28.10.1955
Efri deild: 12. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (2041)

72. mál, skipun prestakalla

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég frv. um sama efni og hér liggur fyrir. Það fór til nefndar, en náði ekki að verða afgreitt og er því flutt aftur núna. Það liggja sömu ástæður og sama þörf enn fyrir og þá var. Ekki sízt eins og tíðarfar hefur hagað sér hvað flugleiði snertir, það sem af er þessu ári, þá hefur það komið mjög berlega í ljós, að oft geta samgöngur torveldazt um lengri eða skemmri tíma við eyjarnar, og það er ein helzta ástæðan fyrir því, að þörf er tveggja þjónandi presta.

Það er með prestana eins og aðra, að þeir þurfa stundum að bregða sér frá um lengri eða skemmri tíma, stundum með nokkrum undirbúningi, stundum undirbúningslaust, eins og gerist og gengur um aðra menn, og þá geta orðið af því mikil óþægindi, ef plássið er prestlaust.

Mér skildist á sumum hv. nefndarmönnum, sem um þetta mál áttu að fjalla og hafa víst fjallað á síðasta þingi, að eyjunum væri engin þörf á að hafa tvo þjónandi presta, og var mér bent á prestaköll hér á landi, sem væru eins stór og kæmust af með einn prest. En þar er því til að svara, að þar mun í flestum tilfellum vera með litlum eða svo til engum fyrirvara hægt að ná til prests, ef þörf þykir, alls staðar, en eyjarnar hafa þá sérstöðu, að það geta verið dagar og jafnvel vikur, sem hvorki er hægt að koma presti né öðrum mönnum á milli lands og eyja.

Ég minntist á það, held ég, síðast þegar ég talaði um þetta mál, að nokkuð miklu hefði munað um það, að séra Jes A. Gíslason past. em. hefur átt bústað í Eyjum og býr þar raunar enn, og var oft til hans leitað í forföllum sóknarprests, mjög oft meira að segja. Hans heilsu eru nú orðið þannig varið og raunar hans hái aldur er því líka til fyrirstöðu, að hann geti lengur sinnt slíkum erindum eða orðið við þeim kröfum, sem gerðar eru til sóknarprests, og hefur hann núna um þó nokkuð margra ára skeið ekki gefið sig að neinum prestsverkum, þó að hann gerði það oft áður í forföllum sóknarprests.

Síðan þetta mál var hér til umræðu á hinu háa Alþingi, hefur sú breyting á orðið um Ofanleitisprestakall í Vestmannaeyjum, að það hefur verið sameinað Kjalarnesprófastsdæmi, og á héraðsfundi í því prófastsdæmi, sem nú er nýafstaðinn, var gerð ályktun, þar sem fundurinn lýsir yfir þeirri skoðun sinni, að óhjákvæmilegt sé, að tveir prestar þjóni í Vestmannaeyjum, m. a. vegna einangrunar eyjanna og samgangna yfirleitt. Fundurinn skoraði á hið háa Alþingi, sem nú situr, að samþykkja frv., sem fer í sömu átt og það frv. er hér liggur fyrir.

Fólki og heimilum fer stöðugt mjög fjölgandi í Eyjum. Byggðin breiðist út, og þar sem mikið er stofnað til búskapar af ungu fólki, er eðlilegt, að barnafjöldi verði mikill, enda er hann orðinn mikill. Er það út af fyrir sig ein veigamikil ástæða fyrir því, að æskilegt sé, að tveir þjóðkirkjuprestar séu þarna á staðnum, sem vissulega yrði til þess að efla meira kristilega uppfræðslu, kristilega menningu og kirkjulegt starf, og er þess síst vanþörf nú á tímum, að til þess séu lagðir fram nægilegir og góðir kraftar.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál lengur. Ég vænti þess, að það mæti nú meiri skilningi en síðast og að hin hv. deild meti líka nokkuð álit héraðsfundar Kjalarnesprófastsdæmis, sem ég minntist á áðan í sambandi við önnur þau rök, er þetta mál styðja. Vil ég mælast til þess, að frv. sé að loknum þessum umr. vísað til hv. menntmn.