13.10.1955
Efri deild: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

14. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Á öðru þingi Norðurlandaráðsins, sem haldið var í ágúst 1954, var því beint til hlutaðeigandi ríkisstj. að koma á hjá sér tollfrjálsum innflutningi á tilteknum menningartækjum. Var þar fyrst og fremst átt við fræðslukvikmyndir og fræðandi skuggamyndir, enda væru þessi tæki flutt inn af fræðslumálastjórnum landanna og komin frá viðurkenndum erlendum vísinda- og menntastofnunum.

Ríkisstj. álítur rétt, að við komum á hjá okkur þessari skipan, og leggur því til, að þetta frv. verði samþ. og gert að lögum, en í því felst heimild ríkisstj. til handa til þess að veita þessar undanþágur.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.