15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (1979)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hlustendur hafa nú heyrt óminn af vinsemd þeirra kumpána, sem um þessar mundir keppast við að bjóða hver öðrum bandalag til að eyða áhrifum okkar sjálfstæðismanna í stjórnmálum þjóðarinnar. Þau tilboð eru gerð að meira eða minna leyti af óheilindum og til að reyna að hressa upp á hrynjandi fylgi þeirra sjálfra og til að breiða yfir sundrungina, ekki aðeins milli þessara flokka, heldur einnig innan þeirra allra. En í öllu þessu bandalagstali gleyma þessir herrar mikilsverðasta og stærsta bandalaginu, því bandalagi, sem kjósendur úr öllum flokkum munu í sumar gera með atkvæði sínu við Sjálfstfl. til að tryggja samhenta og örugga stjórn í landinu á næstu árum, stjórn, sem getur tryggt áframhald þeirrar allsherjar uppbyggingar þjóðfélagsins, sem sjálfstæðismenn hafa beitt sér fyrir á undanförnum árum.

Það er eftirtektarvert, að hver þm. eftir annan skuli telja sig þurfa að sýna fram á gildi sjávarútvegsins fyrir Íslendinga, því að vissulega er sjávarútvegurinn undirstaða alls annars atvinnulífs hér á landi, þó að sjálfsagt sé að byggja sem flestar og margbreyttastar stoðir undir afkomu þjóðarinnar. Sú margbreytni hefur m. a. fengizt í smíði fyrstu stálskipanna, sem hér var lofsamlega minnzt áðan, og þakka ég þá hugulsemi andstæðinga minna. Við hinu var ekki nema að búast, að þeir gleymdu því, hverjir hafa beitt sér fyrir því, að þessi skip væru byggð hér innanlands, vegna þess að það er annars vegar Gunnar Thoroddsen af hálfu Reykjavíkurbæjar og hins vegar ég af hálfu dómsmálastjórnarinnar.

En af hverju þarf nú að brýna fyrir almenningi nauðsyn þess að halda uppi sjávarútveginum, þeim atvinnuvegi, sem er undirstaða velmegunar hér á landi? Svarið er ofur einfalt. Það eru þeir örðugleikar atvinnulífsins, sem kommúnistar hafa skapað með upplausnarstarfi sínu. Hræsnin í umhyggju Karls Guðjónssonar og kumpána hans fyrir hag útgerðarinnar afhjúpaðist berlega í fjandskap þeirra gegn því, ef takast kynni að vinna þann stórsigur í landhelgisdeilunni að fá löndunarbanninu í Englandi aflétt. Slíkur sigur mundi þó mjög tryggja atvinnuástandið í landinu, skjóta nýjum stoðum undir afkomu verkalýðsins hvarvetna í landinu. En kommúnistar vilja lama sjálfsbjargargetu þjóðarinnar sem allra mest og gera okkur háða einungis einum erlendum aðila. Þess vegna vilja þeir halda við og magna fjandskap við Breta. Þess vegna skrökva þeir því upp, að við ætlum að afsala okkur rétti til stækkunar fiskveiðilandhelgi. Ekkert slíkt hefur komið til greina. Hitt er sjálfsagt, að halda þannig á þessum málum, að allt sé svo undirbyggt, að hvergi þurfi að hopa. Með þeim hætti höfum við sjálfstæðismenn og ríkisstj. í heild haldið á þessu máli, enda hefur aldrei horft betur um frambúðarsigur en um þessar mundir. Vegna skynsamlegrar og hófsamlegrar aðferðar fáum við ætíð fleiri og fleiri bandamenn í þessu mikilsverða máli okkar, og hefur því aldrei riðið meira á en nú að einangra sig ekki og spilla frambúðarmöguleikunum, og er þess vegna sjálfsagt af þeirri ástæðu að bíða og sjá, hver úrslit landhelgismálsins verða á næsta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, áður en ákvörðun um nýjar framkvæmdir verður tekin. Sú bið miðast ekki við erlenda hagsmuni, heldur einungis við íslenzka hagsmuni og þá fyrst og fremst hagsmuni íslenzkra sjómanna og íslenzkra verkamanna.

Sigurður Bjarnason sýndi glögglega fram á það í ræðu sinni áðan, hvernig sjálfstæðismenn hafa haft forustuna um útvegun togara og annarra atvinnutækja til þeirra byggðarlaga, sem helzt hafa þurft á fyrirgreiðslu að halda. Óþarft er að endurtaka hina skýru og óhagganlegu frásögn hans, en minna má á, hvílík breyting hefur t. d. orðið á atvinnulífi Siglufjarðar fyrir forustu sjálfstæðismanna. Fá eða engin byggðarlög hafa orðið fyrir slíkum óhöppum sem Siglufjörður af ástæðum, er allir þekkja. En með atbeina ríkisstjórnarinnar hefur undir leiðsögn Einars Ingimundarsonar á síðustu 2–3 árum skapazt þar nýtt andrúmsloft, og þar er nú hafið gróskumikið athafna- og atvinnulíf. Atvinnu í Ísafjarðarkaupstað, þaðan sem Hannibal Valdimarsson er flúinn, er nú aðallega haldið uppi af þeim fyrirtækjum, sem sjálfstæðismenn þar hafa beitt sér fyrir. En samvinnufélagsútgerðin, sem áður veitti þar mikla atvinnu, er að flosna upp. Í Vestur-Ísafjarðarsýslu er ekki síður átakanlegur munur á þeim þorpum, þar sem framtakssemi og dugur sjálfstæðismanna hefur notið sín, og staðarins, þar sem látið hefur verið nægja að sýna mikilvirk atvinnutæki rétt fyrir kosningar, en þeim strax lagt upp að kosningum loknum, naumast sólarhringurinn látinn líða. Forusta sjálfstæðismanna bæði heima í héraði og á Alþingi í málum Norður-Ísfirðinga, Ólafsfirðinga, Akureyringa, Seyðfirðinga, Barðstrendinga, Sauðárkróksbúa og Skagstrendinga, svo að nokkur dæmi séu nefnd, er og kunnari en frá þurfi að segja. Jafnvel í Neskaupstað töldu kommúnistar heillavænlegra að afsala sér einræði sínu, þegar afla þurfti nýs togara, og leituðu fyrst almenns samstarfs heima fyrir og síðan ásjár ríkisstj., sem veitti þeim alla hugsanlega fyrirgreiðslu. Þannig mætti lengi telja. Raunin er hvarvetna hin sama. Menn gagnrýna að vísu ýmislegt, sem sjálfstæðismenn gera, sumt með réttu, annað af misskilningi, eins og gengur. En þegar til á að taka, treystir allur almenningur sjálfstæðismönnum bezt til framkvæmda og athafna. Þetta byggist á reynslu, sem sí og æ fær staðfestingu í viðburðanna rás.

Nú, þegar gera á tilraun til þess að einangra Sjálfstfl. og svipta hann áhrifum, er og lærdómsríkt að átta sig á ástæðunni, sem færð er fyrir þeirri ráðagerð. Því er nú látlaust haldið fram, að efnahagsmálin hafi komizt úr skorðum vegna þess, að sjálfstæðismenn hafi fengið því áorkað, að leyst voru að verulegu leyti þau höft, er áður voru á atvinnulífinu og þá einkum byggingarframkvæmdum. Í hópi andstæðinganna er t. d. fullyrt, að verkfallið mikla í fyrra hafi orðið vegna þess, að verkamenn hafi undanfarið verið á uppboði og því viljað nota tækifærið til að fá hækkað kaup. Nú skal ég játa, að í þessum efnum sem öðrum hygg ég jafnvægið vera hollast. En ef um tvennt er að vel ja, að vinnuafl skorti til að sinna verkefnunum eða verkefni skorti fyrir vinnuaflið, hika ég ekki við að velja fyrri kostinn. Hinn síðari þekkja þeir, sem nú eru á miðjum aldri eða eldri, allt of vel frá árunum milli 1930 og 1940. Ég sat í bæjarstjórn Reykjavíkur á þeim árum frá 1934 og kynntist vel því hörmungarástandi, sem þá ríkti í atvinnumálunum. Þúsundir verkamanna áttu þá löngum afkomu sína mest undir atvinnubótavinnu svokallaðri er þeir skiptust á um að vera í. Allir þeir, sem yfir einhverri vinnu réðu, voru eltir á röndum, ekki til að biðja þá ölmusu, heldur til að reyna að fá vinnu hjá þeim. Auðvitað þurftu þeir, er biðja urðu, oft að taka nærri sér, en hlutur hinna, er neyddust til að láta flesta synjandi frá sér fara, var ekki heldur góður. Um lífskjör almennings á þeim árum skal ég ekki vera margorður. Allt of margir minnast þeirra af eigin raun, til þess að það hæfi, að ég fjölyrði um þau hér. Munurinn á því, sem nú er og þá var, er himinvíður, jafnvel hjá þeim, sem þá höfðu fulla vinnu, svo að ekki sé hinna minnzt, er við atvinnuleysi bjuggu.

Orsakir þessa ástands voru ýmsar, m. a. erfið verzlunarkjör. Var þá út á við ekki haldið eins vel á og unnt hefði verið, eins og menn hljóta að minnast, þegar fulltrúi Alþfl., Hannibal Valdimarsson, brigzlar okkur sjálfstæðismönnum í landhelgismálinu. Í því máli var ekkert gert öll þau ár, sem Alþfl. og Framsókn fóru einir með stjórn, og ekki fyrr en við sjálfstæðismenn hófumst handa fyrir tæpum 10 árum. Eðlilegt er að rifja það athafnaleysi upp nú. En stjórnarstefnan innanlands átti vissulega einnig ríkan þátt í ófarnaðinum á stjórnarárum Frams.- og Alþfl. Þá var dyggilega fylgt þeirri stefnu, sem nú er sögð allra meina bót, frjálst framtak og athafnasemi var drepin í dróma og atvinnurekendur ofsóttir, en alls konar nefndum og ráðum falið að koma í veg fyrir aðrar framkvæmdir en nefndaspekingunum líkaði. Afleiðingin af öllu þess varð sú, að hagur almennings fór síversnandi, og kunnu þáverandi valdhafar undir forustu Hermanns Jónassonar að lokum ekki annað ráð, er stórkostleg gengisfelling var orðin óhjákvæmileg, en að leita ásjár sjálfstæðismanna. Hefði betur farið, ef svo hefði verið gert fyrr. Frá þeim tíma hafa sjálfstæðismenn ætíð ráðið miklu um stjórn landsins, og er þar skemmst frá að segja, að þessi ár eru hin mestu framkvæmda- og framfaraár, sem orðið hafa á Íslandi. Ýmis ytri atvik hafa nú eins og fyrr haft sín áhrif, en hvað sem þeim líður, þá er sú staðreynd óhagganleg, að land okkar er nú orðið sem annað land vegna aukinnar ræktunar og bættra samgangna. Fiskveiðilandhelgin hefur verið stækkuð, framleiðslan stóraukizt, lífskjör almennings batnað meir en glæstustu vonir stóðu til, íbúðir byggðar til sjávar og sveita, rafmagn virkjað og lagt um bæ og byggðir til heimanotkunar og iðnaðar, skólar, sjúkrahús og önnur almenningshýsi reist, bókmenntir og listir standa með meiri blóma en nokkru sinni fyrr.

Auðvitað á þjóðin nú við ýmis vandamál að etja. Svo mun lengst af verða, meðan við búum á Þessari jörð. Eitt þeirra er jafnvægisleysi í fjármálum. Vissulega er það alvarlegt. En sumt, sem um það er sagt, ber að taka með nokkurri varúð, eins og þegar látið er svo sem þjóðin sé nánast gjaldeyrislaus og fullyrt er, að gjaldeyrisaðstaðan hafi versnað um 140 millj. kr. á s. l. ári, og sú tala er fengin með því að minnast ekki á, að auðseljanleg útflutningsverðmæti voru um áramótin 100 millj. kr. meiri í landinu en ári áður. Á sama veg er gleymt að geta þess, að um áramótin hafði ekki orðið úr lántökum til sementsverksmiðju, rafmagnsframkvæmda, landbúnaðarframkvæmda, vélbátakaupa og fleiri framkvæmda, sem haldið hafði verið áfram af fullum krafti, þótt ekki væri fengið lánsféð, sem reiknað var með, þegar í framkvæmdirnar var ráðizt. Á meðan ekki tekst að fá lán til þessara framkvæmda og annarra, sem ákveðnar eru og lífsnauðsynlegar eru, er því miður lítið gagn í því að ráðgera 100–200 millj. kr. ný lán, svo sem þetta frv. ráðgerir. Til þess að geta haldið áfram nauðsynlegum framkvæmdum og til að geta ráðizt í aðrar nýjar verðum við að halda þannig á, að lánin séu fáanleg, stöðva verðbólguna, sem kommúnistar hafa hleypt af stokkunum.

En hvað um það, framsóknarmenn segja nú, að ójafnvægið sé að kenna of miklum framkvæmdum og þá sérstaklega of miklum byggingum í Reykjavík, og auðvitað á þetta allt að verá sök sjálfstæðismanna. Ég dreg sízt úr vilja sjálfstæðismanna til að létta af höftum og efla frelsið. En um afstöðu framsóknarmanna til byggingarmálanna má segja: Öðruvísi mér áður brá. Þegar verið var að leysa höftin af byggingarframkvæmdunum 1953, sagði Tíminn í október:

„En hitt er meginþorra manna ljóst, að um mikil átök í byggingarmálum verður ekki að ræða, fyrr en leiðir finnast til verulegrar fjáröflunar. Geta margar stoðir þurft að renna undir málið, áður en heppileg lausn fæst, en áhuga manna og einlægni má mjög marka á því, hversu á fjáröflun til mikilla byggingarframkvæmda er haldið. Og eitt er víst, að peningarnir verða ekki teknir upp úr grjótinu. Þeir, sem áhuga hafa fyrir skjótum úrbótum, gera sér ljóst, að til þess þarf mikil átök um fjáröflun. Engin vettlingatök munu duga og enn síður að heimta allt af öðrum. Vel getur þurft að minnka aðrar framkvæmdir. Finnist ekki aðrar leiðir tiltækilegar, ber tvímælalaust að gera það, því að gott húsnæði er fyrsta boðorð til handa hverjum manni, næst á eftir mat og klæðnaði.“

Þetta voru orð Tímans þá. Ákefð framsóknarmanna í auknar fjárfestingar var svo sem ekki lítil um þær mundir, því að eftir að byggingarfrelsið hafði verið gefið, taldi Tíminn, að það kæmi ekki að gagni vegna tregðu sjálfstæðismanna, og ásakaði hann þá Reykjavíkurbæ fyrir að torvelda byggingarframkvæmdirnar, sbr. það, sem blaðið sagði 8. jan.:

„Þvert á móti hefur bærinn torveldað byggingar þessara aðila, þar sem staðið hefur tilfinnanlega á lóðum, bæði undir smáíbúðahús og sambýlishús, síðan fjárhagsráð rýmkaði um byggingarleyfi. Verk Sjálfstfl. sýna, að honum er ekki til neins treystandi í þessum málum. Verk framsóknarmanna sýna hið gagnstæða. Þess vegna eiga allir, sem vilja, að byggingarmálin séu tekin föstum tökum og framkvæmdir á því sviði stórlega auknar, að skipa sér um Framsfl. og gera honum þannig mögulegt, að þetta verði gert “

Þetta sagði Tíminn þá. Heilindi þeirra manna, sem svona töluðu þá, en ráðast nú á sjálfstæðismenn fyrir of miklar framkvæmdir, skýra sig sjálf, en þó verða þau enn gleggri, ef fleiri staðreyndir eru rifjaðar upp. Óumdeilt er, að útlán bankanna hafa mikil áhrif á fjárhagsjafnvægið. Landsbankinn hefur nýlega skýrt frá því, að útlán sparisjóðsdeildar hans eins hafi vaxið á þriðja hundrað milljóna króna á árinu 1955. Bankinn segir mikið af þeirri aukningu fyrir atbeina ríkisstj. Þá sögu þarf að rekja betur, en látum hana vera í bili. Það, sem hér skiptir máli, er, að bankastjórnin hefur talið sig enn þurfa að auka útlánin umfram það, sem ríkisstjórnin lagði til og hinir bankarnir, sem háðir eru seðladeild Landsbankans, gerðu. Ef Framsókn svarar þessu svo, að þeir Jón Árnason og Vilhjálmur Þór hafi engu ráðið í Landsbankanum, sannast enn, að rödd hennar segir annað en almannarómur. Og lítum á Búnaðarbankann, þar sem sjálfur formaður Framsfl. er formaður bankaráðsins og einn frambjóðenda flokksins er eini bankastjórinn. Sá banki lét vissulega áskoranir ríkisstj. um varleg útlán sem vind um eyrun þjóta, svo sem þjóðkunn dæmi segja ótvírætt til um.

Og framsóknarmenn höfðu enn annað óbrigðult ráð til að draga úr eftirspurn vinnuafls. Þeir hafa einir kveðið á um það, hversu margir skyldu vera í varnarliðsvinnunni. Þegar ég var utanrrh., var fjöldinn í þeirri vinnu ákveðinn með samráði félmrn. við utanrrn. að fengnum till. fulltrúa atvinnurekenda og Alþýðusambandsins. Nú hefur utanrrh. haft þetta vald einn og þar með möguleikann til að þyngja eða létta á vinnumarkaðinum eftir vild. Í þeim efnum skiptir engu, þótt fækkað hafi verið í varnarliðsvinnunni, frá því að flest var, því að vitanlega er það hið almenna atvinnuástand á hverjum tíma, sem þessu á að ráða, en ekki tala, sem ákveðin var, þegar allt öðruvísi stóð á. Þó að utanrrh. einn hafi haft valdið, hefur hann um beitingu þess vitanlega haft samráð við flokksbræður sína og þá ekki sízt flokksformanninn.

Almenningur tekur vissulega með nokkurri varúð umvöndunarsemi þeirra herra, sem nú berja sér á brjóst og þykjast hvergi hafa nærri komið, þó að þeir hefðu úrslitaráðin um það, er þeir deila nú fastast á. Er ekki hitt sanni nær að segja, að öllum okkur getur skjátlazt og að víst fer sumt öðruvísi en við ætlum. Aldrei má viðurkenning þess samt verða til þess, að við látum undir höfuð leggjast að gera okkur grein fyrir því, hvað sé rétt, og skýra þjóðinni umsvifalaust frá því. Ef við höfum ekki manndóm til þess, þá bregðumst við því forustuhlutverki, sem okkur hefur verið falið.

Sú staðreynd, sem mest ríður á að menn átti sig nú á, er, að jafnvægisleysið í efnahagsmálum okkar kemur ekki nema að litlu leyti af fjárhagsástæðum, heldur af gersamlega annarlegum orsökum. Þessi meginsannindi reyna ýmsir að hylja, og láta t. d. sumir svo sem allur vandi okkar væri úr sögunni, ef milliliðagróðanum væri skipt upp. Slíkt tal er ágætt dæmi þess, hvernig menn reyna að villa um fyrir öðrum með loðnum aðdróttunum, ef ekki beinum blekkingum. Einn færasti hagfræðingur landsins hefur nýlega sýnt fram á í ágætri ræðu, að milliliðirnir séu milli 60 og 70% af landsfólkinu. Þær skrafskjóður, sem mest tala um milliliðina, segjast auðvitað ekki meina allan þennan fjölda. Látum svo vera. En við hverja eiga þeir þá? Um áramótin síðustu voru gerðar róttækar ráðstafanir til hagsbóta undirstöðuatvinnuvegum landsmanna, sjávarútvegi og landbúnaði. Þá hefði mátt ætla, að þeir, sem mest hafa talað um, að milliliðagróðinn væri undirrót meinsemdanna, hefðu gert till. um töku hans í þessu skyni. Kommúnistar máttu og eiga það, að þeir báru fram till., sem voru í samræmi við þessa kenningu. En hvað sagði málgagn mannanna, sem nú þykjast mest á móti milliliðunum, um þessar till.? Í Tímanum hinn 8. febr. s. l. stendur:

„Tillögur kommúnista eru samkvæmt framansögðu aðallega fólgnar í því að leggja skatta á ýmis þjónustufyrirtæki, banka, tryggingarfélög, skipafélög, og skerða þannig möguleika þeirra til bættrar og ódýrari þjónustu.“

Þessi voru ummæli Tímans. Þarna skiptu helztu milliliðirnir skyndilega um nafn og voru kallaðir þjónustufyrirtæki, sem ekki mátti í neinu skerða. Sjálfir voru framsóknarmenn í einu og öllu sammála þeim úrræðum, sem tekin voru, og nefndu aldrei í öllum samningunum, sem á undan fóru, neinar till. um upptöku milliliðagróða, hvað þá þjónustugjalda í þessu skyni. Óneitanlega hefði það þó verið mikilmannlegra að bera þá fram till. um aðrar leiðir, ef þeir vildu fara þær, en ráðast nú á sjálfstæðismenn fyrir það, sem gert var með samþykki beggja.

Hv. síðasti ræðumaður, Gísli Guðmundsson, játaði, að engar aðrar till. hefðu verið bornar fram af Framsfl., en hann gaf þá skýringu, sem landsfólkið mun festa sér í minni og þá ekki síst allir sjálfstæðismenn, að ástæðan var sú, að það á að níðast sérstaklega á sjálfstæðismönnum. Sjálfstæðismenn, þúsundirnar um land allt, langstærsti flokkur landsins, munu minnast þessarar yfirlýsingar, og kjósendurnir munu meta það hugarfar, sem á bak við þá yfirlýsingu liggur.

Engar frambærilegar till, aðrar en ríkisstjórnarinnar komu fram, einfaldlega vegna þess, að engar aðrar voru til eins og á stóð. Tillaga Gylfa Þ. Gíslasonar um stórkostlegan skatt á fasteignir manna sýnir bezt, í hverjar ógöngur þessir óraunhæfu tillögusmiðir eru komnir. Gæti ég trúað, að mörgum af fylgismönnum Alþfl., sem með ærnu erfiði hafa eignazt þak yfir höfuðið, hafi þótt anda köldu til sín af þessari tillögugerð prófessors dr. Gylfa. Er sannarlega ekki furða, að þegar svo er á haldið, fari fylgi Alþfl, þverrandi, jafnvel svo, að forustumenn flokksins örvænti nú um að fá nokkurn mann kosinn á þing, ef flokkurinn gengur fram einn og óstuddur. Sú örvænting er upphaf samninganna um hina stórfelldu atkvæðaverzlun milli Framsfl.- og Alþfl. Mjög lærðir og reikningsglöggir menn hafa þar um fjallað, og vantar ekkert til að tryggja stórfelldan gróða atkvæðabraskaranna, sem að standa, annað en atkvæðin sjálf. Þeim ræður enginn nema kjósendur á kjördegi, og er viðbúið, að þeim sýnist annað um ráðstöfun helgustu mannréttinda sinna en reikningsmeisturum valdabraskaranna hér suður í Reykjavík. Allur almenningur mun vissulega skilja, hvert verið er að fara með þessu stórfelldasta braski, sem sögur fara af hér á landi, atkvæðabraski Framsfl. og uppgjöf Alþfl., alveg eins og menn sjá óheilindin í milliliðatali þeirra, sem reyna að bjarga sér undan rökréttum afleiðingum þess með því að umskíra hina stærstu þeirra og kalla þá þjónustufyrirtæki. En þannig fer um blekkingarnar, þegar á þær fellur birta sannleikans og ekki er lengur hægt að hafast við í skugganum af getsökum og gróusögum.

Enginn neitar því, að sitthvað fer í súginn í þjóðfélagi okkar og að betur mætti með ýmislegt fara, bæði af almannavaldinu og einstaklingum. Sumir misnota gæði frelsisins, og er hættan á þeirri misnotkun þó smáræði, miðað við óheilbrigðina og sérréttindin, sem samfara eru leyfaúthlutunum ráða og nefnda, þar sem ekki er í raun og veru verið að úthluta pappírsgögnum eða leyfum, heldur stórkostlegum fjárhlunnindum.

En hvað sem sagt er um stórgróða sumra, og Íslendingar hafa löngum vitað, að margur hugði meiri auð í annars garði en þar var í raun og veru, þá er það víst, að hvergi á byggðu bóli er munur lífskjaranna minni en einmitt hér á landi. Allir þeir, sem farið hafa um önnur lönd, hafa sannfærzt um þetta með eigin augum, og opinberar skýrslur sanna það, svo að ekki verður um villzt. Miklu minni munur er á þeim, sem lægstar tekjur hafa og hæstar, hér en annars staðar á Norðurlöndum. Þau eru þó fræg fyrir jöfnuðinn, sem þar ríkir, og mikinn mun segir norska verkalýðsnefndin, sem var í Rússlandi s. l. sumar, á því, hve tekjumunurinn sé stórkostlegri þar en í Noregi. Engir vita betur um þessi sannindi en kommúnistar sjálfir. Ofstæki þeirra og blind trú á úreltar kennisetningar er samt svo mikil, að þeir vilja með öllu móti grafa undan þjóðskipulagi okkar, jafnrétti þess og frelsi. Völd sín í verkalýðshreyfingunni hafa þessir menn notað til að koma þeim áformum fram, þ. á m. til að spilla jafnvægi efnahagsmálanna, en ekki til að bæta raunverulegan hag verkalýðsins.

Viðurkenning þeirrar staðreyndar, að byltingin og ofbeldið væru undirstaða kommúnismans, hefur sjaldan komið skýrlegar fram en á hinu nýafstaðna þingi rússneska kommúnistaflokksins, þar sem ein helzta nýlundan var sú, að vegna styrkleika hinna kommúnistísku ríkja væri nú svo komið, að í sumum ríkjum kynni stefna þeirra að sigra eftir þingræðislegri leið án byltingar. Að vísu gerði það þessa yfirlýsingu lítt ginnandi í hugum lýðræðissinna, að fyrirmyndin, sem vitnað var til, var valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu. En hvað sem um það er, þá skiptir máli í þessu sambandi, að því var haldið fram, að breyta ætti sums staðar um stefnu, hverfa frá ofbeldinu til annarra aðferða. Það er svo önnur saga, hverjir trúa að óreyndu á þá stefnubreytingu, hvort raunin verði ekki sú, að fyrst komi undirferlið og síðan ofbeldið, svo sem við hér höfum fengið nokkurn smjörþef af. En hvað um það, viðurkenningin á því, að aðferð ofbeldis og byltingar hafi hingað til ein verið talin duga, er góðra gjalda verð, og hefði þó mátt ætla, að fæstir þeirra, sem með stjórnmálum hafa fylgzt, þyrftu á slíkri játningu að halda.

Eftir frásögn Tímans s. l. sunnudag er samt vitað um einn, er jafnvel enn talar svo sem hann hafi aldrei heyrt neitt um, hvað fyrir kommúnistum vakir. Í Tímanum segir:

„Ef vinnandi fólk fær á framangreindan hátt sannanir fyrir því, að það beri úr býtum það, sem framleiðslan getur hæst greitt, og öllu verðlagi haldið niðri, eins og unnt er, og vill samt ekki una því, þá hlýtur sannarlega að vaka eitthvað annað fyrir þeim, sem hafa forustu verkalýðsins, en að fá réttlætinu fullnægt. Því skulum við ekki trúa að óreyndu. Þess vegna er skylt að reyna þessa leið.“

Svo mörg eru þau orð Hermanns Jónassonar. Stundum er sungið: „Sakleysið, sízt má án þess vera“ — en því er þá bætt við: „en of mikið af öllu má þó gera“. — Og víst er það of mikið sakleysi af formanni næststærsta stjórnmálaflokks landsins að hafa ekki annað en þetta að segja um starfsemi kommúnista í verkalýðsmálum og áhrif þeirra á efnahagsástandið.

Sjálfstæðismenn, sem hafa í sínum röðum fleiri verkamenn en Alþfl. og Framsfl. samanlagt, játa vissulega, að gott samstarf við verkalýðinn er lífsnauðsyn. Einmitt þess vegna teljum við skyldu okkar að segja verkamönnum skýlaust, þegar samtökum þeirra er misbeitt, sjálfum þeim og þjóðinni allri til óþurftar. Ef það tekur tíma og erfiði að fá menn til að átta sig á þessu, verður að fórna þeim tíma og leggja á sig það erfiði. Verkalýðurinn verður sjálfs sín vegna að hrinda af sér valdabröskurum og valdránsmönnum, í hvaða gervi sem þeir reyna að ná honum í sína þjónustu. Vegna síns eigin velfarnaðar verður hann að skilja og mun skilja fyrr en síðar, að raunverulegar kjarabætur fást fyrst og fremst fyrir aukna framleiðslu, auknar arðbærar athafnir.

Það er vegna þess, að sjálfstæðismenn hafa sannað, að þeir eru meiri athafna- og framkvæmdamenn en aðrir, sem almenningur veit, að forsjá ríkisins er bezt komin í þeirra höndum. Það er engin tilviljun, að meiri framkvæmdir hafa orðið á valdaárum sjálfstæðismanna en nokkru sinni áður í sögu landsins. Þær framkvæmdir hafa orðið öllum landsmönnum að gagni. Þess vegna eru lífskjörin svo ósambærilega miklu betri en fyrr. Þessi reynsla mun enn verða til þess að efla fylgi Sjálfstfl. Jafnskjótt sem þjóðin fær að kveða upp sinn dóm, jafnskjótt munu kjósendur stofna og sanna það bandalag, sem verður þjóðinni til mestra heilla, bandalag kjósendanna um land allt, bandalagið, sem mun stýra þessari þjóð til gæfu og gengis, — Sjálfstæðisflokkurinn. — Góða nótt.