13.03.1956
Neðri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í C-deild Alþingistíðinda. (2011)

182. mál, listamannalaun

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. þm. sagði, að það hefði verið rangt hermt hjá mér, að Rithöfundafélag Íslands stæði einróma að þessu máli. Ef ég hef sagt það, hefur það verið mismæli, því að eins og grg. hefst á, þá er það flutt samkv. beiðni stjórnar Rithöfundafélagsins, og átti ég að sjálfsögðu við, að það væri einróma áskorun stjórnar Rithöfundafélagsins.

Hv. þm. reyndi að skapa hér vissa tortryggni í sambandi við flutning þessa máls, var eiginlega að gefa í skyn, að barátta fyrrverandi formanns Rithöfundafélags Íslands, Helga Hjörvars, fyrir þessu máli, kynni að hafa orðið til þess, að skipt var um formann í félaginu. Ég ætla, að þetta sé algerlega úr lausu lofti gripið, og mér hefur einmitt verið tjáð, að á aðalfundi félagsins nú alveg nýskeð hafi komið fram mikil ánægja á fundinum með þetta frv. og ekki andmæli gegn því, eins og hv. þm. er að gefa í skyn. Annars skal ég ekki ræða um það hér, það kemur að sjálfsögðu í ljós á sínum tíma, hverjir eru fylgjandi þessu frv. og hverjir ekki. En það kennir nokkurs misskilnings hjá honum, þegar hann telur nauðsyn á því að hafa samráð við bæði rithöfundafélögin um þetta mál. Fyrst og fremst er það auðvitað Bandalag íslenzkra listamanna, sem á að hafa samráð við um þetta mál, en í því eru fulltrúar fyrir listgreinarnar allar.

Ég var nokkuð undrandi á þeim tón, sem var í ræðu hv. 1. landsk. þm. út af þessu máli, og hann leyfði sér m. a. að viðhafa þau ummæli, að höfundur frv. virtist ekki hafa sýnt áhuga á þessu áður, þó að það sé staðreynd, að frv. þetta er samið fyrir tveimur eða þremur árum og var rætt þá að hans tilhlutan í Bandalagi íslenzkra listamanna og síðar í stjórn Rithöfundafélagsins. Hann segir enn fremur, að ég hafi ekki sýnt annað en að ég væri ánægður með þá skipun, sem verið hafi á þessum málum undanfarið. Hér fer hv. þm. ákaflega villur vegar og ætti að vita betur. Meðal annars var það fyrir tíu árum, sem hér var stjórnskipuð nefnd að störfum, fjögurra manna nefnd, til þess einmitt að gera tillögur um nýja skipan á þessum málum. Ég átti sæti í þeirri n., og samdi hún frv., sem hún skilaði til ríkisstj., um gerbreytta skipun frá því, sem verið hafði, og að nokkru leyti í sömu átt og þetta frv. fer fram á. Í menntmn. undanfarin ár, þar sem ég hef átt sæti, hefur málið mjög oft verið rætt, og því fer fjarri, að frv. um þetta efni hafi verið stungið undir stól. Þau hafa verið rædd þar ýtarlega, m. a. hefur um frv., sem bæði hv. 1. landsk. og enn fremur ýmsir fleiri þm. hafa flutt um þessi efni á undanförnum árum, verið fengin umsögn Bandalags íslenzkra listamanna, háskólaráðs, menntamálaráðs og bæði sent til umsagnar fleiri aðila og margir kvaddir á fundi menntmn. að undanförnu. Þó að því miður hafi ekki náðst samkomulag um lausn þessa vandasama máls, hefur vissulega verið vakandi áhugi á undanförnum árum fyrir lausn þess.

Um einstök atriði í þessu frv. skal ég ekki ræða frekar nú. Hv. þm. segist vera algerlega andvígur því ákvæði, að menntmrh. hafi úthlutunarvald. Það má að sjálfsögðu ræða það í meðförum málsins, hvort hentara þætti að koma því fyrir á annan veg. En ummæli hv. þm. eru ákaflega villandi í þessu, því að það er skýrt tekið fram í frv., að ráðh. skuli úthluta listamannalaunum eftir tilnefningu þessara aðila, sem getið er um í 4. gr. Heimspekideild háskólans eða fimm menn, sem hún velur til, og menntamálaráð, hvor í sínu lagi, skulu gera tillögur til ráðherra, og hvor aðili á að tilnefna fulla tölu manna í hvern launaflokk. Að því leyti a. m. k. sem þessir aðilar eru sammála, og við skulum gera ráð fyrir, að það verði um allan þorra manna, er ráðherra að sjálfsögðu bundinn við þá tilnefningu. Þess vegna er það mjög villandi, þegar hv. 1. landsk. lætur í það skína hér, að þetta eigi að vera gersamlega í höndum og eftir geðþótta menntmrh. á hverjum tíma.

Ég vildi aðeins á þessu stigi leiðrétta þessi mishermi, sem komu fram í ræðu hv. þm., og satt að segja undrar mig nokkuð á þeim tón, sem kom fram í ræðu hans, þar sem hann annað veifið þykist hafa mikinn áhuga á frambúðarlausn þessara mála. — Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en legg til, að málinu verði vísað til menntmn.