24.02.1956
Efri deild: 75. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

161. mál, sala Kópavogs og Digraness

Flm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að ósk bæjarstjórnar Kópavogskaupstaðar, eins og fram kemur í grg. fyrir því. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að allir forustumenn flokka og samtaka fólks í Kópavogi séu nú einhuga um það, að sú lausn á vissum vandamálum, sem skapazt hafa vegna landa- og lóðamála í hinum nýja kaupstað, sú lausn, sem hér er lögð til með þessu frv., sé hin eina rétta. Þessu lýstu allir forustumenn flokka og samtaka yfir við nýafstaðnar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi í haust, og það var eitt af fyrstu verkum nýkjörinnar bæjarstjórnar að samþykkja ályktun þess efnis, og var enginn ágreiningur um það milli þeirra fulltrúa, sem þar áttu sæti, að það væri mikið nauðsynjamál fyrir hinn nýja kaupstað að eignast sjálfur það land, sem byggðin stendur á, enda mun mega segja, að það sé orðin almenn skoðun flestra eða allra, sem hafa kynni af sveitarstjórnarmálum í vaxandi kauptúnum og kaupstöðum okkar lands, að það sé langæskilegast, að sveitarfélögin eigi sjálf það land, sem hinar vaxandi byggðir standa á. Þess vegna er það, að hér á hv. Alþingi hafa á undanförnum árum komið fram mörg sams konar mál og þetta að óskum sveitarstjórna í viðkomandi kauptúnum og kaupstöðum, og þau mál hafa jafnan verið afgreidd fljótt og ágreiningslaust frá hv. Alþingi.

Síðustu mál þess efnis, sem legið hafa fyrir Alþingi, voru t. d. um Sauðárkrók, lög, sem voru afgreidd 1947, Dalvíkurhrepp, líka 1947, vegna Ólafsfjarðar og fleiri byggða, sem mætti telja, en ég nefni þó aðeins þau mál, sem hafa verið afgreidd nú síðustu árin. Allra síðasta mál þess efnis, sem þessi hv. d. hefur haft til meðferðar, var á þinginu 1954, þegar hv. þm. S-Þ. flutti frv. vegna Dalvíkurhrepps um viðbót við þau lög, sem samþykkt höfðu verið 1947 til handa Dalvíkurhreppi vegna kaupa á jörðum frá ríkissjóði. Hann lýsti því þá yfir, hv. þm. S-Þ., sem sinni skoðun, að þetta, að sveitarfélög og bæjarfélög eignuðust það land, sem þeirra byggðir standa á, væri eitt allra mesta nauðsynjamál kaupstaða og kauptúna, og held ég, að ekki verði margir, sem hafa haft nokkur afskipti af sveitarstjórnarmálum í kauptúnum og kaupstöðum, sem mundu mótmæla þeirri skoðun. Þó er það alkunnugt, að menn deila nokkuð almennt um það sem meginstefnu, hvort sé heppilegra eða réttara, að hið opinbera, ríkið, eigi land, jarðir, t. d. bújarðir, eða einstaklingar.

Í sambandi við öran vöxt bæja, eins og gerist í okkar landi, hefur gerzt á undanförnum áratugum og gerist enn, verður verðhækkun á landi með eðlilegum hætti, en sú verðhækkun getur aftur orðið til þess að torvelda og tefja vöxt og viðgang þeirra byggða, sem hlut eiga að máli, nema því aðeins að þær byggðir sjálfar, þau sveitar- og bæjarfélög sjálf, eigi landið og hafi vald á og geti hamlað gegn óeðlilegri verðhækkun að minnsta kosti.

Nú stendur svo á í Kópavogskaupstað, að ríkissjóður á mestallt það land, sem sjálf byggðin stendur á. Meginbyggðin stendur á hálsum, sem hafa verið kenndir við tvær jarðir, sem þar hafa verið frá fornu fari, Digranes og Kópavog. Þetta munu alltaf hafa verið litlar jarðir, enda hrjóstrugt land, mjög grýtt, og ekki álitlegt, hvorki til búskapar né raunar til byggingarframkvæmda, þó að það hafi nú orðið á síðustu árum svo, að þarna hefur vaxið upp byggð örar en jafnvel eru dæmi til á okkar landi, því að þarna voru fyrir tíu árum ekki nema nokkur hundruð manna, en eru nú nær 4 þús., svo að það er óhætt að segja, að fjöldi íbúanna hefur tífaldazt á síðustu tíu árum.

Þetta land, eignarland sitt, leigði ríkissjóður lengi félagi einu með mjög litlu eða alls engu afgjaldi, en á árunum 1937–1942 gerði ríkið þær ráðstafanir að skipta þessu landi að mestu leyti upp í ræktunarlönd og lét þau á leigu til manna með mjög vægu afgjaldi, 5 kr. á hvern ha, enda var þeim þá ætlað að rækta þetta lítt ræktanlega land á svo sem tíu árum, enda hefðu þeir og þeirra afkomendur leigurétt á landinu. En nú fór svo, að skömmu eftir að þessar ráðstafanir voru gerðar, tóku menn að setjast að á þessum löndum og byggja þar íbúðarhús, sem þeir ætluðu sér að búa í til frambúðar. Og eftir 1947 varð þessi þróun svo ör sem ég hef nú áður getið.

Eftir árið 1947 var þetta land tekið til skipulagningar samkv. lögum um skipulag bæja, skipulagningar sem þéttbýli, og hefur verið unnið að því síðan, og er nú fyrirhugað samkv. þeim áætlunum, sem fyrir liggja, að þarna geti risið upp á næstu árum og áratugum byggð, þar sem byggju um 10–20 þús. manna, svo að það eru allar líkur til þess, að sú öra þróun, sem þarna hefur orðið um byggingar, haldi áfram.

Síðan árið 1947 hefur sveitarfélagið, sem þarna hefur starfað og hefur heitið ýmsum nöfnum — Seltjarnarneshreppur, Kópavogshreppur. nú síðast Kópavogskaupstaður — lagt verulegar fjárhæðir til þess að gera þetta land byggilegt. Það hafa verið lagðir vegir, sem nú eru yfir 30 km samanlagt. Til þeirra hefur sveitarfélagið lagt 200–300 þús. kr. öll síðustu ár, nú á fjórða hundrað þús. króna. Ríkið hefur að vísu síðustu árin lagt fram nokkurn styrk til þess að leggja vegi um þetta land, eignarland sitt, einkum vegna þeirra manna, sem þar áttu og eiga enn ræktunarlönd, en sá styrkur hefur verið um 50–60 þús. kr. á ári, en hann var þó nú nýlega. á gildandi fjárlögum þessa árs. felldur niður með öllu, vegna þess að nú væri þetta kaupstaður, sem ætti að bera byrðar sínar sjálfur að öllu leyti, en þessi styrkur hefur verið hið eina, sem ríkissjóður hefur lagt fram til framkvæmda á þessu eignarlandi sínu. Sveitarfélagið og þess íbúar hafa hins vegar lagt fram stórfé til þess að gera þetta land sitt byggilegt fyrir sig og aðra þá, sem síðar koma. Þar hefur t. d. verið lögð vatnsveita, sem er nú um 25 km. Hún hefur kostað á þriðju millj. kr. Þar hafa verið lagðar skólpveitur, sem kosta á aðra millj. kr. Þar hefur verið komið á götulýsingu og fleiru, sem of langt yrði upp að telja, en þarf til þess, að land sé byggilegt sem þéttbýli. Allt þetta hefur sveitarfélagið lagt fram sjálft og ekki fengið til neinn styrk úr ríkissjóði, meira að segja til vatnsveitu. Þó að það séu lög um vatnsveitustyrk, að ríkissjóði beri að leggja fram nokkurn styrk til vatnsveitna, hefur þetta sveitarfélag, ég held eitt allra yfir 20 sveitarfélaga, sem hafa lagt fé sitt í vatnsveitugerð á síðustu árum, síðan þessi lög um styrk til vatnsveitna gengu í gildi, ekki fengið nokkurn eyri í styrk frá ríkissjóði til þessarar miklu framkvæmdar. Ég held því, að það megi fullyrða, að sú verðhækkun, sem hefur orðið á þessu landi, eignarlandi ríkissjóðs, síðan t. d. árið 1947, hafi ekki orðið fyrir framkvæmdir ríkissjóðs eða neinar framkvæmdir, sem ríkissjóður hefur kostað, heldur fyrir þær framkvæmdir, sem sveitarfélagið og þess íbúar hafa einir kostað. Þeir hafa svo aftur lagt fram, mér er óhætt að fullyrða margar milljónir króna í ríkissjóð í beinum sköttum, tekjuskatti og eignarskatti, þó að ekki séu taldir aðrir skattar, á þessum árum.

Það má vitanlega deila um, hvers virði slíkt land sem þetta, sem hér ræðir um, sé, en ríkissjóður hefur ekki getað talið sér það stórkostlegt verðmæti á undanförnum áratugum, það er víst. Og þó að það gefi ríkissjóði nú nokkrar tekjur, þá er það vegna þeirra framkvæmda, sem íbúarnir sjálfir á svæðinu hafa lagt fram og kostað, en ekki ríkissjóður.

Nú hefur það verið svo um hliðstæð mál eins og þetta, að oftast hygg ég að hafi náðst samkomulag og gott samkomulag milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, sem hafa fengið samkv. lögum frá Alþ. heimild til þess að kaupa land af ríkissjóði. En ef samkomulag næst ekki, þá er vitanlega sú leið til að láta meta verðmætið og kveðja til þess menn með dómi. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að ef samkomulag verður ekki, meti dómkvaddir menn landið, en þó tekið fram, að Kópavogskaupstað skuli ekki gert að greiða þá verðhækkun landsins, sem hafi orðið vegna framkvæmda bæjarfélagsins sjálfs, síðan farið var að skipta landinu í byggingarlóðir, þ. e. a. s. eftir 1947, og þykist ég hafa fært nokkur rök að því, að það væri ekki sanngjarnt að ætla sveitarfélaginu að greiða nú stórfé fyrir það verðmæti, sem það sjálft hefur skapað.

Í 2. gr. frv. er svo ráð fyrir gert, að Kópavogskaupstaður fái heimild til þess að taka eignarnámi erfðafesturéttindi í þessu landi, sem um er rætt, ef nauðsyn krefur vegna skipulags. Þetta ákvæði er nákvæmlega hliðstætt sams konar ákvæðum í hliðstæðum lögum, sem afgreidd hafa verið frá Alþingi. Ég minnist þess til dæmis, að hv. þm. S-Þ. flutti á þingi 1954 frv., sem var alveg hliðstætt ákvæðum 2. gr. þessa frv., vegna þess að það hafi komið í ljós að því er Dalvíkurhrepp snerti, að í það frv., sem samþykkt var á þingi 1947 um heimild handa ríkissjóði til að selja Dalvíkurhreppi land, sem kauptúnið stendur á, vantaði þetta ákvæði, og olli það Dalvíkurhreppi erfiðleikum, að slíkt ákvæði var ekki fyrir hendi, eins og hv. flm. tillögunnar gerði grein fyrir. Ég held því, að það sé nauðsynlegt, að slík heimild til eignarnáms á erfðafesturéttindum fylgi slíkum lögum, eins og mun hafa verið um flest lög þessa efnis, sem afgreidd hafa verið frá Alþingi, þó að ég sé hins vegar þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að nota slíka eignarnámsheimild, nema brýn nauðsyn krefji, og alls ekki fyrr en að því kemur, að ekki verði hjá komizt, að erfðaleigulönd, sem upphaflega voru látin á leigu til manna til ræktunar, verði tekin til þess að skipta þeim upp í byggingarlóðir vegna nauðsynjar annarra manna til þess að fá byggingarlóðir til að byggja á. Ég vil lýsa því yfir í sambandi við þetta, að þessi eignarnámsheimild mun ekki verða notuð, nema brýn nauðsyn bæjarfélagsins krefjist, a. m. k. á meðan ég á hlut að máli um meðferð þessara mála þar heima í héraði.

Ég vil vænta þess með tilliti til þess, að að þessu frv. standa menn úr öllum flokkum hér í hv. d. og að það er óvefengjanlegt, að ekki er ágreiningur heima í viðkomandi héraði um það, að þetta mál sé mikið nauðsynjamál þeim unga kaupstað, að þetta frv. fái greiðan gang gegnum þessa hv. d. eins og önnur frv. sams konar á undanförnum árum.

Það mun hafa verið nokkuð sitt á hvað um það, til hvaða n. slíkum frv. sem þessu hefur verið vísað. Öll frv., sem snerta a. m. k. sölu jarða ríkissjóðs til einstakra manna, hafa verið fyrir landbn., en til mun það vera, að hv. fjhn. hafi einnig fjallað um sölu slíkra landa. En ég vildi nú leyfa mér að gera það að minni till., að þessu máli yrði vísað til hv. landbn., þó að ég geri hins vegar ekki mikinn mun á um það, hver hv. n. fær þetta mál til meðferðar.