08.03.1956
Neðri deild: 83. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2249)

139. mál, blaðamannaskóli

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þessi till. um stofnun blaðamannaskóla er flutt af sex alþm. úr öllum þingflokkum. Till. er á þá leið, að Nd. Alþingis álykti að skora á ríkisstj. að undirbúa stofnun blaðamannaskóla. Skal einkum athuguð sú leið að stofna til slíkrar kennslu við heimspekideild Háskóla Íslands. Við undirbúning málsins skal haft samráð við háskólaráð og Blaðamannafélag Íslands.

Það þarf engum blöðum um það að fletta, að blöðin eða „pressan“ sé orðið mikið áhrifavald meðal þjóðanna, og flestir munu telja, að næst skólunum eigi blöðin mestan hlut að því að uppfræða fólkið og móta skoðanir manna um andleg og veraldleg efni. Blöðin eru einnig hyrningarsteinn lýðræðisins. Einn af fremstu forvígismönnum lýðræðishugmynda nútímans og mannréttinda, Thomas Jefferson, sem var forseti Bandaríkjanna um skeið og höfundur sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna, komst að orði eitt sinn á þessa leið:

„Þar sem þjóðarviljinn er grundvöllur stjórnar vorrar, þarf fyrst og fremst að leiðbeina honum, og væri mér falið að úrskurða, hvort vér ættum að hafa stjórn án blaða eða blöð án stjórnar, þá mundi ég hiklaust velja hið síðarnefnda.“

Blöðin eru hyrningarsteinn lýðræðisins, eins og ég gat um, og er lögð á það allmikil áherzla í þessum ummælum hins kunna Bandaríkjaforseta. En ábyrgð blaðanna og þeirra, sem við þau vinna, er að sjálfsögðu mikil, og það er sameiginleg nauðsyn þjóðfélagsins, blaðanna sjálfra og blaðamanna, að vel sé vandað til undirbúnings og menntunar fyrir þá, sem takast á hendur slíkt menningarhlutverk sem það á að vera að gerast blaðamaður. Til þess að kenna börnum að stafa þarf nokkurra ára nám og próf frá kennaraskóla, og til þess að kenna unglingum eða þeim, sem lengra eru komnir á námsbrautinni, þarf enn lengra nám og enn strangari próf, en til þess að kenna þjóðinni allri og móta skoðanir hennar meira og minna í hinum þýðingarmestu málum þarf engin próf, ekki neina skólagöngu, ekkert námskeið. Í rauninni er það þannig samkv. lögum hér, að blaðamenn þurfa ekki að hafa neina skólagöngu, próf eða menntun, annað en það, að þeir þurfa helzt að vera læsir og skrifandi. Ég vil biðja menn um að skoða þetta ekki sem neina árás á blaðamannastéttina, því að nákvæmlega sama gildir einnig um alþm. og ráðherra. En þó að sumir vilji gera lítið úr skólagöngu, námi og prófum og segi: Slíkt tryggir ekki, að menn standi sig frábærlega vel í sínu starfi, — þá má auðvitað sama segja bæði um lækna, lögfræðinga og aðra, sem krafizt er langs náms af og prófa, að það er engin trygging fyrir því, að þeir verði frábærir í starfi sínu, þó að þeir hafi lokið tilskildum prófum. En menntunin gefur grundvöllinn, og það mun gefast vel, ef persónulegir hæfileikar og skapgerð er fyrir hendi að öðru leyti.

Ég ætla, að engum dytti í hug nú að falla frá því, að barnakennarar, unglingakennarar og aðrir uppfræðarar þurfi að stunda nám og ljúka prófum. En eins og ég býst við að allir séu sammála um þessa meginhugsun, þá vænti ég einnig, að menn séu sammála um og ekki sízt blaðamennirnir sjálfir, að æskilegt sé að bæta skilyrðin til að undirbúa starfið, skapa þeim skilyrði til að afla sér menntunar og reynslu.

Í öðrum löndum ýmsum hefur um langt skeið verið litið þannig á. Ég ætla, að meðal elztu blaðamannaskóla, sem nú eru til, sé hlaðamannaskólinn við stærsta háskóla Bandaríkjanna, Columbia-háskólann, en við þann háskóla stunda nám milli 25 og 30 þús. stúdenta á ári hverju. Ein deild þessa háskóla er blaðamannaskólinn, sem var stofnaður af hinum fræga ritstjóra og blaðamanni Joseph Pulitzer árið 1912. Og á þessum rúmum fjórum áratugum, sem hann hefur starfað, hefur hann útskrifað hátt á þriðja þúsund blaðamenn. Þarna er ekki um einhver lausleg námskeið að ræða, eins og sums staðar annars staðar, heldur eru gerðar mjög strangar kröfur til inntöku í þennan skóla um almenna menntun, og í þessari kennslu er aðalatriðið ekki sérhæfingin til þess að verða blaðamaður á einhverjum sérstökum afmörkuðum sviðum, heldur megináherzlan lögð á alhliða menntun, alhliða þekkingu á öllum sviðum mannlegrar þekkingar, auk þess sem svo er að sjálfsögðu kennt og æft í hinum faglegu greinum blaðamennskunnar, og próf frá þessum blaðamannaskóla eru erfið, þung próf. Þeir taka þar próf og fá þar lærdómstitilinn Master of science, sem þykir mikils virði í öðrum greinum, og þessi próf og skírteini eru mjög mikils virt af blöðum þar í landi og víðar og talin trygging fyrir því, að slíkur maður hafi þekkingu, hæfileika og tækni til blaðamennsku í bezta lagi. Ég nefni þennan blaðamannaskóla vegna þess, að hann mun einna frægastur og elztur, en tugir annarra slíkra skóla eða blaðamannadeilda eru við háskóla í Bandaríkjunum.

Á Norðurlöndum hefur á síðustu árum verið tekin upp kennsla í þessum greinum. Ég vil nefna, að í Finnlandi t. d. hefur Socialhögskolen, eins og hann heitir, haft námskeið í blaðamennsku um alllangt skeið, og eru þar tveir fastir starfsmenn, prófessor og lektor, sem veita þessu forstöðu, auk margra annarra starfsmanna. Mikið hefur verið um það rætt að taka upp slíka kennslu einnig við háskólann í Helsingfors. Í Svíþjóð hefur verið haldið uppi námskeiðum við háskólann í Gautaborg, en á Norðurlöndum ber hæst í þessum greinum Danmörku, en þar hefur háskólinn í Árósum nú um einn áratug haldið uppi föstum námskeiðum í blaðamennsku. Þessum námskeiðum hefur þannig verið hagað, að þau standa þrjá mánuði í senn, og koma þangað starfandi blaðamenn, sem fá þá leyfi um þriggja mánaða skeið frá blöðum sínum, og þarna fara fram margs konar æfingar, kennsla og upplýsingar, og er þar sérstakur prófessor, sem veitir þessu forstöðu. Nú var ákveðið fyrir tveimur árum að bæta við þessi námskeið, taka upp framhaldsnámskeið, þriggja mánaða einnig. Þangað geta fengið inngöngu þeir, sem lokið hafa hinu fyrra námskeiði, og enn fremur blaðamenn, sem unnið hafa í sinni grein í 10 ár. Hins vegar er það svo með Árósaháskóla, að þar eru enn þá engin próf eða námsskírteini veitt, annað en það, að vottað er að sjálfsögðu, að maðurinn hafi stundað nám á þessu námskeiði.

Undanfarið hafa farið fram miklar athuganir og umr. á Norðurlöndum um stofnun og aukningu slíkra skóla og námskeiða, og virðast flestir telja Árósaháskólann fyrirmynd að þessu leyti.

Á fundi Norðurlandaráðs fyrir rúmu ári var flutt till. um að stofna til norrænna námskeiða sameiginlega fyrir blaðamenn. Sú till. var þar athuguð og rædd, en frestað til þess þings, sem nú er nýafstaðið. Það má enn fremur geta þess, að Sameinuðu þjóðirnar hafa látið þetta mál, menntun blaðamanna, til sín taka, og nú í sumar verður haldin ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna í París um menntun blaðamanna.

Það, sem fyrir okkur flm. vakir með þessari till., er að koma hreyfingu á þetta mál hér á landi og að rannsakað verði, hvernig þessu verði bezt fyrir komið og hrundið af stað.

Við teljum, að það sé mjög eðlileg leið eða a. m. k. sú, sem fyrst komi til athugunar, að taka upp slíka kennslu við heimspekideild Háskóla Íslands, hvort sem hér yrði stofnuð sérstök deild eða haldið námskeið vissan tíma. Ég geri ráð fyrir því, að rétt sé að fara stillt af stað og prófa sig áfram í þessum greinum, en heimspekideildin verður að sjálfsögðu fyrst fyrir, þegar menn hugsa þetta mál, því að þar eru fyrir hendi ýmsir kennslukraftar fyrsta flokks, þeir beztu, sem völ er á hér á landi í ýmsum þeim greinum, sem þarna þarf að kenna.

En menn spyrja þá: Hvað er það, sem á að kenna þessum blaðamönnum? Ef við athugum, hvernig þessu er háttað annars staðar, þá verður þar jafnan fyrst fyrir tunga þjóðarinnar, málfræði, bókmenntir, og þannig mundi það að sjálfsögðu verða hér, að ein fyrsta námsgreinin er að sjálfsögðu íslenzk tunga, málfræði, bókmenntir, bókmenntasaga, og í þessari grein hafa blöðin alveg sérstöku og veglegu hlutverki að gegna. Blöðin geta verið styrkasta stoð íslenzkrar tungu, en þau geta einnig molað niður málsmekk og ruglað og brjálað skýra hugsun og dómgreind, ef þekkingu skortir eða skilning á málinu eða á skyldum og ábyrgð blaðanna.

Sem betur fer eigum vér í hópi íslenzkra blaðamanna marga menn, sem hafa þekkingu á tungunni og bera ást til hennar, en að sjálfsögðu er það þekkingar- og menntunaratriði, sem sjálfsagt er að leggja rækt við, að eitt aðalatriðið í kennslu blaðamannanna verði einmitt íslenzk tunga.

Á slíkum námskeiðum þarf að sjálfsögðu einnig að kenna rétta og eðlilega frásagnarhætti. Frásagnarlistin má segja að sé menningararfur Íslendinga og er fólgin í því að vera gagnorður, fagurorður, sannorður. Orð Ara fróða Þorgilssonar eru sígild, að hvað sem missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur, er sannara reynist.

Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna eitt, sem mjög brestur á hjá blaðamönnum, ekki sérstaklega hér á landi, heldur víðs vegar. Það er nauðsynin á því að skilja sundur frásögn af atburðum og dóma eða gagnrýni. Eitt af þeim blöðum, sem nú þykir bera — ég vil segja höfuð og herðar yfir önnur, er bandaríska blaðið New York Times, sem hefur orð á sér fyrir sérstakan heiðarleika og hlutleysi í málflutningi. Þeir, sem lesa það blað að staðaldri, munu sérstaklega reka augun í það, hversu þess er vandlega gætt þar að skilja sundur frásögnina og dómana. Þegar jafnvel harðvítug kosningabarátta geisar þar og blaðið eða ritstjórn þess hefur tekið alveg ákveðna afstöðu, t. d. með öðrum flokknum eða öðrum frambjóðandanum, þá kemur ekki annað til greina en að blaðið birti orðréttar ræður frambjóðendanna, við skulum segja forsetaefnanna beggja, án athugasemda, birti hlutlausar skýrslur af pólitískum fundum, þannig að í rauninni getur enginn fundið, hvorum megin fréttaritarinn stendur. Til þess að skýra frá því, hversu fjölmennir fundirnir séu, þá er ekki, eins og ýmsum hættir til, gizkað á, og jafnvel sér maður í blöðum bæði hér og annars staðar frásagnir af sömu fundum, þar sem tala fundarmanna getur verið kannske frá 100 upp í 5000 eftir því, gegnum hvernig lit pólitísk gleraugu menn hafa litið á mannfjöldann. Ég hef veitt því athygli, að þegar um fjölmenna fundi er að ræða, sem þetta blað skýrir frá, þá snýr það sér beint til lögreglunnar og fær hjá henni upplýsingar um það, hversu fjölsóttur fundurinn hafi verið. En um leið og þessar frásagnir eru sannorðar og hlutlausar, er svo í forustugreinum eða öðrum pólitískum greinum blaðsins tekin alveg skýr afstaða, hvorum megin blaðið stendur, gagnrýndar ræður o. s. frv. Þetta vil ég segja að sé eitt af meginskilyrðum fyrir heiðarlegri og góðri blaðamennsku.

Nú er það svo, að vitanlega er spurning, hversu mikið sé hægt að vinna á í slíkum efnum með námskeiðum og skólum. En þó er það þannig, að í þeim blaðamannaskólum, sem þekktastir hafa orðið og beztir eru, er einmitt þetta atriði, áherzlan á sannorðar, hlutlausar frásagnir og heiðarleik í málflutningi, eitt meginatriðið og uppistaðan. Það er t. d. skýrt tekið fram í skýrslum frá blaðamannaskóla Columbia-háskólans, að þar séu gerðar mjög strangar kröfur um aga, og m. a. tekið sérstaklega fram, að hver sá nemandi í háskólanum, sem verður uppvís að því í sínu námi og sínum æfingum að falsa frétt, verði rekinn úr skóla. Það er alger brottrekstrarsök.

Aðrar námsgreinar á blaðamannaskóla hljóta svo að sjálfsögðu að verða sagnfræði, bæði íslenzk saga og alheimssaga, erlendar tungur, upplýsingar um stjórnmál, hagfræði, efnahagsmál, félagsfræði o. fl., eftir því, hversu víðtæk og langvarandi þessi námskeið eiga að vera. Enn fremur er víða lögð á það mikil áherzla að kenna blaðamönnum, þannig að ekki verði um villzt, hver sé bæði. siðferðisleg og lagaleg ábyrgð blaðanna, um meginþættina í meiðyrðalöggjöfinni, um friðhelgi einkalífsins o. s. frv., o. s. frv.

Þá eru æfingar og tilsagnir víðast hvar hafðar um samningu gagnrýni, t. d. bókmennta- og listagagnrýni, um fréttasöfnun og fréttaritun, um það, hvernig safna skuli og raða niður efni, brjóta um blað, hvernig koma skuli fyrir myndum, semja fyrirsagnir o. s. frv., o. s. frv., fagleg atriði, sem ég skal ekki fara hér út í.

Í sambandi við þær ströngu siðferðiskröfur, sem ýmsir hinir beztu háskólar gera í þessum efnum til verðandi blaðamanna, má geta þess, að víða er lögð á það sérstök áherzla, að ef maður telur sig ranglega borinn sökum í blaði, eigi hann að sjálfsögðu heimtingu á því að fá þar inn leiðréttingu, það sé ekki aðeins lagaleg, heldur siðferðisleg krafa, en þar með sé þó ekki nema hálfsögð sagan, hann eigi heimtingu á því siðferðislega, að leiðréttingin sé birt um það bil jafnáberandi og árásin eða ásökunin var birt þar, en það er mjög algengt og vafalaust langsamlega algengast í blöðum, að þegar árás hefur verið á einhvern gerð og hann vill fá leiðréttingu, þá er stundum dregið að birta hana, stundum er hún kannske birt einhvers staðar á lítið áberandi stað með smáletri, þó að árásin hafi verið forsíðugrein með flenniletri í fyrirsögn. Og ákaflega er það oft, sem síðan kemur aftan við þessa leiðréttingu athugasemd frá ritstjórninni um, að með þessari athugasemd sé það staðfest, að blaðið hafi farið með rétt mál í öllum greinum, þó að raunverulega hafi hvert orð verið hrakið. En það, sem í þessu sambandi er víða lögð sérstök áherzla á, er m. a. þetta atriði, sem þykir tákn um heiðarlega og siðlega blaðamennsku, að menn, sem ráðizt er á, eigi kost á að gera sínar leiðréttingar og þær séu birtar um það bil eins áberandi eða svipað og athugasemdalaust.

Þetta verður vitanlega ekki nema stundum og að nokkru leyti lagfært með skólagöngu, námskeiðum og prófum, og í þessu efni er sérstaklega athugandi, að samtök blaðamannanna sjálfra geta gert hér stærsta átakið. Með samtökum blaðamannanna sjálfra væri m. a. hægt að koma því á, að þeir hefðu innan sinna vébanda sérstakan blaðamannadóm eða dómnefnd, sem fylgdist með því og veitti félagsmönnum áminningu eða ofanígjöf, ef þeir þættu fara út yfir takmörk hins sæmilega.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri til að fylgja till. úr hlaði. Hér þarf margvíslega og ýtarlega rannsókn á ýmsum atriðum, m. a. hver eigi að vera inntökuskilyrði á slík námskeið eða skóla, hversu langvarandi þessi námskeið skuli vera, hverjar skuli vera námsgreinar eða kennslugreinar, hvort próf skuli haldin, og ef svo er, þá hvaða réttindi próf eða sókn á slík námskeið skuli veita. Þetta verður allt til athugunar, en málið hefur, eins og tekið er fram í grg., verið borið undir rektor Háskóla Íslands og formann Blaðamannafélags Íslands, og eru þeir báðir málinu hlynntir.

Það er, eins og ég tók fram í upphafi, ákaflega mikils um vert fyrir hverja þjóð að eiga þroskaða, réttsýna og vel menntaða blaðamenn, sem eru vaxnir því mikla menningarhlutverki, sem þeim er falið á hendur. Þeir þurfa að hafa greind til þess að skynja og skilja hið rétta, þeir þurfa að hafa siðgæði til þess að vilja hið rétta, og þeir þurfa að hafa hugrekki til að gera hið rétta. Og tilgangurinn með þessari tillögu er að gera tilraun til að fá betri blaðamenn, sem skapa betri blöð, sem þjóna betur hagsmunum þjóðarinnar.

Ég vildi svo leggja til, að þessari umr. væri frestað og málinu vísað til menntamálanefndar.