsins er oft nefnt um þessar mundir. En það þarf meira en orð til þess að skapa raunverulegt jafnvægi og viðhalda því í byggð Íslands. Það þarf djarfhuga framkvæmdir. Frv. þetta, sem ég hef nú fyrir mitt leyti gert grein fyrir, er vangaveltulausar tillögur um slíkar framkvæmdir. Dreifbýli landsins verður bezt tryggt atvinnu- og fjárhagslega með því, að þjóðin sé þess umkomin að fylkja sér um þann málstað, sem treystir varanlega atvinnuhætti, er skapi trú æskunnar á eigin átthaga, því „hollt es heima hvat“. Þess vegna er það von mín, að hv. Alþ. afgreiði nú frv. þetta, er hér liggur fyrir til umr., sem lög frá Alþingi, áður en því verður slitið.