19.03.1956
Efri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (2059)

187. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. flytur þetta frv. samkv. beiðni ríkisstj., eins og frá er skýrt í grg. Aðalástæðan til þess, að frv. er fram lagt, er sú, að innheimtumenn ríkisins, sem nota vélabókhald það, sem nú er starfandi hér í Rvík, geta ekki komið að í bókhaldinu fleiri dálkum í manntalsgjaldabók en fyrir þær tegundir gjalda, er þeir þurfa að innheimta fyrir ríkið sjálft. Vélarnar taka ekki breiðari blöð en svo. Fasteignaskattur þessi hefur verið á lagður í um þriðjung aldar. Lengst af tók ríkið hann handa sér, en tvö síðustu árin hefur hann gengið til sveitarfélaga, en verið eftir sem áður innkallaður af innheimtumönnum ríkisins.

Nú er það lagt til með frv. þessu, ef að lögum verður, að breyting sú verði á, að skatturinn verði innheimtur með sveitargjöldum eftirleiðis. Ræður þá sveitarfélagið, hvort það innheimtir hann sérstaklega eða bætir honum ofan á annan fasteignaskatt, sem það má leggja á samkvæmt lögum. Það skal fram tekið, að skattur þessi, sem samkvæmt gildandi lögum var skylt að taka, verður, ef frv. nær fram að ganga, heimildarskattur. Fjhn. leit svo á, að rétt væri að gera lögin að heimildarlögum. Skatturinn er orðinn vegna breytts peningagildis í raun og veru smámunir, og geta sveitarstjórnir ráðið því, hvort þær innheimta hann eða ekki, ef lögin eru heimildarlög.

Ég vil geta þess, að frv. þetta og þrjú önnur frv., sem nú eru á dagskrá og ríkisstj. óskaði að fjhn. flytti, hafa legið alllengi óafgreidd hjá fjhn. Þessi frv. eru auk þess, sem nú er verið að ræða, frv. um sýsluvegasjóði, frv. um hundahald og frv. um kirkjugarða. Þessi frv. öll eru fram komin af sömu ástæðum, sem sé vegna breytts bókhalds hjá innheimtumönnum ríkisins. Þau hafa það öll sameiginlegt að létta á innheimtumönnum ríkisins, en auka störf hjá innheimtumönnum sveitarfélaganna. Fjhn. hikaði um skeið að afgreiða frumvörpin, vegna þess að a. m. k. sumir nm. töldu illa við eiga að leggja þær kvaðir á sveitarfélögin, er frumvörpunum fylgja, án þess að eitthvað kæmi á móti. Þeirrar skoðunar vorum við hv. þm. Barð. ekki sízt. Vildum við ekki mæla með frumvörpunum eins og þá stóðu sakir, en svo samdist þannig einmitt fyrir tilverknað okkar, að öll sveitarfélögin fái ókeypis skýrslur þær, er fyrirtækið „þjóðskrá“ lætur þeim í té, en það hafði ekki áður verið fyrirhugað. Sveitarfélögin áttu, eftir því sem frv. um þjóðskrá var upphaflega samið, að greiða 35% af kostnaði við starfsemi þjóðskrárinnar. Þegar þetta fékkst, sættumst við á, að n. flytti frv. eins og þau nú eru, enda höfðum við athugað bókhaldsvélarnar og gengið úr skugga um, að rétt var frá sagt um annmarka á því að nota þær fyrir þessi gjöld á vegum innheimtumanna ríkisins.

Fjhn. leggur öll til, að frv. þetta verði samþykkt. Það er ágreiningslaust mál af hennar hendi.