13.03.1956
Neðri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (2009)

182. mál, listamannalaun

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um listamannalaun, og er aðalefni þess að lögfesta, að veita skuli tiltekinni tölu viðurkenndra listamanna föst listamannalaun. Tilgangurinn er að koma fastari og traustari skipun á þessi mál en verið hefur.

Með 2. gr. er svo til ætlazt, að valdir séu sex viðurkenndir listamenn af sameinuðu Alþingi, og skulu þeir njóta 20 þús. kr. árslauna auk verðlagsuppbótar samkv. 8. gr. frv. Í 3. gr. er gert ráð fyrir, að 30 listamenn fái einnig föst laun, 6 þeirra 15 þús., 12 12 þús. og 12 8 þús. kr., það sé menntamálaráðherra, sem ákveði, hverjir þessara launa skuli njóta, eftir tilnefningu samkv. 4. gr., en samkv. 4. gr. er svo til ætlazt, að tveir aðilar séu til þess kvaddir að gera slíkar tillögur, annars vegar heimspekideild háskólans eða fimm menn, sem hún velur til, og í öðru lagi menntamálaráð, og gerir hvor þessara aðila í sínu lagi till. til ráðherra um, hverjum skuli veita listamannalaun.

Við veitingu listamannalauna, eins og leiðir af eðli málsins, án þess að þurfi sérstaklega fram að taka, skal að sjálfsögðu fyrst og fremst meta hæfni, listhæfni og listagildi. En auk þess eru í 5. gr. nefnd nokkur atriði, sem taka ber tillit til eða hafa hliðsjón af að öðru jöfnu. Er það talið í fjórum liðum:

Fyrsta atriðið er, hversu arðbær listgreinin er. Þetta sjónarmið þykir rétt að hafa í huga, vegna þess að það er mjög ólíkt ástatt um ýmsar listgreinar, hversu mikla tekjumöguleika listamennirnir kunna að hafa af starfi sínu. Rithöfundar, sem aflað hafa sér álits og útbreiðslu fyrir rit sín, ég tala ekki um ef rit þeirra eru þýdd á erlendar tungur, hafa að sjálfsögðu oft góðar tekjur af sínum verkum. Sama máli gegnir um ýmsa aðra listamenn. En aðrir, t. d. myndhöggvarar, svo að ég nefni eitt dæmi, eru bæði hér á landi og annars staðar taldir hafa minnsta möguleika til að afla sér tekna með verkum sínum. Þessi mismunandi sjónarmið leiða að sjálfsögðu til þess, að það er sanngjarnt að hafa það til hliðsjónar, hversu arðbær listgreinin er, hverjar tekjuvonir eru henni samfara. Annað sjónarmið, sem hafa skal hliðsjón af samkv. 5. gr., er það, hvort maður gegnir föstu starfi og þá hve hátt launuðu, þriðja atriðið, hvort hann njóti eftirlaunaréttar, og í fjórða lagi, hvort hann hafi verulegar tekjur af eignum eða fjárafla utan sinnar listgreinar. Það má taka það fram, eins og kemur einnig fram í grg., að um þetta eru nokkuð skiptar skoðanir meðal listamanna. Sumir þeirra munu líta svo á, að eingöngu beri að meta listagildið og hæfni listamannsins, en ekki annað. Þó ætla ég, að þeir muni fleiri og það miklu fleiri, sem telja, að hafa beri í huga við mat og úthlutun listamannalauna einnig þau sjónarmið, sem hér eru talin.

Eitt meginatriði frv. er í 6. gr. þess, en þar er gert ráð fyrir, að veitingu listamannalauna skuli fylgja sami réttur og veitingu embættis, eftir því sem við getur átt. Með þessu er átt við þá gerbreytingu, að listamannalaun skuli ekki veitt hverjum manni frá ári til árs í algerri óvissu um það, hvort hann muni á næsta ári eða á næstu árum halda slíkum launum, heldur skuli sá háttur og skipan upp tekin, að þegar maður hefur hlotið listamannalaun, annaðhvort með atkvgr. Alþingis eða með veitingu menntmrh. eftir tilnefningu þeirra aðila, sem greinir í 4. gr., þá skuli hann halda þessum listamannalaunum áfram. Að sjálfsögðu getur þó þau atvík borið að höndum, að rétt þyki að taka málið til nýrrar meðferðar, og greinir um það í 7. gr., m. a. ef maður hverfur úr landi, nema það sé til þess að geta betur stundað list sína í íslenzka þágu, þá skulu listamannalaun falla til veitingar á ný, þá skal tekið að nýju til athugunar, hvort sá maður skuli halda áfram listamannalaunum, og sömuleiðis ef listamaður tekur við föstu starfi með árslaunum, sem svara VIII. launaflokki opinberra starfsmanna eða meira, þá skuli listamannalaun hans falla til veitingar á ný. Þó er í þessum tilfellum báðum heimilt að tilnefna mann til hinna sömu listamannalauna eða annarra og veita honum á ný. Hér má segja að sé eitt höfuðatriði frv., að skapa meiri festu og öryggi um þessi mál.

Ég ætla, að um það þurfi ekki að vera ágreiningur meðal alþm., að rétt sé að veita góðum listamönnum, hverjum í sinni grein, listamannalaun. Að ýmsu leyti er aðbúnaður listamanna hér á landi og aðstaða þeirra betri, bæði af hálfu opinberra aðila og gagnvart áhuga og skilningi almennings, en gerist annars staðar. Ég ætla, að Ísland standi framar mörgum eða flestum löndum öðrum um að veita allmörgum sinna beztu listamanna laun, hafi gengið í því efni nokkru lengra en margar aðrar þjóðir, og í öðru lagi ætla ég, að íslenzkur almenningur hafi í listamálum sýnt meiri skilning og áhuga en meðal flestra þjóða annarra. Kemur það bæði í ljós í því, að bókakaup almennings eru hér hlutfallslega miklu meiri en annars staðar þekkist, jafnvel eru þess dæmi, að bækur íslenzkra höfunda séu gefnar hér út með okkar fámennu þjóð í svipuðu upplagi og bækur meðal þjóða, sem telja tugmilljónir íbúa. Einnig kemur það bert fram, þegar listsýningar eru hér haldnar, hversu áhugi almennings er mikill að njóta þeirrar listar og skoða og enn fremur kaup fjölda manna á listaverkum, sem um leið sýnir bæði skilning og stuðning við listamennina.

Þetta tvennt, stuðning af hálfu hins opinbera og skilning af hálfu almennings, er sjálfsagt að viðurkenna og meta. En það leiðir hins vegar af fámenni okkar þjóðar, að listamenn okkar hafa að ýmsu leyti lakari aðstöðu en listamenn annarra þjóða. Markaðurinn fyrir bækur, fyrir listaverk yfirleitt, er mjög þröngur vegna fámennis og þess vegna miklu minni líkur til þess hér en víðast annars staðar, að listamenn geti haft nægar tekjur sér til lífsframfæris af listastarfsemi sinni einni og útgáfu.

Áður fyrr, áður en skilningur hins opinbera varð eins ríkur og verið hefur síðustu ár í þessum efnum, áttu íslenzkir listamenn ýmsir við mjög örðug kjör að búa, og kom fyrir stundum, að þeir urðu að svelta heilu hungri. Sem betur fer mun slíkt ekki þekkjast, eða við skulum vona fastlega, að slíkt þekkist ekki nú á dögum.

Á árunum 1920–40 var vaxandi skilningur hér á Alþ. fyrir því að styðja með listamannalaunum eða styrkjum viðurkennda listamenn, og var það sívaxandi hópur manna, sem fékk listamannastyrki, ýmist á 15. eða 18. gr. fjárlaga. Það var farið að líta svo á, að ef Alþ. samþykkti að setja einhvern listamann á 18. gr., þá væri þar með fengin viðurkenning á honum og um leið ætti það að vera öryggi fyrir því, að hann héldi þeim launum áfram. Almennt mun hafa verið litið svo á meðal listamanna og einnig af þorra alþm. Því miður gerðust þau tíðindi svo á Alþ. 1939, þegar fjárlög fyrir árið 1940 voru afgreidd, að þar var brotið blað og horfið frá þessari reglu, sem þá hafði verið í gildi og talin var nokkuð viðurkennd orðin. Þá var lagt til í fjárlagafrv. að strika alla þá út, sem komnir voru á 18. gr., nema þá, sem komnir voru yfir sextugt, enn fremur flesta þá, sem voru á 15. gr., en það voru lausari styrkir, og sett allt saman í eina fúlgu og skyldi því úthlutað af menntamálaráði. Fjvn. gekk lengra í þessu efni, þannig að hún tók einnig út þessa eldri menn af 18. gr., gekk lengra en fjárlagafrv. og lagði til, að allir, sem áður höfðu verið á 18. gr., væru þaðan teknir, nema einn maður, sem var þar samkvæmt sérstökum samningi við ríkisvaldið.

Ég skal ekki rekja þetta mál, sem var mjög viðkvæmt deilumál á þingi þá, taka þó fram, að í fjvn. voru þá tveir hv. alþm., sem skrifuðu undir nál. að þessu leyti með fyrirvara og neituðu að ganga inn á þessa braut, að taka listamennina út af 18. gr. Það voru þeir hv. 2. þm. Rang., Helgi Jónasson, og þm. Ak., Sigurður Hlíðar, sem báðir töluðu á móti þessari leið auk margra annarra þingmanna, og í sambandi við þetta, sem átti sumpart að vera sparnaðarráðstöfun, vil ég leyfa mér að lesa hér setningu úr ræðu Sigurðar Hlíðars, sem lýsir vel þeirri afstöðu, sem margir þm. höfðu í þessu máli. Hann segir:

„Ég hef þá afstöðu að vera mjög frjálslyndur hvað bókmenntir og vísindi snertir, og ég held, að þótt Íslendingar kunni að leggja hlutfallslega meira af mörkum til vísinda og lista, borið saman við stórþjóðirnar, þá álít ég, að það sé margfaldur gróði fyrir okkur að geta hlúð að því.“

Það var flutt till. um það, og var fyrsti flm. hennar Magnús Gíslason, að taka upp aftur á 18. gr. alla þá, sem verið höfðu þar árið áður. Eftir miklar umr. um þá till. var hún felld, og niðurstaðan varð sú að falla frá þessari stefnu, sem verið hafði ríkjandi og hafði verið talin skapa verulegt vaxandi öryggi í þessum málum, þ. e. að fella listamennina út af 18. gr.

Þessir atburðir urðu upphaf mikilla tíðinda og sorglegra um samskipti annars vegar Alþingis, ríkisstj. og menntamálaráðs og hins vegar listamannanna, sem ég skal ekki rekja hér. En alla stund síðan hefur það verið einróma ósk listamannanna, Bandalags íslenzkra listamanna og einstakra félaga, að eitthvað yrði tekið upp í áttina við 18. gr. áður til þess að skapa meira öryggi og festu í þessum málum.

Fyrir tveim árum var málið tekið upp í Bandalagi íslenzkra listamanna, og samdi þá ritari bandalagsins, Helgi Hjörvar skrifstofustjóri, frv. það, sem hér er flutt í meginatriðum eins og hann gekk frá því og lagði fram í stjórn bandalagsins. Rithöfundafélag Íslands hefur svo einróma lýst fylgi sínu við það, og það sama ætla ég að sé um fjölda listamanna úr ýmsum listgreinum.

Ég vil fyrst og fremst vísa til grg. þeirrar, sem fylgir frv. og samin er af höfundi þess, Helga Hjörvar, en málið er þar skýrt allýtarlega. Ég held, að það sé rétt stefna, sem hér er mörkuð í þessu frv., og ætti að verða báðum til sóma og gagns, bæði Alþingi og listamönnum, að slík festa yrði sköpuð í meðferð þessara mála sem hér er lagt til.

Um málsmeðferð vil ég leyfa mér að leggja til, að frv. sé vísað til menntmn. Ég tel að sjálfsögðu æskilegt, ef samkomulag gæti orðið um málið í meginatriðum, að frv. gæti náð fram að ganga á þessu þingi. En ef mönnum sýnist svo fremur, þá gæti að sjálfsögðu komið til greina að setja í málið t. d. mþn. eða fela ríkisstj. það til nánari athugunar í samráði við Bandalag íslenzkra listamanna og einstakar listgreinar til næsta þings. Það verður að athugast að sjálfsögðu nánara í menntmn., hver málsmeðferðin þætti henta bezt, en fyrir íslenzku þjóðina, sem er ein hin merkasta bókmenntaþjóð, er vitanlega mikils virði, að hlúð sé sem bezt að listum og andlegu atgervi. Ég ætla, að þetta frv. muni stuðla að því að skapa listamönnum þjóðarinnar betri starfsskilyrði og starfsgrundvöll en verið hefur, og ég vil að lokum taka mér í munn þau orð, sem Magnús Gíslason viðhafði á þingi 1939, þegar þetta mál var til meðferðar, að þarna er um að ræða menn, sem eru að vissu leyti taldir spámenn sinnar þjóðar, sem prédika sannleikann í ræðu og riti, lítum, ljóði og tónum.