17.12.1955
Sameinað þing: 26. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2134)

124. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þáltill., sem hér er til umr., fer fram á, að Alþ. samþ., að fundum þingsins verði frestað frá deginum í dag, enda verði þingið kvatt saman aftur eigi síðar en 5. janúar n. k.

Það er venja, að nokkurt hlé sé gert á fundum Alþ. kringum jólahátíðina, og er það mjög eðlilegt og þá ekki sízt vegna þeirra hv. þm., sem búa utan höfuðstaðarins.

Ríkisstj. mundi þó nú vegna hinna mikilvægu málefna, sem enn bíða úrlausnar, hafa leyft sér að mælast til þess við hv. þm., að þeir féllu frá þessum eðlilegu óskum sínum, ef hún hefði talið, að áframhaldandi þingseta mætti verða til þess að greiða fyrir úrlausn málanna, en a. m. k. að svo stöddu telur ríkisstj. það ekki vera. Ef ný viðhorf skapast, mun hún að sjálfsögðu leyfa sér að kveðja saman þingið fyrir 5. janúar, ella ekki.

Ríkisstj. mun hins vegar sjálf ásamt sérfræðingum sínum og ráðunautum reyna eftir fremsta megni að hagnýta þinghléið til þess að komast að niðurstöðu um, hvað auðið verði að gera til þess að leysa þann vanda, sem fram undan er í útgerðarmálunum. Ég viðurkenni fyllilega, að sá vandi er mikill og kannske ekki vert að gera sér of glæstar vonir um á þessu stigi, hvernig fram úr honum verði ráðið, en það mun sem sagt ekki standa á því, að ríkisstj. geri sitt ýtrasta.