26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2227)

21. mál, heyverkunaraðferðir

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að sá frestur, sem ákveðinn er í till., sem hér um ræðir, sé nægilega langur, vegna þess að fyrir liggja ýmsar upplýsingar, sem hægt væri að draga saman á ekki lengri tíma en þetta. Ég geri ekki ráð fyrir því, að tillögumenn ætlist til, að á þessum tíma verði gerðar tilraunir í þessum efnum, enda ekki hægt á þessari árstíð. En við getum notfært okkur þá reynslu, sem aðrar þjóðir hafa fengið. Og það, sem fyrir liggur, er að draga það, sem þegar hefur verið reynt í þessum efnum á Norðurlöndum og víðar, saman í eina heild, til þess að það liggi hér fyrir.

Við vitum, að votheysverkunin hefur verið það raunhæfasta til bjargar íslenzkum bændum fram að þessu, þegar um óþurrka hefur verið að ræða. Flestum bændum hefur tekizt vel að verka vothey. En þó hefur það hér á landi fram að þessu verið gert á frumstæðan hátt.

Fyrir mörgum árum fann finnskur prófessor upp aðferð til þess að verka vothey. Það var með því að blanda sýru í heyið, bæði saltsýru og brennisteinssýru. Með þessari íblöndun gerði hann votheyið miklu betra til fóðurs en það hafði áður verið. Mér er ekki kunnugt um, hvort þessi íblöndunaraðferð hefur verið reynd hér, en ég veit, að hún er nokkuð dýr. Sýran hefur verið dýr, og á Norðurlöndum hefur vothey fram að þessu verið verkað án íblöndunar. Ef það reynist of dýrt á Norðurlöndum, þar sem sýran er framleidd, þá má búast við, að það yrði ekki síður hér, því að ekki er um annað að ræða fyrst um sinn en að flytja sýruna inn. Það verður að flytja hana í glerhylkjum, sem eru brothætt, og sá flutningur yrði vitanlega dýr. Er því hætt við, að bændur gætu ekki notfært sér íblöndunaraðferðina, þótt hún bæti heyið í verkun.

Þjóðverjar hafa einnig tekið upp sérstaka votheysverkun. Það er með íblöndun, með svokallaðri maurasýru. Það er sagt, að sú sýra sé nokkru ódýrari í framleiðslu en hin sýran, og það mun vera nokkuð algengt í Þýzkalandi og Mið-Evrópu að nota íblöndunaraðferðina.

Ég man eftir því, að í fyrra, seinni hluta sumars, þegar ég var á ferð á Norðurlöndum, heyrði ég talað um, að bændur hefðu orðið fyrir miklum búsifjum vegna óþurrkanna, ekki aðeins á korni, heldur einnig á heyi. Bendir það til þess, að þeir hafi ekki enn á Norðurlöndum víggirt sig fyrir rosanum frekar en íslenzkir bændur, þó að þeir þekki aðferðir og leiðir til þess. Það er kostnaðurinn, sem fylgir því, sem hefur orðið til þess, að íslenzkir bændur og aðrir bændur hafa heldur viljað taka áhættuna af rosasumrum við og við en að leggja í þann kostnað, sem því fylgir að tryggja sig til þess að geta verkað heyið, hvernig sem árar. En mér finnst nú, ef þessi till. verður samþ., að þá væri það verkefni þeirra, sem fá framkvæmdina, að gera athugun á því, hvort hugsanlegt er að framleiða þessar sýrur hér á landi, hvort sem það er maurasýra, saltsýra eða brennisteinssýra, sem allar eru góðar til verkunarinnar. Væri t. d. hugsanlegt, að áburðarverksmiðjan gæti framleitt slíka sýru á því verði, að bændur gætu kostnaðarins vegna notað hana? Þetta er atriði, sem vitanlega þarf að athuga og ég hygg að væri hægt að athuga á ekki löngum tíma.

Ég býst við, að jafnvel þótt tækist að framleiða sýruna hér, þá verði það svo, að fjöldi bænda haldi áfram að verka vothey með gömlu aðferðinni. Ég hef átt tal við marga bændur, sem hafa verkað vothey með gömlu aðferðinni, annaðhvort í turnum eða í djúpum gryfjum, sívölum, og þeir telja, að það sé engin áhætta að gefa að helmingi, sumir segja jafnvel að 3/4, kúm og öðrum fénaði vothey, sem er verkað með gömlu aðferðinni. Votheysverkunin verður þess vegna lengst af og áfram meginverkunin á heyi á rosasvæði, en sjálfsagt væri betra, ef hægt væri kostnaðarins vegna að nota íblöndunina til þess að gera fóðrið kjarnbetra á allan hátt.

Við þekkjum líka súgþurrkunina, og við vitum, að þeir, sem hafa ráð á því að hafa súgþurrkun með heitu lofti, standa miklu betur að vígi en aðrir í óþurrkum og geta bjargað sér næstum því hvernig sem tíðin er, hafi þeir heitt loft.

Framsögumaður minntist hér á tvo blásara, sem eru komnir til landsins og eru mun betri en þeir, sem við áður höfum þekkt. En það strandar alltaf á sama skerinu, að þeir munu vera það dýrir, að þeir geta ekki orðið almenningseign bænda eins og sakir standa.

Það vantar ekki, að við þekkjum aðferðirnar til að verka heyið, þótt rosasumur séu, en okkur vantar möguleikana á því að gera þessar aðferðir það ódýrar, að bændur geti almennt tileinkað sér þær, og ég hygg, að þeir, sem fengju það verkefni til rannsóknar og athugunar, þurfi ekki til þess sérstaklega langan tíma. Þeir þurfa að viða að sér þeim gögnum, sem fyrir liggja, og setjast síðan niður og reikna úr þeim tölum, sem þeir hafa fengið. Ég geri ráð fyrir því, að efnafræðingar þurfi ekki langan tíma til þess að svara þeirri spurningu, hvort við getum framleitt í áburðarverksmiðjunni sýru, sem notuð yrði til heyverkunar. Ég veit líka, að ef það svar verður neikvætt, þá höfum við ekki möguleika á slíkri sýruframleiðslu að svo komnu, því að þá þarf aðra verksmiðju, efnaverksmiðju, sem framleiðir ekki aðeins sýru til heyverkunar, heldur miklu frekar eitthvað annað, en sú verksmiðja verður ekki byggð á stuttum tíma og þarf vitanlega mikinn undirbúning.

Ég held, að það sé gott, að þessi till. er fram komin. Hún verður til þess, að þessi mál verða dregin saman og athuguð. Það tjón, sem óþurrkarnir valda hvað eftir annað íslenzkum bændum, er svo alvarlegt, að það er vissulega þess virði að gera sér grein fyrir því, hvort við á nokkurn hátt getum bætt úr þessu og komið í veg fyrir það tjón, sem hefur komið yfir íslenzku bændastéttina hvað eftir annað. Það tjón snertir alla þjóðina.