15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í C-deild Alþingistíðinda. (1973)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Til þessara útvarpsumræðna er stafnað að ósk kommúnista, sem aldrei þreytast á að reyna að telja þjóðinni trú um, að þeir beri manna mest atvinnumál hennar fyrir brjósti og ekki sízt sjávarútveginn og þá sérstaklega togaraútgerðina. Vitna þeir sí og æ í, að stjórn þeirra og Ólafs Thors 1944–46, sem kallaði sig nýsköpunarstjórn, hafi keypt rúmlega 30 togara í stað gömlu ryðkláfanna, sem svo voru nefndir. Þessi svokallaða nýsköpunarstjórn, sem kommúnistar réðu allmiklu í, fór illa og óhöndulega með þann gjaldeyri, sem hún fékk í hendur, og lét jafnvel heilar stéttir eins og bændur fara að mestu á mis við aðstoð við að afla sér nýrra atvinnutækja.

En séu kommúnistar og aðrir, sem að stóðu, sérstaklega hrósverðir fyrir að verja hluta af hinum svokallaða stríðsgróða til endurnýjunar hinum gamla og úr sér gengna togaraflota, hvað verður þá sagt um næstu ríkisstjórn, sem á eftir kom og framsóknarmenn áttu sæti í? Sú stjórn tók við, þegar allir gjaldeyrissjóðir voru þrotnir, og keypti samt tíu togara, stærri og betri en svokallaðir nýsköpunartogarar eru.

Þeirri skoðun var lengi haldið á lofti, að það væri ekki á færi annarra en stærstu bæjanna við Faxaflóa að gera út togara. Nýsköpunarstjórnin virðist hafa verið á sama máli, því að hún gerði ekkert til að hjálpa hinum fámennari landshlutum til að eignast slík skip, fyrr en með einhuga stuðningi framsóknarmanna hafði verið borin fram á Alþ. áskorun til hennar um að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að svo mætti verða. Hins vegar gerði næsta ríkisstj. það ótilkvödd að beita sér fyrir og auðvelda dreifingu þeirra tíu togara, sem hún stóð fyrir kaupum á, og fór helmingur þeirra til staða utan Faxaflóa. Þykir nú sýnt og sannað, að hægt er að gera út togara frá hverjum þeim stað, sem hefur viðunandi hafnar- og fiskvinnsluskilyrði, og telja verður það staðreynd, að togararnir veiti þeim stöðum, sem þeirra njóta, svo mikið atvinnuöryggi, að ekki virðist nú fyrir hendi betra ráð til að viðhalda jafnvægi í byggð landsins við sjávarsíðuna en að gera sem flestum útgerðarstöðum kleift að njóta að meira eða minna leyti atvinnuöryggis með því að hjálpa þeim til að öðlast ítök í togaraútgerð.

Ýmsum kann að þykja undarlegt, að talað sé um aukna þátttöku hinna fámennari landshluta i togaraútgerð, þegar rekstur hennar gengur jafnilla og raun ber vitni. Það er vissulega illt til þess að vita, hvernig komið er í því efni, en ekki sérstaklega óvænt, þegar betur er að gætt og athugað, hvernig ástandið er yfirleitt í atvinnumálum okkar. Á það má og m.a. benda, að strax 1946 var bátaútvegurinn að þrotum kominn og hefur síðan orðið að fá rekstrarstuðning í einni og annarri mynd. Um s.l. áramót var svo komið fyrir honum, að sú aðstoð, sem hann hafði notið nokkur undanfarin ár eftir hinni svokölluðu bátagjaldeyrisleið, reyndist algerlega ófullnægjandi, enda af mörgum talið úrelt stuðningsform, þótt það á sínum tíma þætti handhægt og hafi orðið útgerðinni að miklu liði.

Það er mikið áhyggjuefni og ömurleg staðreynd, að fjárhagskerfi okkar virðist nú svo úr skorðum gengið, að íslenzk hönd getur tæplega framleitt samkeppnishæfa vöru fyrir erlendan markað. Og því alvarlegra er þetta sem fullyrða má, að fáar þjóðir eigi eins fjárhagslega velferð sína undir hagstæðri útflutningsverzlun og við Íslendingar. Má rekja tildrög þessa ástands aftur til síðari stríðsáranna, þótt ekki verði frekar farið út í þá sálma hér.

Örðugleika útflutningsframleiðslunnar kennir stjórnarandstaðan fyrst og fremst fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn. En sumir þeir, sem þar um gala hæst, áttu drjúgan þátt í að gróðursetja fyrir meira en áratug ræturnar að þeim erfiðleikum, sem nú virðist örðugt að yfirstíga. Fullyrða má, að síðan 1950 hafi allt verið gert sem unnt var að gera til að hjálpa útflutningsframleiðslunni og þá um leið atvinnulífinu í heild. Þessar ráðstafanir hafa þó ekki verið þess megnugar að komast fyrir og uppræta meinið sjálft, og er kommúnistum þar ekki sízt um að kenna, sem hafa með sundrungarstarfi sínu gert verkalýðssamtökin ómegnug þess að geta tekið höndum saman við önnur lýðræðisleg umbótaöfl í landinu. Má líka segja, að á síðustu árum hafi þeir ekki staðið einir við þessa iðju, þar sem þeim hefur bætzt liðsauki frá hinum svonefnda Þjóðvarnarflokki, sem fylgir kommúnistum trúlega í því að sundra þeim, sem til þjóðþrifa ættu saman að vinna, og sannar það bezt seinni hluti ræðu Gils Guðmundssonar þingmanns, þar sem hann afflutti og gerði forustumönnum Framsfl. og þingflokknum í heild upp orð og athafnir, sem eru staðlausir stafir.

Margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar síðan 1950 hafa orðið þjóðinni mjög gagnlegar. Má telja, að án þeirra væri fólkið til sjávar og sveita meira og minna sokkið í eymd atvinnuleysis og fjárhagsvandræða. Vonir stóðu til og ástæða var að ætla, að ýmsar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til hagsbóta útflutningsframleiðslunni, entust lengur en raun hefur á orðið, og eiga kommúnistar með Þjóðvörn sinn drjúga þátt í, að svo hefur farið sem komið er í því efni. Þeir hafa snúizt öndverðir gegn hverri ráðstöfun, sem gerð hefur verið til framdráttar atvinnuvegunum. Þeir hafa æpt gegn bátagjaldeyri og fjáröflun vegna togaranna, án þess þó að benda á aðrar færar leiðir í málinu. Og þeir hafa hamazt móti hverri tekjuöflun til handa ríkissjóði, sem m.a. gerði mögulegt að rétta atvinnuvegunum hjálparhönd. Eru í þessu sambandi frægar að endemum ýmsar tillögur þeirra, sem gengu í þá átt að svipta ríkissjóð mikilvægum tekjustofnum, eins og t.d. söluskattinum, en sömu menn voru á sama tíma með hvers konar almennum útgjaldahækkunum. Er ekkert sýnna en að markmiðið hafi verið að koma fjárhag ríkisins í sömu erfiðleikana og atvinnuvegir okkar eru nú komnir í. Hvað varðar mig um þjóðarhag? var eitt sinn sagt. Þetta kjörorð virðist gilda hjá kommúnistum, þegar þeir telja það henta flokkshagsmunum.

Vegna góðs fjárhags ríkissjóðs síðustu ár hefur samkv. fjárlögum verið árlega hægt að verja milljónatugum í einu og öðru formi til eflingar landbúnaði og sjávarútvegi, auk þess sem til sömu hluta hafa árlega gengið vænar fjárfúlgur af tekjuafgangi ríkissjóðs. Má t.d. benda á, að síðustu fimm árin hefur verið varið allt að 30 millj. kr. til svonefndrar atvinnuaukningar, þ.e. til eflingar atvinnulífinu víðs vegar um land utan Faxaflóa og Vestmannaeyja. Hefur mikið af því fé verið veitt af tekjuafgangi ríkissjóðs, auk þess sem lánsstofnanir landbúnaðar og sjávarútvegs hafa einnig eftir þeirri leið fengið fé til útlána í þágu atvinnuveganna.

Andstæðingar Framsfl. virðast nú trúminni en áður á, að það þýði fyrir þá að reyna að bera brigður á, að Framsfl. hafi forustu um allt það, sem raunverulega varðar heill landbúnaðarins. Hins vegar hafa þeir tregðazt við að viðurkenna forustuhlutverk flokksins í sjávarútvegsmálum. Sannleikurinn er þó sá, að Framsfl. hefur yfirleitt átt frumkvæði að eða staðið með öllum þýðingarmestu og farsælustu aðgerðum, sem gerðar hafa verið til eflingar sjávarútvegsins. Má sem dæmi nefna fiskveiðasjóð, sem Framsfl. beitti sér 1930 fyrir að yrði efldur og gerður að lánsstofnun fyrir bátaútveginn, og ætíð síðan hefur flokkurinn staðið að nauðsynlegri eflingu sjóðsins. Hafa stofnlán hans til bátakaupa og byggingar fiskiðjuvera og fiskimjölsverksmiðja síðan 1930 numið samtals rúmlega 112 millj. kr., og þar af hafa gengið um 60% til staða utan Faxaflóa. Þá stofnaði Framsfl. fiskimálasjóð í samvinnu við Alþfl. 1935 og beitti sér einnig 1947 fyrir verulegri eflingu hans. Hefur sá sjóður orðið útgerðinni til stórmikils gagns, bæði með lánum og styrkveitingum í þágu framfaramála sjávarútvegsins. Þá stóð Framsfl. að stofnun Framkvæmdabankans, sem hefur veitt meira en 6 millj. kr. lán til byggingar fiskiðjuvera. Og ætíð síðan 1947 hefur flokkurinn staðið að fjárlagaheimild, sem þá fyrst var veitt ríkissjóði, að ábyrgjast lán til frystihúsabygginga. Hefur sú ráðstöfun stórlega greitt fyrir slíkum framkvæmdum og ríkissjóður síðan veitt til þeirra hluta ábyrgðir að upphæð nálægt 24 millj. kr. Þá hef ég áður bent á þátt Framsfl. í að gera útgerðarstöðum úti á landi kleift að fá togara. Ætti svo að vera óþarft að minna á, að Framsfl. hefur tekið þátt í þeim ráðstöfunum, sem á síðari árum hafa reynzt nauðsynlegar til þess að aðstoða útgerðina, svo að hún gæti haldið óhindruð áfram. Og giftudrjúg fjármálastjórn ríkissjóðs á undanförnum árum hefur gert það mögulegt að hlaupa betur en ella undir bagga útflutningsframleiðslunnar. Þá er víssulega ástæða til að segja það hér, að sérstakar verðbætur, sem nú eru greiddar úr ríkissjóði á allan smáfisk, bæði þorsk og ýsu og einnig á steinbít, eru teknar upp eftir ötula forgöngu og kröfu Framsfl., og munu þær ráðstafanir hafa stórmikla þýðingu fyrir bátaútveginn, ekki sízt austanlands og norðan. Einnig er vert að geta þess, að framsóknarmenn hafa á þessu þingi lagt fram frv. um jafnvægislánadeild Framkvæmdabanka Íslands, og er frv. flutt af þeim alþm. Eiríki Þorsteinssyni og Páli Þorsteinssyni. Í frv. er gert ráð fyrir, að jafnvægislánadeildin fái 10 millj. kr. árlegt stofnframlag frá ríkissjóði næstu fimm ár og að ríkið ábyrgist allt að 100 millj. kr. lán, sem deildinni er ætlað að taka til starfsemi sinnar. Gert er ráð fyrir að veita lán til staða, þar sem skortur er á atvinnutækjum, og einnig til hafnarbóta, þar sem löndunarskilyrði fyrir stærri fiskiskip, svo sem togara, eru ekki fyrir hendi. Þá er í frv. gert ráð fyrir heimild að greiða til bráðabirgða rekstrarskuldir atvinnufyrirtækja, ef um byrjunarörðugleika er að ræða og fyrirtækið hefur fengið lán úr sjóðnum. Ekki mun þetta frv. fá afgreiðslu á þessu þingi, en víst er, að hér er bent á leið til úrlausnar miklu vandamáli dreifbýlisins við sjávarsíðuna.

Það, sem hér hefur verið bent á sem dæmi um aðgerðir Framsfl. til stuðnings sjávarútveginum, sannar hið raunverulega viðhorf hans í þeim efnum. Framsfl. vill ætíð vera vakandi á verðinum og sífellt leita að úrræðum til aðstoðar, þar sem þess er þörf, og aðgerðir sínar í sjávarútvegsmálum hefur flokkurinn ætíð viljað miða við það, sem á hverjum tíma hefur virzt vera þjóðarheildinni fyrir beztu. Framsfl. vill nú sem áður stuðla að sem mestu jafnvægi í atvinnu- og efnahagsmálum, jafnt til sjávar og sveita, og mun þjóðinni slík stjórnmálastefna farsælust.