23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2112)

55. mál, alþýðuskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að láta það álit mitt í ljós, að ég undrast nokkuð, hvernig hefur verið farið með þetta mál í hv. allshn. Ef till. þessi verður samþ. eins og hún liggur fyrir, þá er það bein fyrirskipun Alþ. til hæstv. ríkisstj. um að undirbúa löggjöf um stofnun eins eða fleiri æskulýðsskóla og þá að sjálfsögðu á þeim grundvelli, að slíkum skólum verði komið upp, og þegar þetta orðalag er athugað, sýnist mér, að þessi till. hefði átt að fá tvær umr., en hæstv. forseti hefur ákveðið eina umr, um hana. Ég er ekki að ásaka hann fyrir það, því að hann skaut því til hæstv. sameinaðs þings, hvort það yrði haft nokkuð á móti því. En það er sýnilegt, að ef á að undirbúa löggjöf um stofnun eins eða fleiri skóla í landinu, þá hlýtur það að hafa stórkostlegan kostnað í för með sér. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. menntmrh. teldi sér skylt að breyta skólalöggjöfinni í það horf, að hér yrði settur upp einn eða fleiri skóli, ef þessi till. er samþ. svo sem hún nú er orðuð.

Nú er ekki sýnilegt á nál. og hefur ekki heldur komið fram í umræðum, að þetta mál hafi verið sent til umsagnar til nokkurs þeirra aðila, sem með þessi mál fara fyrir utan Alþingi. Það er ekkert orð um þetta frá fræðslumalastjóra, það er ekkert orð um það frá hæstv. menntmrh. eða neinum aðila, sem með þessi mál fer fyrir utan Alþingi, og þykir mér það ákaflega merkileg meðferð á jafnstóru máli.

Ég vildi því mega vænta þess, að hv. flutningsmenn féllust a, að þessari umr. yrði enn frestað, það yrði leitað umsagna viðkomandi aðila, m. a. Ungmennafélags Íslands, sem á að leita til, ef semja á löggjöfina, eins og ákveðið er í tillögunni. Það væri fróðlegt fyrir okkur, sem eigum að greiða atkv. um málið, að fá upplýst, hvort þeir telji á þessu stigi málsins, að nauðsynlegt sé að breyta fræðslulögunum í það horf, sem hér er farið fram á. Einnig væri mjög æskilegt að heyra álit hæstv. menntmrh. um það, hvort hann teldi nauðsynlegt að koma slíkri breytingu á og hvort hann teldi ekki, að hér sé um allmikil ný útgjöld að ræða í sambandi við fræðslumálin, ef þessi till. yrði samþykkt.

Ég hélt satt að segja, að þegar fræðslumálin kosta orðið ríkið allt að 70 millj. kr. á ári, væri það ekki fyrsta sporið, sem þyrfti að stíga í sambandi við fræðslulöggjöfina, að auka allverulega á þann kostnað, sem henni er samfara, án þess að ég vilji út af fyrir sig nokkuð segja um það, hvort heppilegt sé að hafa það skólafyrirkomulag, sem hér er minnzt á, eða ekki. Þyrfti þá að athuga, hvort ekki væri hægt að draga úr eða spara á einhverjum öðrum sviðum, ef þessi till. á að verða samþ. svo sem hún liggur fyrir.

Ég vildi mega vænta þess, að umr. yrði frestað. Að öðru leyti mun ég koma með till. um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, ef atkvgr. á að fara fram á þessu stigi málsins.