26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2226)

21. mál, heyverkunaraðferðir

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Á síðari árum hafa orðið nokkrar breytingar á heyverkun hér á landi. Það hefur verið gert mun meira að því að verka vothey en áður tíðkaðist, og það hefur vaxið smátt og smátt með hverju ári, sem hefur liðið, þó að reyndar gjarnan hefði mátt vera enn hraðari vöxtur með þá heyverkunaraðferð. Er talið, að það sé örugg heyverkunaraðferð, og reynsla flestra þeirra, sem hafa notað hana, hefur gefizt vel, þótt að vísu hafi aðeins borið út af því. En sem betur fer hefur það verið á fáum stöðum og kveðið lítið að því.

Þá hefur einnig verið tekin upp ný aðferð. Það er hin svonefnda súgþurrkun. Henni er skammt á veg komið hér á landi, en gera má ráð fyrir, að eftir því sem raforkan dreifist út um byggðir landsins, verði gert meira að því að verka heyið á þann hátt. Það er ekkert vafamál, að slík hirðing á heyi gerir auðveldara að hirða það. Það þarf ekki eins að vanda þurrk þess og greiðir mjög mikið fyrir hirðingu á heyi, þegar þerrilítið er. Hins vegar er tæpast hægt að segja, að þessar heyverkunaraðferðir hinar nýju geti algerlega bætt úr, ef votviðrasamt er og sumarveðrátta mjög erfið, að þá sé hægt að ganga að heyskapnum eins og vera þyrfti.

S. l. sumar hefur á allmiklum hluta landsins brugðið skýru ljósi yfir þá erfiðleika, sem eru á heyhirðingu, ef illa viðrar. Það er meira að segja ekki alveg öruggt, hvort votheysgerðin getur að öllu leyti bjargað heyfeng manna í slíku tíðarfari. En enn síður gerir súgþurrkunin það, á þann hátt sem hún er framkvæmd hér hjá okkur eða hefur verið til þessa.

Þessi vandkvæði á heyhirðingu hjá bændum eru ákaflega erfið og geta verið örlagarík, eins og s. l. sumar bar greinilega með sér. Nú hefur verið talað um nýja aðferð til þess að hirða hey, sem aðeins hefur verið byrjað á hér á landi, ég ætla á einum eða tveimur stöðum, og þó víst ekki fyrr en mjög síðla sumars. Það er með nýrri gerð tækja, sem útbúin eru til þess að þurrka heyið með heitum blástri.

Af því, sem sagt hefur verið frá í íslenzkum blöðum, virðist, að það muni vera möguleikar á þessu. En útlit er fyrir, eftir því sem upplýst var með eitt eða tvö tæki, sem hér voru gerð að umtalsefni, að það verði svo mikill kostnaður, að erfitt muni að reisa rönd við slíku fyrir bændur. Hvað mikið kann að vera gert að þessu erlendis, þekki ég ekki, og ég hef ekki getað séð neina greinilega skýrslu eða grg. koma fram um það hér hjá okkur, hvernig því er varið. En þetta mál er svo mikils virði, að okkur flm. þessarar till. sýnist, að það sé sjálfsagt að kynna sér ýtarlega, hvernig ástatt er um þetta mál erlendis, þar sem það hefur verið reynt. Hér heima er það svo lítið, að það er fljótgert að athuga það. En hver reynsla er fengin á notkun þeirra erlendis, það er það, sem nauðsyn ber til að upplýsa og það sem allra skjótast, til þess að það liggi fyrir fram nokkurn veginn ljóst fyrir hjá hverjum þeim búandmanni, sem kæmi til hugar að reyna nú nýjar leiðir við þessa heyverkun, að hverju er gengið í þessum efnum. Það á ekki um slík mál sem þetta að vera í verkahring hvers einstaklings að prófa sig áfram og gera tilraunir með slík viðfangsefni. Það getur ekki öðruvísi farið en það kosti feiknmikið fé að gera slíkar tilraunir, kaupa verkfærin og gera síðan tilraunir með þau. Og það má ekki ske, að einstaklingar leggi út í slíkt. Til þess hafa þeir ekki fjárhagslega getu eða fjárhagsleg ráð, ekki sízt ef það kynni að enda með litlum eða lélegum árangri. Þess vegna verður það opinbera að annast einmitt um slík verk, svo að einstaklingarnir geti, ef þeir leggja út í að afla sér þessara verkfæra og reka þau, vitað fyrir fram nokkurn veginn, hvers árangurs má vænta af slíkri heyverkunaraðferð.

Þetta er það þýðingarmikið mál, — það veit ég að allir hv. alþm. gera sér fullkomlega grein fyrir, svo að ég þarf ekki að vera að fjölyrða um það, — að það er alveg sjálfsagður hlutur að gera það, sem hægt er, til að afla upplýsinga um þetta atriði.

Það tímatakmark, sem við setjum í okkar till. um, hvenær þessari rannsókn verði lokið, má vel vera að sé of nærri okkur, að upplýsingarnar skuli liggja fyrir fyrir lok janúar n. k. En það má tiltaka rýmri tíma, svo að öruggt sé, að hægt sé að afla sér þeirrar vitneskju, sem ætlazt er til samkv. þessari till. En umfram allt mætti það þó ekki dragast lengur en það, að þetta liggi ljóst fyrir fyrir næsta vor, svo að menn fari ekki að hlaupa í að panta þessi verkfæri og kaupa þau, nema þeir viti, hvers árangurs má vænta af starfrækslu þeirra til þessara hluta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið. Ég get að nokkru skírskotað til þeirrar grg., er till. fylgir. Ég vona, að hv. Alþ. vilji sýna þessu máli fullan stuðning, og geri það að till. minni, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjvn.