16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú að fjara út, og ég skal ekki verða til þess að lengja þær, en á eitt atriði vil ég benda að síðustu.

Það eru helztu rök hæstv. forsrh. fyrir því, hversu síðbúin stjórnin sé með sínar till. um lausn vandamála útvegsins, hve illa ríkisstj. hafi gengið að fá nauðsynlegar upplýsingar hjá útveginum og sérstaklega frystihúsunum, t. d. hafi ríkisstj. ekki fengið reikninga frystihúsanna fyrir 1954 fyrr en í gær, síðustu reikningana, skilst mér. Þessar upplýsingar koma mér ákaflega á óvart, og ég er satt að segja forviða á þeim. Hæstv. stjórn hlýtur að vera kunnugt um, að frystihúsin eru skattskyld. Henni ætti að vera kunnugt um, að frystihúsin hljóta að skila reikningum frá 1954 til skattyfirvalda fyrir mitt ár 1955. Reikningar allra frystihúsa á landinu eru búnir að liggja hjá ríkisskattanefnd síðan á miðju þessu ári. Ég veit ekki betur en að ríkisskattanefnd sé í næsta húsi við hæstv. forsrh. Hvað veldur því, að ríkisstj. telur sig skarta vald til þess að sækja reikningana í ríkisskattanefnd? Þar liggja þeir og hafa legið í 6 mánuði eða svo. Enginn hlutur hefði verið hægari fyrir hæstv. ríkisstj. en að fara sjálf eða senda trúnaðarmenn sína milli húsa hér í Reykjavík og fá þær upplýsingar, sem hún segist vera búin að bíða eftir í marga mánuði.