26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2229)

21. mál, heyverkunaraðferðir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af þeim setningum í grg. á þskj. 21 og því, sem hv. 1. flm. tók hér fram nú, að óhjákvæmilegt mundi vera, að farið verði utan til þess að kynna sér þurrkunartæki og þurrkunaraðferðir, þar sem slík þurrkun hefur verið reynd í framkvæmd, t. d. í Bretlandi og Kanada, þykir mér rétt að upplýsa hér, að allmörg undanfarin ár hef ég persónulega lagt allmikla vinnu í að kynna mér þetta mál í Bretlandi, einmitt hjá því fyrirtæki, sem lengst er komið í því að búa til og vinna með slíkum vélum sem hér um ræðir. Þessi gögn öll voru á sínum tíma lögð fyrir sandgræðslustjórann sáluga, sem hafði mjög mikinn áhuga á þessu máli. Kom þar alveg fram, hvað mikill kostnaður væri fólginn í kaupum vélanna, einnig afköst véla, rekstrarkostnaður o. s. frv., sem honum var allt látið í té, og mun hann á þeim tíma hafa rætt þetta við Búnaðarfélag Íslands, en entist því miður ekki aldur til þess að fylgja þessu máli fram sem skyldi. Taldi hann, að hér væri einmitt um mjög mikla lausn á þessu máli að ræða fyrir bændur almennt. En ég sneri mér einkum til hans vegna þess, að ég taldi, að þar væri bezt aðstaða til þess að reyna þessar vélar, þar sem þær einnig gátu m. a. þurrkað korn og vitað var, að sandgræðslustöðin hafði alltaf allmikla erfiðleika með að þurrka kornið, ef beðið var eftir því, að það næði fullum þroska, auk þess sem í þessum vélum var einnig hægt að framleiða heymjöl til útflutnings og notkunar innanlands. Fylgdu og þessum upplýsingum mjög nákvæmar skýrslur um verðlag á heymjöli á heimsmarkaðnum. Taldi m. a. þáverandi sandgræðslustjóri, að með þessu móti mundi mega spara allan innflutning á hænsnafóðri til landsins, ef hægt væri að koma upp slíkri heymjölsverksmiðju á sandgræðslustöðinni, en hann hafði ekki fengið fylgi Búnaðarfélagsins né þeirra aðila, sem hér áttu hlut að máli, til þess að gera þessar tilraunir eða reyna þessar vélar, sem hér um ræðir. Þetta mun einnig á sínum tíma hafa verið rætt allverulega við landnámsstjóra, sem hefur ekki heldur fengið samúð með málinu, en verið því mjög fylgjandi. Og að síðustu liggja nú allar þessar till, eða upplýsingar fyrir skólastjóranum á Hvanneyri, sem hefur einmitt vegna óþurrkanna í sumar fengið mjög mikinn áhuga á þessu máli.

Ég vil aðeins taka þetta fram til þess að benda á, að það væri að fara yfir lækinn að sækja sér vatn að ganga fram hjá þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir, og er ég að sjálfsögðu fús til þess að gefa þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, allar þessar upplýsingar, svo að hún geti rannsakað þetta mál, að svo miklu leyti sem hægt er að rannsaka það hér á landi. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram við þessa umr.

Hitt er og kunnugt, að Klemenz Kristjánsson á Sámsstöðum hefur haft allvíðtæka reynslu af þessum málum hvað snertir Bandaríkin og mun sjálfsagt geta gefið ýmislegar upplýsingar um þá hlið málsins.