16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. 5. landsk. sagði, að það má færa fram rök bæði fyrir því sjónarmiði, sem hæstv. fjmrh. hefur borið hér fram, og því sjónarmiði, sem hefur ráðið afstöðu Sjálfstfl. Hæstv. fjmrh. hefur fært fram sín rök, a. m. k. nokkur af þeim, og ég hef fært fram ýmis þeirra raka, sem réðu úrslitum í Sjálfstfl. En meginkjarni málsins er sá, að þetta var einnig í huga okkar sjálfstæðismanna nokkurt álitamál, þótt við nánari rannsókn þættumst við örugglega komast að réttri niðurstöðu, sem lýsti sér í því, að við töldum ekki fært að afgreiða strax fjárl. Skal ég svo ekki að öðru leyti ræða um það meira.

Út af því, sem hv. 5. landsk. að öðru leyti sagði, vil ég leggja áherzlu á, að í fyrsta lagi er ekki lokið rannsókn sérfræðinganefndanna. Þær hafa verið tvær, sem um þetta hafa fjallað, annars vegar hagfræðinganefnd og hins vegar nefnd, sem á undanförnum árum hefur haft samninga við Landssambandið um, hverra úrbóta væri þörf fyrir bátaflotann. Í öðru lagi gætu þær upplýsingar, sem bærust ríkisstj. á hverjum tíma, verið þess eðlis, að það væri óheppilegt, að þeim væri dreift jafnvel til alþm., fyrr en þá lægju fyrir till. ríkisstj. Við skulum t. d. hugsa okkur þann möguleika, að ráðlegt þætti að hverfa frá bátagjaldeyriskerfinu, sem margir telja að hafi komið fram óvæntir gallar á, þó að ekki verði enn þá sagt, hvort þeir verði taldir svo veigamiklir, að ástæða sé til þess að láta þá ráða um það, að frá þessu kerfi verði horfið. Þá gætu t. d. komið til mála vissar skattlagningar eða vissir tollar á vissar vörur. Ég tel mjög óheppilegt, ef að slíkum ráðum væri horfið, að ríkisstj. væri að tilkynna út fyrir sín þrengstu takmörk, hvaða bollaleggingar væru í frammi í þeim efnum. Það gæti skapað mönnum aðstæður til að afla sér fjár, sem væru ekki heppilegar. En þegar ríkisstj. ber fram sínar till., sem hún vonandi getur gert bráðlega, þá rökstyður hún þær að sjálfsögðu og reynir að færa fram þau sjónarmið, sem til greina gætu þá komið.

Út af ummælum hv. 2. þm. Reykv., þá er nú alltaf varlegra að skjóta björninn, áður en maður selur skinnið. Það var nú einmitt það, sem hæstv. fjmrh. var að lýsa yfir, að þrátt fyrir ágreining um afgreiðslu fjárl., sem hann hefur nú kannske allra manna mest lagt áherzlu á að gæti orðið lokið fyrir áramótin, væri ekki stjórnarkreppa út af málinu. Það er náttúrlega lítil jólagjöf, sem ég rétti þessum hv. 2. þm. Reykv. með því að benda honum á þetta, en það er, eins og maður segir, betra að skjóta björninn, áður en skinnið er selt. Auk þess vil ég í fullri kurteisi og endurminningu um sæla samverudaga minna hann á, að frímerki hans er ekki í gildi, fyrr en búið er að stimpla það að nýju, svo að þótt þessi stjórn rofnaði, skilst mér, að hann hafi nú í bili verið bannfærður með sinn flokk. Og ég vil svo benda honum á það, að ef ómögulegt er að stjórna landinu án verkalýðssamtakanna og ef hann telur alveg nauðsynlegt, að þau ráði miklu, þá ætti hann, meðan enginn stjórnmálaflokkur vill vinna með hans flokki, að ráðleggja sínum kjósendum í þágu þjóðarinnar að kjósa þá t. d. Alþfl., sem menn vilja vinna með. Væri það ekki heillaráð?

Ég vil svo undirstrika það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það hefur enginn ágreiningur komið í ljós milli stjórnarflokkanna um, hvernig eigi að afgreiða útvegsmálin og vandamál framleiðsluatvinnuveganna. Við erum aðeins ekki komnir það langt í okkar rannsókn á aðstöðunni, að við höfum getað sjálfir myndað okkur nægar hugmyndir um, hvers með þurfi. Eins og þessi hv. þm. mun vita, ganga þessar samningaviðleitnir og rannsóknir þannig fyrir sig, að ríkisstj. reynir að afla upplýsinga um rekstrarafkomu bæði bátaflotans og þeirra, sem kaupa framleiðslu sjávarútvegsins. Auðvitað reyna þeir aðilar að gera sinn hlut ekki fegurri en hann er í því skyni að reyna að fá sem mest af opinberu framlagi í þennan hallarekstur. Ríkisstj. telur það hins vegar skyldu sína að fá upplýsingarnar sem réttastar, draga niður hlut þeirra, a. m. k. meðan ekki er stefnt óréttlátlega gegn þeirra hagsmunum, og þetta tekur allt sinn langa tíma.

Ég vil svo segja út af hin fagra bréfi hv. 2. þm. Reykv., sem lýsir mikilli ábyrgðartilfinningu, að þingið megi til að vera hér fram yfir jól, að þessi ríka ábyrgðartilfinning hefur ekki komið jafnljóst fram alls staðar í þessum flokki. Ég vil leyfa mér að geta þess, að hæstv. fjmrh., hv. 8. þm. Reykv. og ég töldum okkur vera að semja við hv. 11. landsk, f. h. kommúnistafl. um það, að þingi yrði frestað, svo að þm. gætu fengið jólafrí. Við sátum þarna a. m. k. hálftíma og vorum að bíða, ég held það hafi verið í fyrrakvöld, meðan hv. 2. þm. Reykv. var að ljúka ræðu sinni, svo að hv. 11. landsk. gæti, áður en hann byndi sig og flokkinn, haft samráð við hann. Hann kom svo og tjáði okkur, hv. 8. þm. Reykv., hæstv. fjmrh. og mér, að það væri samkomulag um að fresta þeim útvarpsumr., sem fyrir dyrum stæðu, gegn því, að þingið fengi lausn þann 17. þ. m., einum degi eða tveimur seinna. Síðan kemur þetta virðulega bréf frá form. Sameiningarfl. alþýðu — þetta er svo langt nafn, að maður fipast — um það, að nú eigum við að hætta við þetta allt saman. Ég veit ekki, hvorum ég á betur að trúa. Ég veit hins vegar, að hv. 11. landsk. hafði ekki ríkari áhuga á því að hindra þjóðarböl í þessum efnum en svo, að ég tel mig hafa sannar sagnir af því, að hann hafi haft í hótunum í sínum félagsskap í gær, að ef togararnir legðu ekki upp allir um áramótin og biðu alls ekki eftir að sjá framan í till. ríkisstj., þá mundi hann vera þess minnugur og jafnvel segja sig úr félagsskapnum. Ég veit ekki, hvort ég á að trúa úlfinum eða lambinu, ef úlfurinn er í sauðargæru.