24.11.1955
Neðri deild: 23. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. og hefur að geyma tillögur um greiðslu verðlagsuppbótar á laun opinberra starfsmanna frá næstu áramótum. Eins og fram er tekið í athugasemdum við frv., mun það vera svo, að flestir starfsmenn við einkafyrirtæki fái nú þegar greidda verðlagsuppbót eftir þeirri reglu, sem gert er ráð fyrir samkv. frv. að gildi um verðlagsuppbót til opinberra starfsmanna frá byrjun næsta árs.

Frv. var sent fjhn. til athugunar, og meiri hl. n. leggur til, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir. Einn nm., hv. þm. A-Húnv. (JPálm ), kvaðst vera á móti frv., en gerði ekki ráð fyrir að gefa út sérstakt nál. Annar nefndarmaður, hv. 9. landsk. (KGuðj), var fjarverandi, þegar málið var afgreitt, eins og skýrt er frá í nál. á þskj. 132.