16.11.1955
Sameinað þing: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (2178)

78. mál, Alþingistíðindi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég heyrði, að hv. flm. lagði til, að þessari till. yrði vísað til hv. allshn. Ég sé, að hæstv. forseti hefur ákveðið tvær umr. um till., sem ekki er óeðlilegt, því að ef hún verður samþ. óbreytt, þá er sýnilegt, að hún hefur mjög mikil útgjöld í för með sér. Ég vildi því mega beina því til hæstv. forseta, að mér þætti eðlilegra, að till. færi í fjvn., og mun gera um það till., að henni verði vísað til hv. fjvn.

Ef fyrsti liður till. verður samþykktur, þá hefur hann áreiðanlega í för með sér útgjöld, kann að hafa í för með sér einhverjar tekjur líka, er verða þá kannske nýr tekjustofn fyrir Alþingi, og þá ætti fjvn. að fjalla um það mál. Verði hins vegar till. öll samþ. eða aðeins annar töluliður till., þá er óhjákvæmilegt, að það hefur einnig töluverð útgjöld í för með sér.

En úr því að ég stóð hér upp, vildi ég gjarnan mega spyrja hv. flm. að því, hvort hann teldi, að tilganginum væri fullkomlega náð, ef till. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir. Væri t. d. byggt fyrir það, að eitthvert blaðanna, annaðhvort hið ágæta Morgunblað eða eitthvert annarra blaða, geti nú skrifað alls konar hugleiðingar um þennan útdrátt, sem kæmi frá Alþingi, og sagt, að hér væri nú ekki allt tekið með, eins og hæstv. dómsmrh. benti á, og að þessi hv. þm. hefði sagt þetta og hann hefði sagt hitt o. s. frv., — væri það fyrirbyggt, þó að till. væri samþykkt? Ég hygg ekki. En mér sýnist, að hér gæti verið önnur leið fær til þess að fyrirbyggja það, að dagblöðin segðu ranglega frá þingfréttum, eins og svo oftlega hefur komið fram og viðurkennt er af öllum. Það er að banna þeim blöðum aðgang að þinginu, sem ekki geta haft svo mikla samvizkusemi að segja rétt frá því, sem gerist á þingi, og þá fellur að sjálfsögðu undir forsetann að ákveða, hvað er rétt sagt frá og hvað ekki. Yrðu fréttaritararnir þá vitanlega að senda forsetunum eða viðkomandi þingmanni útdrátt af því, sem þeir ætla að segja um það, sem hann hefur sagt, og láta hann staðfesta, að rétt sé farið með, og þá væru áreiðanlega margar þingfréttirnar öðruvísi en þær eru í dag. Er þetta leið til þess að koma því í framkvæmd, að blöðin hætti að segja ranglega frá. Ég þekki mörg dæmi, þar sem blöðin hafa ekki í óaðgæzlu, heldur beint vísvitandi falsað frásagnir af ummælum þingmanna, og það er ekki frekar eitt blað en annað, þau hafa flest gert það. Er það af ósamvizkusemi þeirra manna, sem sitja hér og hlusta á ræðurnar og telja sér hag í því að segja frá allt öðru en skeð hefur í þinginu, og þetta verið gert svo alvarlega, að það hefur sannarlega verið rætt um það, hvort ekki ætti raunverulega að stöðva þessa starfsemi, sem hér er rekin.

Þetta þótti mér rétt að láta koma fram, úr því að áhugi hefur vaknað fyrir því, að samvizkusamlega og réttilega verði sagt frá því, sem sagt er hér á þingi.