07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2198)

106. mál, símakerfi Ísafjarðar

Frsm. (Pétur Ottesen):

Fjvn. hefur athugað þessa till. og komizt að þeirri niðurstöðu að leggja til, að hún verði samþykkt með dálítilli breytingu. N. sendi póst- og símamálastjóra þessa till. til umsagnar og fékk frá honum nokkru síðar álit um málið. Í þessu áliti póst- og símamálastjóra um efni þessarar till. segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Póst- og símamálastjórninni hefur ávallt verið ljóst, að sjálfvirkar stöðvar muni í framtíðinni verða reistar víða um land og að þær verði alveg sérstaklega hentugar þar, sem næturþjónusta er mikil, eins og á ýmsum útgerðarstöðvum.“

Enn fremur segir í þessu áliti, að gert hafi verið ráð fyrir þessu, þegar ný símahús hafi verið reist, og málið smám saman undirbúið með jarðsímalögnum. Hins vegar krefjast örar framkvæmdir á þessu sviði mikils stofnfjár og gjaldeyris, og hefur t. d. verið lauslega áætlað, að sjálfvirkar stöðvar á Ísafirði, í Bolungavík og Hnífsdal kosti ekki undir 7 millj. kr. með tilheyrandi lögnum, en það er einmitt athugun á þessu, sem m. a. er farið fram á að gerð verði samkvæmt þessari þáltill., og er það annað aðalatriði till. Um hitt atriðið, þ. e. að láta fara fram athugun á bættu símasambandi milli byggða á Vestfjörðum og svo í heild við aðra landshluta, segir póst- og símamálastjóri m. a.:

„Fjölgun talrása milli Vestfjarða og Reykjavíkur hefur í nokkur ár verið til athugunar og ýmsar endurbætur verið gerðar á síðustu árum, svo sem með einföldum fjölsíma á símalínum milli Hrútafjarðar og Patreksfjarðar og milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar og með því að setja þriggja rása fjölsíma milli Ísafjarðar og Hrútafjarðar í stað einfalds fjölsíma. Frekari aðgerðir með fjölgun fjölsímarása á símalínum á þessum leiðum eru kostnaðarsamar, vegna þess að þær krefjast millimagnara og sums staðar nýrra gerða sæsíma, en hafa þann galla, að þær eru mjög háðar bilunum á símalínum. Hefur því verið athuguð sú leið, sem sennilega er leið framtíðarinnar, að koma á margra rása radíosamböndum með ultra-stuttbylgjum eða micro-bylgjum, og verður við endanlegar áætlanir um það stuðzt við væntanlegt tilboð um slík sambönd á leiðinni til Austfjarða.“

Að lokum segir svo póst- og símamálastjóri, að of snemmt sé að ræða bráðabirgðaumbætur á þessu ári, sem komið hafi til tals, vegna þess að ekki er hægt að tryggja árangur þeirra, fyrr en ýtarlegar mælingar hafa verið gerðar þar að lútandi, en þær eru fyrirhugaðar í vor, strax og veður leyfir. Og það er einmitt með tilliti til þessara upplýsinga, sem fjvn. hefur lagt til, að siðari hluta þessarar þáltill. verði breytt.

Fjvn. hefur með þessu áliti sínu tekið undir þær óskir um athugun þessa máls, sem flm. hafa farið fram á, en þegar því verki er lokið, gerir símamálastjóri að sjálfsögðu till. um úrbætur í samræmi við þær niðurstöður, sem þessi athugun leiðir til.

Fjvn. leggur því til, að þessi till. verði samþykkt eins og gert er ráð fyrir á þskj. 424.