14.03.1956
Sameinað þing: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2239)

177. mál, samgöngur innanlands

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég get um þessa þáltill. fjvn. um skipulag á samgöngum innanlands látið að mestu nægja að vísa til þeirrar grg., sem till, fylgir. Þar er þess getið, að n. leit svo á, að athugun á samgöngum innanlands bæri að taka upp á nokkru breiðari grundvelli en markaður er í þeim till., sem n. höfðu borizt um þetta efni, en þær beindust að því að taka aðeins til athugunar samgöngur á sjó á vegum ríkisins. Eins og nú er komið samgöngum í landi voru, þá grípa hinar síauknu ferðir á landi og í lofti mjög inn á svið samgangna á sjó með ströndum fram.

Þeir aðilar allir, sem samgöngur vorar annast, kosta að sjálfsögðu mjög kapps um það, hver á sínu sviði, að þeir geti veitt með þeim sem bezta og hagkvæmasta þjónustu. Þetta er mjög mikilsvert atriði, því að góðar og greiðar samgöngur eru hverri þjóð undirstöðuatriði góðrar afkomu og velmegunar í hvívetna. Hitt er þó ekki síður nauðsynlegt, að þessi þjónusta sé sem bezt skipulögð heildarlega með það fyrir augum, að þar fari saman sú fyrirgreiðsla, sem hér hefur verið lýst, og hagkvæmur rekstur fyrirtækjanna, sem annast samgöngurnar.

Samgöngur á landi og í lofti hafa þróazt mjög ört hin síðari ár, og þessi öra þróun þeirra hefur leitt til þess, að nauðsynlegt hefur þótt, að það opinbera gerði nokkrar ráðstafanir í því sambandi. Má þar benda á, að samgöngur til fólksflutninga á landi með bifreiðum eru skipulagðar samkvæmt lögum frá 1947, og samkvæmt því, sem þar er ákveðið, er það nefnd, sem hefur það verkefni með höndum að skipuleggja þessar ferðir, en þessi skipulagning á bifreiðum til fólksflutninga hefur það markmið fyrst og fremst að haga bifreiðaferðunum þannig, að sem bezt og hagkvæmust not verði af þeim innan þess verkahrings, sem þeim er markaður.

Þetta er höfuðtilgangurinn með þeirri skipulagningu. Sama er að segja um flugferðirnar. Samkvæmt lögum frá 1950 hefur ráðherra heimild til að setja reglur um flugferðir og ef nauðsyn krefur að veita einu eða fleiri félögum sérleyfi til fastra áætlunarferða á ákveðnum leiðum. Þannig var það, að á meðan Flugfélag Íslands og Loftleiðir stunduðu bæði flugferðir innanlands, var ferðunum síðustu árin skipt á milli þessara félaga. En hér ber að sama brunni og um fólksflutninga með bifreiðum á sérleyfisleiðum, að þessi skipulagning var miðuð við heildarnot af flugferðunum út af fyrir sig miklu meira en hitt, að þær væru samstilltar við ferðir á landi og á sjó.

Um þriðja þáttinn í samgöngukerfinu, strandferðirnar og flóabátaferðirnar, er það að vísu svo, að það eru ekki til nein sérstök lagafyrirmæli um þennan rekstur. En Skipaútgerð ríkisins er háð ákvörðun Alþingis og þess ráðherra, sem fer með þau mál. Um flóabátaferðirnar, sem njóta nokkurs styrks úr ríkissjóði, er því þannig varið, að styrkurinn er því skilyrði bundinn m. a., að ferðaáætlun bátanna sé samþykkt af póst- og símamálastjórninni og af Skipaútgerð ríkisins. Að því er snertir strandsiglingarnar er ljóst, að hinir hraðvaxandi flutningar á landi og í lofti hafa að sjálfsögðu víðtæk áhrif á rekstur þeirra.

Þetta allt þarf þess vegna að hafa í huga við athugun þessa máls og það því fremur sem skipulag allra þessara þriggja þátta í samgöngukerfi voru, eins og ég sagði áður, er meira miðað við það, að hver þeirra fyrir sig nýtist sem bezt, en hitt, að tilhögun á heildarrekstrinum sé máske svo haganlega fyrir komið sem bezt mætti vera og efni gætu staðið til. Það er því einmitt með sérstöku tilliti til þessa alls, sem fjvn. lítur svo á, að tímabært sé að gera nú heildarathugun á samgöngukerfi landsins í vændum þess, að á þann hátt takist að koma þeirri skipun á samgöngurnar, að þær geti orðið, eins og í tillgr. segir, sem hagkvæmastar fyrir byggðir landsins, en kostnaði þó í hóf stillt, svo sem auðið er. Fjvn. leit svo á, að líklegasta leiðin í því efni væri að fela fimm manna mþn. þetta starf, og er það einnig í samræmi við það, sem lagt er til í þáltill. á þskj. 78.

Vil ég svo ljúka mínu máli með því að bera fram fyrir hönd fjvn. ósk um, að Alþ. geti verið nefndinni sammála um að hafa þessa tilhögun á afgreiðslu málsins.