16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Forsrh. (Ólafur Thors):

Má ég ekki, herra forseti, til að skemmta mér líka segja, að mér þyki hart, þegar heimtað er daglega af hugsjónamönnunum, að Framsfl. komi í stjórn, en hann nefnir aldrei, að við komum, hugsjónamennirnir, sem vorum í nýsköpunarstj.?

Ég vil svo aðeins leiðrétta, að það hafi verið þm. í Sjálfstfl., sem voru á móti nýsköpunarstj. vegna nýsköpunar. Þeir voru á móti stj., sem ég veitti forstöðu, vegna þess að kommúnistar voru í stj. Það er rétt, að það komi fram, af því að það var þetta, sem réð.

Ég vil svo enn fremur benda þessum hv. þm. á það, að hann hefur stundum haft meiri mætur á dr. Benjamín Eiríkssyni en fram kemur í ræðu hans hér. Og það mat, sem hann hafði á honum áður, er rétt í dag, því að þetta er mjög merkur maður, vitiborinn og menntaður.

Hv. 1. landsk. vil ég segja það, að í fyrsta lagi þykir mér ólíklegt, að ríkisstj. geti farið upp á eindæmi til ríkisskattanefndar og sagt: Ég ætla að sækja hingað reikninga frystihúsanna. — Ég veit ekki um þetta. Ef þetta er rétt, þá finnst mér það óviðurkvæmilegt.

Í öðru lagi vil ég segja það, að ríkisstj. heimtar miklu fyllri skilagrein og sundurliðaðri fyrir afkomu frystihúsanna en ég hygg að sé almennt heimtað til skattframtals. Ef við eigum að reyna að átta okkur á, hvað sé auðið að gera í þessari vandasömu aðstöðu, þá verðum við að sjá hvern einasta kostnaðarlið í þeirra reikningum sundurliðaðan og hafa aðstöðu til að gagnrýna frá miklu fyllri upplýsingum en ég hygg að skattstofurnar heimti.