16.11.1955
Sameinað þing: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (2177)

78. mál, Alþingistíðindi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir þær almennu hugleiðingar, sem hv. flm. hafði um nauðsyn á réttum fréttaflutningi, sem vitanlega er undirstaða þess, að þeir, sem úrslitaráðin hafa í landinu, kjósendurnir, geti gert sér af skynsemi grein fyrir þeim ákvörðunum, er þeir taka og meginþýðingu hafa um framtíð landsins. En ég er hræddur um, að málið sé ekki jafneinfalt úrlausnar og hv. þm. vildi vera láta. Ég fæ ekki skilið, hver geti tekið að sér og hvernig hægt sé að semja algerlega hlutlausan, stuttan útdrátt úr ræðum manna á þingi. Ef slíkan útdrátt á að gera, þá hlýtur ætíð að koma vandi við það að kveða á um, hvað velja skuli og hverju skuli sleppa, og ég veit ekki, hvernig á að fara að því, nema einhver mælikvarði sé lagður um það, hvað hafi þýðingu og hvað ekki. En það fer auðvitað algerlega eftir persónulegu mati hvers og eins, hvað hann telur hafa þýðingu af því, sem fram kemur á Alþingi, og hvað hann telur ekki hafa þýðingu. Bezta dæmi um það er t. d. fréttaflutningur og ræðuhöld á þingi Sameinuðu þjóðanna, svo að við tökum eitthvað, sem okkur er nógu fjarri. Það er vitað mál, að þegar fulltrúar smáþjóðanna þar halda ræður, er yfirleitt ekki sagt frá þeim eða þær að nokkru hafðar nema í þeirra eigin heimalandi. Í hinum stóru heimsblöðum er yfirleitt aldrei sagt frá nema því, sem fulltrúar stórveldanna segja. Þetta er ekki vegna þess, að þeir út af fyrir sig vandi mál sitt betur eða hafi ef til vill meir af viti fram að færa en fulltrúar hinna minni, heldur af því, að talið er líklegt, að það, sem fulltrúar þeirra valdamestu segi, muni hafa meiri áhrif á gang málanna en það, sem hinir láta um mælt. Ef hér hafa á Alþingi staðið umræður, við skulum segja venjulegan þingtíma, 2–3 tíma, ég tala ekki um, ef, eins og þegar líður á þingið, umræður standa marga klukkutíma, oft langt fram á nótt, þá auðvitað stendur enginn þingmaður upp til þess að tala, nema því aðeins að hann telji sig hafa eitthvað til mála að leggja og það hafi þýðingu, sem hann er að segja. En viljum við þá fela forsetum eða einhverjum starfsmanni forseta eða getur nokkur starfsmaður forseta eða forsetarnir tekið á sig þá ábyrgð að velja úr öllum röksemdum þingmanna, öllum fullyrðingum þeirra, það, sem hafi raunverulega þýðingu? Ég held, að þetta sé mannlegum gáfum ofvaxið og ekki með nokkru móti framkvæmanlegt. Það fer alltaf eftir því, hver úrvalið fremur og hvaða hugsanir ráða hans gerðum, hvernig úrvalið verður. Þess vegna er ekki hægt að ráða bót á þessu með því úrræði, sem hv. þm. hér gerði að umræðuefni. Hættan er sú, svo að við segjum alveg eins og er, að í slíku úrvali verði frekar tekið eitthvað, sem talið er hafa æsingaþýðingu, getur gefið tilefni til stórra fyrirsagna, heldur en hógvær, málefnaleg greinargerð, samanber það, að ég hygg, að ríkisútvarpið hafi ætlað að fara að reyna að gera tilraun með þetta hér snemma á þessu þingi. Það kom strax í ljós, að slíkt er ómögulegt. Fréttamennirnir lenda í því að tala sérstaklega um það, sem getur, eins og ég segi, gefið tilefni til stórrar fyrirsagnar einn dag, en gefur alls ekki rétta mynd af því, sem skeður hér í þingsölunum.

Í þessu er ekkert annað ráð en að gefa almenningi kost á því að fá þingræðurnar eins fljótt í heild til aðgangs og mögulegt er, og er ég því alveg sammála, að ég tel, að það sé gott að gera tilraun með að gefa þingræður út, við skulum segja vikulega eða hálfsmánaðarlega. Þá geta allir, sem áhuga hafa fyrir því, fljótlega lesið orðrétt allt, sem sagt er, og þá hver um sig metið það, hvað hann telur hafa þýðingu og hvað hann telur að sé minna virði.

Hlutlaus fréttaflutningur er ákaflega vandgerður. En það segir ekki, að ekki beri að keppa að hlutleysi í fréttaflutningi. Og það er eitt, sem íslenzk blöð ættu auðveldlega að geta haft betur í huga en þau hafa gert fram að þessu, annars vegar að segja aldrei ranglega frá neinni staðreynd, — látum vera, að það sé þagað um staðreyndir og menn velji þær staðreyndir, sem þeir telja mestu máli skipta, slíkt er eðlilegt og mannlegt, en það er a. m. k. ákaflega tortryggilegt, ef menn iðulega segja ranglega frá staðreyndum, enda er það oftast nær gert á þann veg, að snúið er við þeim staðreyndum, sem andstæðingarnir færa sínu máli fram til stuðnings, en heldur lagað í hendi það, sem meðhaldsmennirnir gera. Fram hjá slíku á að vera hægt að komast, ef menn hafa góðan vilja og æfingu í þessu starfi. Og annað, sem einnig er hægt að gera og þroskuð stjórnmálablöð erlendis reyna að ástunda, —þeim heppnast svo og svo og fá gera það alveg til hlítar, — er að greina í sundur frásagnirnar, fréttirnar, og hafa sérstakar síður fyrir fréttir, þar sem menn geti leitað að fréttunum eins hlutlausum og hver megnar að setja þær fram, og hafa svo hinar sérstöku ritstjórnarsíður eða dálka, þar sem túlkun fréttanna og mat á þeim kemur fram. En það er einmitt þar, sem skeikar í því, sem hv. þm. las hér upp úr því góða blaði Morgunblaðinu áðan, að þarna hefði átt að koma sem sagt annars vegar frásögn af því, sem þm, sagði, hins vegar var svo hægt að hafa málverkið eða röntgenmyndina eða hvað menn vilja segja á annarri síðu og láta það þá koma fram sem mat blaðsins, túlkun á því, sem hv. þm. hafði sagt. Þetta sér maður að reynt er að gera í þeim stóru heimsblöðum.

Ég vildi aðeins standa upp til þess að taka undir meginhugsun hv. þm., að í þessu eigum við allir eftir mikið að bæta okkar hegðun, allir stjórnmálaflokkar, en að úrlausnin er ekki eins einföld og hv. þm. vildi benda á, með því að halda, að hægt væri að setja einhvern hlutlausan mann, eins og kallað er, til þess að gera hlutlausan útdrátt. Ég á eftir að sjá, að slíkt geti heppnazt með nokkru öðru móti en því, að orðrétt komi fram það, sem hver og einn segir.