16.11.1955
Sameinað þing: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (2179)

78. mál, Alþingistíðindi

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir þeirri þáltill., sem hér er til umræðu. Ég held, að það verði tæpast um það deilt, að hér er hreyft við máli, sem full ástæða er til að veita athygli og hugleiða, hvort ekki megi ráða á nokkra bót. Svo geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir um það, hvort þær till., sem hér eru formaðar, leysi þann vanda, sem þeim er ætlað að leysa, eða hvort aðrar tillögur þurfi að koma til. Ég vil lýsa því yfir nú þegar, að ég er fyllilega samþykkur fyrri lið þessarar þáltill. og tel hiklaust, að framkvæmd hans mundi verða til verulegra bóta. Hins vegar get ég að sumu leyti tekið undir þau ummæli hæstv. dómsmrh., að það muni verða nokkrum vandkvæðum bundið að uppfylla þau skilyrði, sem eru forsenda fyrir framkvæmd 2. liðs, að gera hlutlausan útdrátt úr þingræðum, svo að allir gætu sæmilega við unað, og kann að vera, að þarna þurfi að leita að einhverri annarri leið til þess að ná því marki, sem að er stefnt.

Varðandi fyrri liðinn, þann liðinn, sem að því beinist, að forsetum Alþingis verði falið að sjá um, að þingtíðindi komi framvegis út hálfsmánaðarlega um þingtímann, þ. e. a. s. bæði þingskjöl og umræður, vil ég segja þetta: Ég held, að það sé sjálfsagt að reyna þá leið. Það er í fullkomnu samræmi við það, sem til hefur verið ætlazt frá upphafi vega, þegar Alþingi var endurreist fyrir 110 árum, að reynt yrði á hverjum tíma, eftir því sem föng væru til, að láta kjósendurna, þjóðina sjálfa, hafa tækifæri til þess að fylgjast með störfum Alþingis, gagnrýna þau, veita Alþingi það aðhald, sem það á að hafa frá þjóðinni, og jafnframt á þjóðin að sjálfsögðu rétt á því að fá þær upplýsingar um störf þingsins, sem fremst er hægt að veita á hverjum tíma. Ég minnist þess í þessu sambandi, að einmitt þegar Alþingi var endurreist fyrir 110 árum, var það eitthvert fyrsta deilumálið, sem þar kom fyrir, hvort halda ætti Alþingi fyrir luktum dyrum eða hvort umræður ættu að fara fram í heyranda hljóði. Konungsfulltrúinn danski, Bardenfleth stiftamtmaður, taldi ekki koma til mála, að Alþingi væri haldið í heyranda hljóði, en þá reis upp Jón Sigurðsson, sem var þá að vísu yngstur þingmanna, en var að taka forustuna í þjóðfrelsisbaráttunni, og benti á það með glöggum rökum, hversu sjálfsagt væri, að Alþingi yrði haldið í heyranda hljóði og að birt yrðu tíðindi frá Alþingi. Hann færði fram þau rök, sem ég hygg að standi í fullu gildi enn í dag og styðji það, að reynt sé eftir föngum á hverjum tíma að hafa sambandið milli þingsins og þjóðarinnar sem bezt, láta þjóðinni hverju sinni í té sem gleggstar fréttir af störfum Alþingis og fá á þann hátt þá gagnrýni og það aðhald, sem þingið þarf að fá frá þjóðinni, jafnframt því sem slíkt hlýtur að auka og efla áhuga almennings á þjóðmálum, en það er vitanlega, eins og Jón Sigurðsson á sínum tíma lagði höfuðáherzlu á, undirstaða þingræðis og lýðræðis.

Ég hygg því, að jafnvel þó að af því kunni að verða einhver kostnaðarauki, þá sé sjálfsagt að gera tilraun með að láta prenta Alþingistíðindi ekki sjaldnar en hálfsmánaðarlega um þingtímann, og þá mundi fljótlega fást úr því skorið, hvort það yrði ekki til þess, að menn almennt fylgdust betur með störfum Alþingis og fengju nokkru réttari hugmyndir um þau en þeir fá oft og tíðum af fregnum blaða og á skotspónum. Það var svo, þegar tekið var að prenta Alþingistíðindin, strax og Alþingi hafði verið endurreist, að þá voru engin tök á því að prenta þau svo að segja samstundis. Það var hvort tveggja, að hér voru ekki til prentsmiðjur, sem önnuðu því, og auk þess skorti alla tækni varðandi ræðuupptöku, til þess að það væri kleift. Nú er þetta mjög svo vel kleift tæknilega séð, og ég held, að það ætti ekki að þurfa að valda deilum, að það sé sjálfsagt að gera tilraun með þetta.

Varðandi síðari lið þessarar þáltill., hvernig bæta megi þingfréttir og fréttir blaða af Alþingi, hefur það þegar komið fram hér í umr., að nokkur vandkvæði kunni að vera á því að leysa það mál á þann hátt, sem til er lagt hér í till., og það kann að vera, að á því séu vandkvæði. Það er að sjálfsögðu býsna erfitt að gera svo líka stutta útdrætti úr löngum þingræðum, að menn gætu almennt sætt sig við og talið, að aðalatriðin væru dregin fram. Þó er ekki því að leyna, að þetta er gert víða með sæmilegum árangri, m. a. í fréttum af öðrum þingum, þ. á m. þingi Sameinuðu þjóðanna. Það er vitanlega rétt, að árangur af slíku getur verið hæpinn, ef ekki er gætt fyllstu réttsýni, en þó efast ég ekki um það, að slíkur útdráttur yrði í langflestum tilfellum miklu betri en sá fréttaflutningur, sem við eigum að venjast í dagblöðunum og nokkuð hefur verið vikið að hér í þessum umræðum.

Það er alveg hárrétt, sem hér hefur komið fram, að dagblöðin okkar, og þau eiga þar öll meira og minna óskilið mál, hafa blandað allt of mikið saman í frásögnum sínum af Alþingi fréttum af þingstörfum og þingfundum annars vegar og pólitískri túlkun á því, sem gerist, hins vegar. Þetta þekkist hvergi í svona ríkum mæli hjá nálægum menningarþjóðum. Maður sér það, þegar lesin eru virðuleg blöð frá Norðurlöndum, að þar er þessu haldið töluvert aðskildu. Annars vegar eru tiltölulega mjög ólitaðar fréttir, en hins vegar er svo í leiðurum og öðrum greinum túlkun viðkomandi blaða á því, sem gerist á löggjafarsamkomunni. Því hefur stundum verið til svarað, þegar að þessu hefur verið fundið hjá íslenzku blöðunum, m. a. hér á Alþingi, að aðstaða blaðamanna til þess að uppfylla fréttaþjónustuna sé ekki eins góð og skyldi. Þetta er vitanlega rétt, og má raunar segja, að svo sé um margt varðandi störf Alþingis, að hin ytri aðstaða er því miður ekki slík sem skyldi, og stafar það m. a. af hinum miklu þrengslum, sem hér eru. En þetta skýrir þó engan veginn nema að litlu leyti hinn litaða málflutning blaðanna, sem allir eru sammála um að sé okkur og þjóðinni ekki til sóma. Ég held, að þetta sé gamall ósiður, sem liggi hér í landi síðan blöðin voru mjög lítil, og það sé tími til þess kominn að gera tilraun til að kveða þennan ósið niður.

Um þetta efni þarf tvímælalaust að verða aukið samstarf milli Alþingis og fréttamanna blaðanna. Ég hef ekki trú á þeirri till., sem var skotið fram hér áðan af hv. þm. Barð. (GíslJ), að forsetar ættu að taka upp hjá sér að banna þeim þingfréttariturum að koma hér inn í blaðamannaherbergin, sem þeir teldu að hefðu ekki skýrt algerlega rétt frá. Ég býst við, að það yrði erfitt að fara þá leiðina. En ég hefði nokkra trú á því, að forsetar eða fulltrúar frá þingflokkunum, ef það þætti betur henta, ræddu um þetta vandamál við fulltrúa frá blöðunum og frá Blaðamannafélagi Íslands og athuguðu, hvort ekki væri hægt að gera eitthvað til að lyfta þingfréttaþjónustu blaðanna á dálítið hærra stig en hún er nú.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, en ég vil vænta þess, að sá geti orðið árangur af þessari þáltill. frá hv. 1. landsk.

(GÞG), að í fyrsta lagi verði tekið upp að gefa út Alþingistíðindi ekki sjaldnar en hálfsmánaðarlega um þingtímann, og í öðru lagi, að leitazt verði við með einum eða öðrum ráðum að ráða bót á þingfréttaritun blaðanna.