07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (2164)

23. mál, nýbýli og bústofnslán

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég efast ekki um, að það sé rétt og nauðsynlegt að endurskoða ákvæði laga um nýbýli og bústofnslán, en ég vil, án þess að ég ætli mér að bera fram brtt., benda á, að það er ekki að öllu leyti heppileg leið, sem farið er inn á með þeirri till., sem hér er gerð. Það á að skipa fimm manna nefnd. Ein stofnun á að útnefna tvo menn, önnur stofnun á að útnefna tvo menn, en ríkisstj. skipar formanninn. Hver er hugmyndin, þegar við tölum um fimm manna nefndir til þess að gera einhvern ákveðinn hlut? Hugmyndin er sú, að það komist að mismunandi sjónarmið, til þess að það verði athugaðir allir möguleikar í sambandi við það mál, sem verið er að ræða. Nú skal ég ekki vefengja, að það geti orðið með þessu móti, sem hér er lagt til, en það þarf þá a. m. k. sérstaka tillitssemi hjá þeim aðilum, sem fá valdið til þess að útnefna, ef slíkt á að verða.

Ég vil aðeins skjóta því fram, að ég vildi óska eftir því, að Búnaðarfélagið og nýbýlastjórnin, sem þarna eiga að útnefna mennina, hafi í hyggju, þegar útnefndir verða menn í þetta, að taka tillit til hinna ýmsu sjónarmiða, sem uppi eru um þessi efni, þannig að það komi þá vonandi fram við skipun slíkrar nefndar, að ekki sé verið að bægja frá sjónarmiðum, heldur sé verið að reyna að tryggja, að öll sjónarmið, sem fyrir hendi eru, komi fram.

Þessa athugasemd vildi ég aðeins gera, um leið og till. yrði samþykkt, því að ég hef ekki ætlað mér að gera neina brtt. við þetta.