17.02.1956
Neðri deild: 72. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í C-deild Alþingistíðinda. (2003)

141. mál, fiskvinnslustöðvar og flutningaskip eignar- og leigunámi

Flm. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég vil nú láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. skuli loksins fást tekið til 1. umr. Það er nær mánuður síðan það var lagt fram hér í þessari hv. deild, og það hefur nokkrum sinnum upp á síðkastið verið á dagskránni. Þó er það öllum ljóst, að þetta frv. er eitt hið þýðingarmesta, sem lagt hefur verið fyrir þetta þing. En þannig virðist ástandið hér hjá þeim, sem ráða nú helzt málum á Alþingi Íslendinga, að þegar slík mál eru lögð fram, þá þykir ekki eðlilegt, að þau séu tekin til afgreiðslu. Hins vegar höfum við verið látnir standa hér dag eftir dag og langt fram á kvöld í umr. um mál, sem var fremur lítilfjörlegt og almenningi til mikillar óþurftar, og á ég þar við kartöflumálið svonefnda.

Um frv. þetta, sem við þm. Þjóðvfl. höfum borið hér fram og prentað er á þskj. 286, get ég verið fremur fáorður. Þetta frv. ræddi ég nokkuð ýtarlega í eldhúsdagsumræðum, sem fram fóru hér á Alþingi fyrir nokkru, og þess vegna er efni þess að sjálfsögðu þm. allkunnugt. Það hefur komið í ljós í umr. hér á þingi, að vísu ekki um þetta mál, að sú skoðun á miklu fylgi að fagna hér innan þingsins, að sjálfsagt sé og nauðsynlegt að samþ. þetta frv. og það sem allra fyrst. Þessari skoðun lýsti m. a. hv. 1. landsk. þm. yfir í eldhúsdagsumræðunum, sömuleiðis lét hæstv. fjmrh. fyllilega í það skína, að fiskvinnslustöðvar þyrfti að hagnýta og ætti að hagnýta í þágu bátaútvegsins, en ekki bátaútveginn í þágu fiskvinnslustöðvanna, eins og hann orðaði það. Og ég held einnig, að það hafi komið í ljós í ræðu, sem hv. þm. V-Húnv. flutti hér á þingi um annað mál, að hann væri þeirrar skoðunar, að hér væri rétt stefnt með þessu frv.

Eins og hv. þm. er kunnugt, fjallar þetta frv. okkar, sem prentað er á þskj. 286, um það að heimila ríkisstj. að taka nú þegar eignarnámi eða leigunámi allar þær fiskvinnslustöðvar hér á landi, sem nauðsynlegar eru að dómi ríkisstj. til nýtingar fiskafla landsmanna og til þess að búa útveginum starfhæfan grundvöll, og reka þær á ábyrgð ríkissjóðs.

Enn fremur er í frv. ákveðið, að ríkisstj. skuli heimilt að taka eignarnámi eða leigunámi þau íslenzk fiskflutningaskip, sem aðallega eða eingöngu eru notuð til fiskflutninga, og reka þau á ábyrgð og kostnað ríkissjóðs.

Þá er einnig gert ráð fyrir því, að ríkisstj. taki í sínar hendur að nokkru leyti eða öllu leyti fiskútflutning landsmanna til þess að tryggja það, að sjómenn og þeir, sem að fiskframleiðslunni vinna, fái allt það verð fyrir fiskinn, sem við fáum fyrir hann á erlendum mörkuðum og fáanlegt er þar.

Á það er minnzt í þessu frv., að þessar ráðstafanir skuli þó ekki vera til frambúðar, heldur skuli svo til stillt, að sett sé löggjöf um samvinnufélög sjómanna og annarra, er lífsframfæri hafa af sjávarútvegi, og þegar samvinnufélög hefðu verið stofnuð samkvæmt þeirri löggjöf, yrðu þeim samvinnufélögum afhentar fiskvinnslustöðvarnar, hverju félagi á sínum stað, og sömuleiðis heildarsamtökum þessara samvinnufélaga fiskflutningaskipin og útflutningsréttindin. Teljum við þjóðvarnarmenn þetta eðlilegustu og sjálfsögðustu ráðstöfun þessara mála og raunar svo sjálfsagða, að óþarft ætti að vera að draga það langtímum saman hér á Alþ. samþ. þessar aðgerðir. Það er nú ljóst orðið, með hverjum hætti þessi starfsemi er rekin, að inn í þessa starfsemi, fiskframleiðsluna, sérstaklega fiskvinnsluna og útflutninginn, hafa komizt aðilar, sem purkunarlaust mergsjúga þá, sem vinna við þessa framleiðslu, og á þetta hefur enginn maður mér vitanlega borið brigður. En þegar svo er og jafnalmennt viðurkennt, þá er að sjálfsögðu skylda Alþ. að grípa í taumana og sjá svo til, að þeirri starfsemi, sem nú fer fram í þessum málum, verði ekki fram haldið stundinni lengur, enda hefur það komið ótvírætt í ljós hér á Alþ., að sjávarútvegur, sem er undirstöðuatvinnugrein íslenzks efnahagslífs, er nú í þeim kröggum, að talið hefur verið óhjákvæmilegt að leggja hundruð milljóna króna álögur á þjóðina til þess að styrkja fiskveiðiflotann, eins og það er kallað.

Ég mun ekki fara verulega út í það nú, enda ástæðulaust, að svara eða gera grein fyrir smávegis hártogunum, sem einstakir menn hafa reynt að beita í sambandi við flutning þessa máls. Það hafa komið fram ýmiss konar smáskrýtilegheit í því sambandi. Við því má alltaf búast, sérstaklega frá mönnum, sem hafa um langan aldur stjórnað málefnum þjóðfélagsins á þann veg, sem raun ber nú vitni um, mönnum, sem hafa komið efnahagsmálum okkar í það öngþveiti, að einstakt er í veröldinni, a. m. k. hjá siðuðum þjóðum, mönnum, sem hafa aukið skatta- og tollaálögur á þjóðina, svo að opinber gjöld, sem almenningur hér á landi er krafinn um nú, munu nema nærfellt helmingi brúttóþjóðartekna. Slíks eru engin dæmi um víða veröld nema hér á landi. Þess vegna er að sjálfsögðu ekki að furða, þó að þessir aðilar komi með ýmiss konar skrýtilegheit í sambandi við það, þegar menn leggja til, að nú verði skorið á þær meinsemdir, sem þeir hafa sjálfir skapað í þessum málum, og reynt að koma okkar þjóðfélagi og efnahagskerfi okkar á heilbrigðan grundvöll, eins og aðrar siðaðar þjóðir reyna að koma sínum efnahagsmálum á heilbrigðan grundvöll.

Því hefur t. d. verið fleygt hér í þessu sambandi, að við þjóðvarnarmenn vildum ræna útgerðina öllum þeim styrkjum, sem hún hefur haft, og afhenda henni ekkert í staðinn. Hver meðalgreindur maður sér náttúrlega, hve barnaleg fjarstæða þetta er, þar sem við leggjum til með þessu frv. okkar á þskj. 286, að útvegsmönnum og sjómönnum og þeim, sem við fiskvinnslu og fiskframleiðslu fást, sé afhent sú starfsemi algerlega í hendur og búið þannig um hnútana, að alls konar milliliðir og braskarar, sem þarna hafa komizt að, séu sviptir möguleikum til þess að mergsjúga þennan aðalbjargræðisveg þjóðarinnar, svo sem þeir hafa gert á undanförnum árum með aðstoð ríkisvaldsins.

Í þessu frv. okkar á þskj. 286 er beinlínis tekið fram, að um eignarnámið eða leigunámið, hvor leiðin sem valin yrði, skyldi farið eftir gildandi lögum í þeim efnum. Þá er einnig tekið fram, að ákvæði þau, sem nú eru í lögum og heimila fámennum hópi manna einkarétt á fiskútflutningi, skuli falla úr gildi með þessu frv. Þetta er að öllu leyti sjálfsagt ákvæði einnig.

Ég vil vænta þess, að Alþ. Íslendinga beri gæfu til þess að samþ. þetta frv. nú á þessu þingi. Allt annað væri fullkomlega óverjandi, eins og málum háttar hjá okkur í dag. Ég er þess og fullviss, að hér á þessu þingi, sem nú situr, er meiri hluti með þessu frv., og ég er þess fullviss, að meiri hl. alþm. telur það sjálfsagt og réttlátt og sanngjarnt að samþ. þetta frv., og ég vona það, að alþm. láti þessar hvatir ráða gerðum sínum, en ekki einhverjar aðrar annarlegar hvatir

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál við þessa umr. Ég hef, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, rætt þetta mál hér á þingi við annað tilefni og veit því, að hv. þm. er málið vel kunnugt. Þar að auki fylgir frv. allýtarleg grg., og vil ég í þessu sambandi vísa til hennar um frekari rökstuðning fyrir þessu frv.

Þá vil ég loks leggja til, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.