23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2114)

55. mál, alþýðuskólar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Mér virðist, að hv. þm. Barð. hafi misskilið þessa till. dálítið, og einnig kom glögglega fram, að þó að hann sé minnugur og vanur að vita, hvað fram fer í málum, þá var eins og hann kannaðist ekki við, að neitt hefði farið fram í þessu máli fyrr en nú á þessu þingi. Hann talaði um, að hér væri ríkisstj. beinlínis fyrirskipað að semja lagafrumvörp um stofnun alþýðuskóla með lýðháskólasniði. Þetta er ekki alls kostar rétt. Fyrst og fremst er hér ekki um beina fyrirskipun að ræða, heldur er skorað á ríkisstj. að gera þetta, og í því liggur það auðvitað, að ef ríkisstj. kemst að þeirri niðurstöðu, að slíka löggjöf beri ekki að setja, þá flytur hún ekki lagafrv. um það á næsta þingi, heldur gerir þá þinginu á annan hátt grein fyrir sínu áliti, og það er að leggja tillögur sínar fyrir næsta þing, eins og tillagan orðar það.

Hv. þm. taldi, að það mundi óhjákvæmilega leiða mikinn kostnað af framkvæmd þessa máls, ef það, sem till. fjallar um, kæmist í framkvæmd, skildist mér, því að af athugun hjá ríkisstj. getur ekki leitt neinn verulegan kostnað. En ég hugsa, að hann hafi ekki lesið viss orð í tillögunni. Það er 2. málsliður, sem hljóðar svo: „Jafnframt verði athugað, hvort ekki er hægt að ná þessu marki með því að breyta einum eða fleiri skólum gagnfræðastigsins í þessa átt.“ Og það var lögð áherzla á það í minni framsöguræðu við fyrri hluta umr., að það væri einkum þetta, sem fyrir okkur flm. vekti. Ef svo yrði gert, þá sé ég ekki, að um kostnað af þessari till. væri að ræða, þó að löggjöf kæmi um það. En vitanlega þyrfti þá um leið að athuga, hvort samkomulag gæti náðst um það við þá aðila, sem jafnframt ríkisstj. hafa umráð yfir þessum skólum, að einum eða fleiri þeirra yrði breytt í þessa átt.

Hv. þm. Barð. leggur til, að þessari umr. sé frestað, til þess að hægt sé að leita umsagnar ýmissa aðila um till., og nefndi þar sérstaklega fræðslumálastjóra. N. tók þetta til athugunar, en hún sá ekki ástæðu til þess, sökum þess að í fyrra lá mjög svipað mál fyrir þinginu og í sömu nefnd, og þá sendi nefndin málið til fræðslumálastjóra til umsagnar, og hann mælti mjög eindregið með þeirri hugmynd, sem í till. kom fram, en taldi aðeins, að það vantaði lagaheimild til að framkvæma þetta án sérstakra laga. Ég lít því svo á og nefndin lítur svo á, að umsögn fræðslumálastjóra sé þegar fengin. Hér er einmitt farið fram á að útvega þá lagaheimild, sem fræðslumálastjóri taldi á skorta í fyrra. Álits hæstv. menntmrh. hefur ekki verið leitað sérstaklega, enda veit hv. þm. Barð., að það er ekki síður beint að krefja ráðherrana um umsagnir um mál, þó að hitt komi fyrir, að þeir séu beðnir að koma á nefndarfundi. En ég fyrir mitt leyti lít svo á, að álit hæstv. ráðh. liggi einnig fyrir um þetta mál, því að þegar till. um sama efni var til framhaldsumræðu á þinginu í fyrra, talaði hæstv. ráðh. mjög í sömu átt og fræðslumálastjórinn skrifaði; að hann virtist vera þessari hugmynd hlynntur, en taldi sig skorta lagaheimild til þess, eins og till. þá fár fram á, að breyta einum eða fleirum af alþýðuskólum landsins í þannig lagaðan skóla, sem lagt var til. Það má auðvitað hugsa sér, að bæði fræðslumálastjóri og ráðherra breyti áliti sínu við nánari athugun, og það hefði þá helzt verið að spyrja þá að því, hvort þeir hefðu sömu skoðun á málinu nú og í fyrra. En hvað það snertir, að það hafi skort á að spyrja ungmennafélög Íslands um álit þeirra á málinu fyrir fram, þá sé ég ekki, að það þurfi, því að ef þau vilja ekki sinna málinu, þá er ekki annað fyrir þau en að tilkynna, að þau kæri sig ekki um að sinna þessu máli og hafa neitt samráð um það. Till. er ekki um að skylda ungmennafélögin til að taka þátt í þessu, heldur er skorað á ríkisstj. að leita álits þeirra. Þau geta, ef þeim sýnist, hæglega svarað: Við óskum ekki eftir að láta neitt álit í ljós um þetta mál. — Ég sé því ekki, að það skorti á nokkurn hátt á, þó að þeirra álits hafi ekki fyrir fram verið leitað.

Fyrir þessu öllu gerði ég grein í framsöguræðu minni, þegar málið var til fyrri hluta umræðunnar, að álits fræðslumálastjóra hefði verið leitað í fyrra og hvað hæstv. ráðh. hefði þá um málið sagt. Sennilega hefur hv. þm. Barð. ekki hlustað á það eða þá gleymt því.