07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (2212)

142. mál, varnargarður í Vestmannaeyjum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu þessa máls og skil, að henni hefur þótt hæfa að breyta því þann veg sem segir á þskj. 442, í brtt., sem þar um ræðir, þar sem hv. n. hefur ekki talið sig geta á þessu stigi málsins hvatt til aðgerða, sem ef til vill mundu kosta talsvert fé í þessu efni, en það kemur þá fyrir seinna.

Hitt skal ég játa að er alveg rétt á litið hjá hv. n., og raunar hafði ég farið fram á það upphaflega í minni till. til þál., að nauðsynlegt er, að verkfræðileg athugun á því, hvað gera skuli við þessari landeyðingu, sem þarna virðist vera að færast í aukana, sé undanfari alls þess, sem gert verður. Þar af leiðir náttúrlega, að kostnaðaráætlun og teikningar verði af því gerðar. Að því leyti til sé ég, að hv. n. vill sinna málinu og þoka því áfram á réttan hátt, eftir því sem hún sér sér á þessu stigi málsins fært, og fyrir það er ég þakklátur. Það kemur svo sennilega síðar til kasta hv. Alþingis að taka afstöðu til þess, hverju megi þarna til kosta til þess að varðveita þessa landareign ríkissjóðs og þar með atvinnulífið í plássinu.

Ég vonast til, að hæstv. ríkisstj. láti sem fyrst fara fram þá athugun, sem hér um ræðir, og veit, að hv. fjvn. ætlast til hins sama í því efni.