15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í C-deild Alþingistíðinda. (1975)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hv. áheyrendur. Umræðurnar í kvöld byrjuðu þannig, að ég var farinn að halda, að hér yrðu aðallega flutt fræðileg erindi um sjávarútveg, menn mundu halda sér við málefnalegar umræður, og þá var út af fyrir sig vel. En sá gamli Adam var ekki langt undan. Hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, lét sig hafa það hér að fullyrða, að Alþfl. hefði sýnt sjávarútveginum fullan fjandskap. Samtímis átti hann varla nógu sterk orð til þess að lofa framtak nýsköpunarstjórnarinnar, en hann gleymdi því, — viljandi eða óviljandi, — að það var Alþfl., sem setti þau skilyrði fyrir þátttöku sinni í nýsköpunarstjórninni, að þessi tæki yrðu fengin hingað til landsins.

Hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, hafði hér uppi einnig sérstakan málflutning, en ég mun koma að því örlitið síðar.

Mig langar þó til þrátt fyrir þetta að fara nokkrum orðum um það mál, sem hér liggur fyrir, þó að ég verði að stikla á stóru og enda ekki nauðsynlegt að fara langt út í það, því að það hefur verið rætt hér allnokkuð af þeim, sem undan mér hafa talað.

Kjarni þess máls, sem hér liggur fyrir, er togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar. Þetta mál hefur Alþfl. flutt á undanförnum þingum mörgum, en það hefur hins vegar ekki enn náð fram að ganga. Ég vildi um afstöðu flokksins til þessa máls nú segja, að það sé eitt af þeim málum, sem flokkurinn leggur hvað allra mesta áherzlu á að koma fram, hvenær og hvernig sem hann sér færi á.

Andstæðingar Alþfl. hafa á undanförnum árum talað fagurlega um jafnvægi í byggð landsins, sem svo er kallað, en einhvern veginn hefur þeim tekizt að harka það af sér að koma þessari hugmynd fyrir kattarnef, sem í frv. felst, sem þó er viðurkennd af öllum að vera langáhrifaríkasta aðferðin til þess að útrýma atvinnuleysi úr kauptúnum og sjávarþorpum.

Hér á Suðvesturlandi hefur atvinna og afkoma undanfarin ár verið allgóð. Höfuðástæðurnar til þess eru aðallega tvær og báðar að nokkru leyti ósjálfráðar. Hin fyrri er vinna við varnarliðsframkvæmdirnar og byggingarvinna ýmiss konar, sem við hana er tengd, beint og óbeint. Hin síðari er löndunarbann Breta, sem hefur neytt okkur til að verka þann fisk, sem við veiðum, þegar við gátum ekki selt hann óunninn úr landi, ísaðan, eins og áður. Þetta hljómar undarlega, en svona er það nú samt. Verkunarlaun í landi á þeim 50—60 þúsund tonnum, sem togararnir áður fluttu árlega til Bretlands, og tekjur af vinnslu á úrgangi úr þeim afla nema tugum milljóna króna, sem eiga nú að geta orðið varanleg og örugg viðbót við heilbrigðar atvinnutekjur þjóðarinnar. Þessar tekjur falla af eðlilegum ástæðum fyrst og fremst i skaut þeim stöðum, þar sem togararnir eiga heima, a.m.k. þegar aðstaða hefur verið sköpuð til þess að taka á móti þessum afla til vinnslu á þessum stöðum, og að því er nú unnið viðast hvar.

Nú skiptist togaraeign landsmanna þannig, að 26 eiga heimahöfn við Faxaflóa, 4 á Vestfjörðum, 8 á Norðurlandi og 3 á Austfjörðum. Hv. ræðumaður, sem hér talaði á undan mér, vildi gera hlut landsbyggðarinnar betri með því að segja, að í Reykjavík væru aðeins 17 togarar, en hinir 24 staðsettir úti á landi. Þetta má segja að sé rétt. En hitt er einnig rétt, að við Faxaflóa eiga þeir heima 26, en hinir 15 skiptast á alla hina landsfjórðungana. Um það bil 2/3 af skipunum eru því staðsettir hér við Faxaflóa, en aðeins rúmur 1/3 samtals í öllum hinum landshlutunum. Auk þess er það að athuga, að þessi þriðjungur togaraflotans, eða 15 skip, er staðsettur á ákveðnum stöðum og leggur því fyrst og fremst á land afla sinn þar. Það er því ljóst, að margir staðir, sem þó hafa möguleika til verkunar, verða alveg útundan og aðrir, sem að vísu hafa umráð yfir togara eða parti úr togara, fá ekki nema nokkurn hluta þess, sem þeir gætu tekið á móti.

Úr þessu ástandi er frv., sem hér liggur fyrir, ætlað að bæta. Nokkrir af smæstu kaupstöðunum, eins og Húsavík, Ólafsfjörður og Sauðárkrókur, hafa að vísu komið sér saman um útgerð togara, og nokkuð svipað hefur gerzt á Austurlandi, og er það vitaskuld spor í rétta átt, það sem það nær. En hvort tveggja er, að ekki nær þessi útgerð til allra staða á svæðinu, sem koma þurfa til greina, og eins hitt, að hún er ekki megnug að fullnægja eftirspurninni á þessum stöðum eftir fiski til verkunar og þar að auki vanmáttug að standa af sér áföll, ef eitthvað ber út af við reksturinn, en hann er nú, eins og öllum er kunnugt, mjög ótryggur. Allt ber þetta að sama brunni, að hér verður einhver viðbótaraðili til að koma til þess að fylla í skarðið. Þessi aðili getur enginn annar orðið en ríkissjóður, enda ber honum vissulega til þess nokkur skylda.

Hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, sem siðast talaði hér, lýsti sig þó andvígan því, að þetta rekstrarform yrði tekið upp, og hann gerði meira, hann talaði háðulega um þá staði, sem gefizt höfðu upp vegna fjárskorts í sinni útgerð. En þetta, hvernig margir staðir hafa gefizt upp við sinn togararekstur, sýnir einmitt það, að þegar útgerðin berst í bökkum, þá er hún of stórkostleg til þess, að smástaðir, kauptún og minni kaupstaðir, geti við hana ráðið.

Einstaklingur, sem útgerð togara stundar, álítur sér ekki bera neina skyldu til að leggja afla á land á öðrum stöðum en þar, sem honum sjálfum þóknast, eða frekar en hagsmunir hans sjálfs gefa tilefni til, og sveitarstjórnirnar á stöðunum eru þess ekki umkomnar að hefja útgerðina sjálfar. Annaðhvort verður því að fara þá leið, sem frv. bendir á, eða gefa verður atvinnulíf þessara staða að þessu leyti alveg upp á bátinn. Eftir því óskar náttúrlega enginn.

Í sambandi við togaraútgerð okkar Íslendinga og alveg sérstaklega í sambandi við þá fjölgun togaranna, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er óumflýjanlegt að reyna að gera sér grein fyrir, hvernig koma mætti þessum rekstri á traustari og fastari grundvöll en nú er. Eins og er, verður ríkissjóður að greiða hverjum togara 5000 kr. á úthaldsdag og þó nokkuð meira. Þetta er engin lausn til frambúðar, þó að hún hafi verið notuð sem örþrifaráð til bráðabirgða. Það verður því að leitast við að finna leiðir til þess að draga úr þessum greiðslum ríkissjóðs og helzt að koma rekstrinum þannig fyrir, að hægt sé að losna við þær með öllu.

Togaranefndin, sem starfaði að athugun þessara mála fyrir einu og hálfu ári, var sammála um eftirfarandi atriði til þess að létta undir með rekstri togaranna: Í fyrsta lagi að lengja lánstíma stofnlána þeirra, er á skipunum hvíla. Í öðru lagi að auka rekstrarfé skipanna,svo að þau gætu gert hagkvæmari innkaup. Í þriðja lagi, að togaraútgerðinni verði gert kleift að koma sér upp eigin fiskvinnslustöðvum, til þess að útgerðin sjálf geti fengið fullt andvirði aflans. Í fjórða lagi að afskrifa nokkuð af stofnkostnaði nýjustu togaranna. Í fimmta lagi, að vátryggingariðgjöld verði lækkuð. Í sjötta lagi, að olíuverð verði lækkað. Í sjöunda lagi, að vextir verði lækkaðir. Og í áttunda lagi, að farmgjöld af útfluttum afurðum þeirra yrðu lækkuð. Síðan yrði það, sem ekki næðist á þennan hátt, greitt úr einhvers konar rekstrartryggingarsjóði til bráðabirgða, sem ríkissjóður aflaði tekna í eins og nú hefur verið gert um hríð.

Ég tel engan vafa á því, að hefðu þessi atriði öll, sem n. var sammála um, verið tekin til greina af ríkisstj., þá hefði verið hægt að draga mjög verulega úr þeim styrk, sem ríkissjóður verður nú að leggja fram og almenningur að greiða. En hæstv. ríkisstj. óskaði ekki eftir því að fá þessar till. einu sinni til sín, til þess að hún þyrfti ekki að ómaka sig við að finna neina leið til þess að vísa þeim frá. Sannleikurinn er sá, að að hennar dómi þurftu allir aðilar, sem nálægt útgerðinni komu, að græða á henni, þó að hún sé sjálf rekin með dúndrandi tapi.

Bankarnir græða tugi milljóna á hverju ári, en þó má ekki lækka vextina. Viðhaldskostnaður skipanna er orðinn svo gífurlegur, að engu tali tekur. Ég þekki dæmi af einum nýsköpunartogara, sem kom hingað til lands 1947. Fyrstu árin á viðhald skips og áhalda að vera mjög hóflegt samanborið við það, sem síðar verður, þegar skipin fara að eldast. En hjá þessu skipi var viðhaldskostnaðurinn einn saman fyrstu 7 árin jafnmikill og allt kaupverð skipsins í upphafi, og þetta er áreiðanlega ekkert einsdæmi. Vátryggingarfélög, olíufélög og eigendur flutningaskipa þurfa líka að fá verulegan gróða í sinn hlut, og þeir, sem kaupa aflann til verkunar í landi, sömuleiðis. Á meðan allt þetta er látið ganga eftirlitslaust og óátalið af stjórn landsins og á meðan einnig eru afnumdar allar hömlur á verðlagi, húsaleigu og ýmiss konar þjónustu, er engin von til þess, að hægt sé að reka þennan atvinnuveg né rannar neinn annan atvinnuveg á nokkurn veginn heilbrigðum grundvelli. Á meðan ekki er spyrnt við fótum, heldur hjólið áfram að snúast. Sjómenn og verkafólk neyðist til þess að hækka sitt kaup, styrkurinn úr ríkissjóði verður þá einnig að hækka, og skatturinn á almenning hækkar svo aftur að sama skapi. Á þessu græðir enginn nema braskarar, sem á hinn bóginn geta grætt stórfé, ef þeir eru sniðugir að koma ár sinni vel fyrir borð.

Hvað á þá til bragðs að taka? spyrja menn. Það verður að snúa við og taka upp gerbreytta stjórnarstefnu. Það verður að lækka milliliðagróðann og allan þann gróða, sem á þurru landi er tekinn af taprekstri útgerðarinnar. Þegar það hefur verið gert, og þá fyrst þegar það hefur verið gert, er hægt að freista þess að koma á samkomulagi við verkalýðs- og sjómannasamtökin eða milli þeirra og ríkisstj. og útgerðarinnar um heilbrigða lausn málsins. En þessi lausn verður að finnast. Undanfarin ~3 ár hefur togaraútgerðin verið rekin með svo miklu tapi þrátt fyrir styrkinn úr ríkissjóði, að það er beinlínis hefndargjöf að stuðla að því, að fátæk bæjar- og sveitarfélög ráðist í slíkt, nema tryggari grundvöllur undir rekstri þeirra verði fundinn.

Sjálfstfl. virðist ekki hafa áhuga á því að lækka þá kostnaðarliði útgerðarinnar, sem ég nefndi áðan. Til þess bendir a.m.k. það, að till. mþn. um lækkun milliliðagróðans voru ekki teknar til greina. Eina vonin til þess, að það fáist gert, er, að skipt verði um ríkisstj. Umr. um það hafa nú farið fram um nokkurt skeið. Á flokksstjórnarfundi Alþfl. í nóvember s.l. var samþykkt að leita samstarfs við Framsfl. og Þjóðvfl. um kosningabandalag og stjórnarmyndun að kosningum loknum, í höfuðatriðum á þeim grundvelli, sem markaður var á fundinum, þ.e. lýðræðissinnaða og vinstri sinnaða umbótastjórn, er miði stefnu sína við hagsmuni alþýðustéttanna í landinu, en ekki braskaranna. Undir þetta var mjög linlega tekið af Þjóðvfl. og eiginlega alveg neikvætt. Hins vegar tók Framsfl þessari uppástungu vel, og á nýafstöðnu flokksþingi hans nú í þessari viku var samþykkt að ganga til samvinnu við Alþfl. á þessum grundvelli. Málin standa því þannig nú, að gera má ráð fyrir, að þessir tveir flokkar, Alþfl. og Framsfl., geti nú alveg á næstunni gengið frá samkomulagi sín á milli um fullkomna samvinnu í væntanlegum alþingiskosningum í vor og um stjórnarmyndun eftir þær á málefnagrundvelli, sem þegar hafa verið lögð drög að á þingum flokkanna og gerður verður alþjóð kunnur fyrir kosningar.

Von íslenzkrar alþýðu um breytta og bætta stjórnarstefnu er eingöngu bundin við, að þessi samtök sigri í kosningunum og fái hreinan meiri hluta, enda .hafa þau öll skilyrði til þess að geta fengið það. Til þess að hrinda því máli í framkvæmd, sem hér liggur fyrir f kvöld til umr., togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar, aukningu togaraflotans og byggingu fiskvinnslustöðva, og fjöldamörgum öðrum hliðstæðum málum og til þess að koma fyrir kattarnef þeim ormi, sem nagað hefur rætur atvinnulífsins, verður að tryggja, að þau samtök, sem ein hafa möguleika til að geta þetta, fái tækifæri til þess.

Það má sjá þess ýmis merki, að Sjálfstfl. er orðinn uggandi um sinn hag. Hans vonir byggjast auðvitað eins og vant er á sundrungu andstæðinga hans. Það er því augljóst, að hann lítur ekki hýru auga þau samtök, sem nú er verið að tala um að mynda til andstöðu við hann. Það er því ekki ónýtt fyrir hann að fá hér liðsmann eins og hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, sem hér var að burðast við að reyna að gera tortryggileg þau samtök, sem hér er verið að undirbúa. Ekkert er Sjálfstfl. jafndýrmætt og sundrungartal hans. Á því byggist hans eina von. En á það vil ég benda þeim hv. þm., að einmitt í samvinnu við Framsfl. hefur Alþfl. tekizt að þoka í framkvæmd ýmsum hinum þýðingarmestu málum fyrir íslenzka alþýðu, bæði til sjávar og sveita. Ég nefni aðeins verkamannabústaðalög, og tryggingalög fyrir verkamenn við sjávarsíðuna og afurðasölulög fyrir bændurna. Alþfl. er því engan veginn hræddur við að halda upp á fertugsafmæli sitt á þann hátt að ganga til samstarfs við Framsfl. um lausn aðkallandi mála til hagsbóta fyrir íslenzka alþýðu, hvað sem þessi hv. þm. kann að hafa um það að segja. Hann þarf hvort sem er væntanlega engar áhyggjur að hafa af fertugsafmæli síns flokks.