19.03.1956
Efri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í C-deild Alþingistíðinda. (2095)

190. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Lög um kirkjugarða mæla svo fyrir, að bæjarfógetum og oddvitum sé skylt að innheimta gjöld til kirkjugarða, ef sóknarnefndir óska. Vegna hins nýja vélabókhalds hafa bæjarfógetarnir óskað eftir því að þurfa ekki eftirleiðis að innheimta þessi gjöld og sýnt fram á, að það er þeim til mikilla óþæginda. Frv. þetta, ef að lögum verður, léttir þeirri kvöð af bæjarfógetunum, en leggur hana hins vegar á bæjarstjórana, eins og hún hefur hvílt á oddvitunum. Það verða þá eftirleiðis innheimtumenn sveitarsjóða, sem er skylt að innheimta hundraðsgjald vegna kirkjugarða miðað við útsvör, ef frv. verður að lögum, en það er háttur að mæla kirkjugarðsgjaldið við útsvörin, og eitt af því, sem gerir innheimtumönnum ríkisins örðugt fyrir að innheimta þetta gjald, er það, að útsvarsálagningin fer seinna fram en álagning þeirra gjalda, sem þeir innheimta fyrir ríkið, og yrði þá bið á því, að þeir fengju útsvarsskrárnar til þess að geta reiknað eftir þeim kirkjugarðsgjöldin. Þar af leiðandi veldur þetta ekki aðeins fyrir þá, ef lögin eru óbreytt, óþægindum af því, að gjöldin komast ekki lengur inn í manntalsgjaldabækur, heldur líka töfum á því, að þeir geti unnið sín verk.

Það er ákveðið í lögunum, eins og þau gilda nú, að innheimtugjald þeirra, sem framkvæma innheimtuna, skuli vera 6%. Þetta virtist fjhn. vera óþarflega há innheimtulaun og leggur þess vegna til í frv., að skyldan á innheimtumönnum sveitarsjóða sé miðuð við það, að þeir fái venjuleg innheimtulaun, en venjuleg innheimtulaun eru vitanlega lægri en 6%. Þetta yrði þá samkomulagsmál milli sóknarnefnda og innheimtumannanna eftirleiðis.

Fjhn. leggur einróma til, að frv. þetta verði samþykkt.