02.12.1955
Sameinað þing: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2261)

60. mál, vegastæði milli landsfjórðunga

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef flutt ásamt hv. 2. þm. N-M, þá till. til þál., er hér liggur fyrir á þskj. 67, um rannsókn vegarstæðis milli landsfjórðunga, þ. e. um rannsókn vegarstæðis yfir hálendið.

Hv. þm. kann að finnast, að hér sé ólíklegu máli hreyft. En það er a. m. k. víst, að þetta er ekki nýstárlegt mál. Þessi leið var farin að fornu. Og landsnefndin svokallaða, sem sett mun hafa verið 1770 til að athuga um vegaframkvæmdir og fleira, sem til þjóðþrifa mætti horfa, benti á þessa leið. Síðast, en ekki sízt, er svo þess að minnast, að um þessar slóðir hafa ýmsir ferðalangar farið allmjög á bifreiðum hin síðari ár.

Það kann að virðast vera að bera í bakkafullan lækinn að fitja upp á nýjum verkefnum á sviði vegamálanna, svo ærin sem þau nú þegar eru fyrir hendi og margt er ógert við þá vegi, sem unnið er að. En rétt er að benda á það, að hér er aðeins um rannsókn að ræða. Till. felur ekki annað í sér. Og rannsókn á vegarstæðum hlýtur, ef hún á að vera ýtarleg, að vera æði tímafrek. Það kemur ótalmargt til við val vegarstæðis og ekki sízt inni á hálendinu: úrkoma, snjóalög, landslag, vatnsföll o. s. frv., einnig jarðvegur á mismunandi stöðum.

Það hefur því miður oft hent, bæði í vegamálum og annars staðar, að við höfum farið nokkuð rasandi að framkvæmdum, m. a. vegna þess, að við höfum ekki gefið okkur tíma til að undirbúa nógu vandlega það, sem vinna hefur átt hverju sinni. Það er til ákaflega nærtækt dæmi um þetta úr vegamálum Austfirðinga, þegar byrjað var á því að leggja veg út í Viðfjörð í því skyni að tengja Neskaupstað akvegakerfinu. Síðar var svo horfið frá því og farin önnur leið. En vegarlagningin út í Viðfjörð, sem aldrei varð nema hálfunnið verk, tafði náttúrlega töluvert þá framkvæmd, er síðar varð ofan á, og gerði hana dýrari en þurft hefði, ef nægur undirbúningur hefði farið fram. Vandlegur undirbúningur er vitanlega alltaf æskilegur, og mjög er nauðsynlegt að ætla til hans nægan tíma.

Spyrja má, hvaða líkur séu annars fyrir því, að vegagerð yfir hálendið geti nokkurn tíma komið til greina. Þeirri rannsókn, sem hér er farið fram á að gerð verði, er vitanlega ætlað að gefa við því rökstutt svar. En nú þegar má þó gera sér nokkra grein fyrir þessu máli, og ég hygg, að það megi a. m. k. fullyrða, að hugmyndin sé engin fjarstæða út af fyrir sig. Það var áreiðanlega ekki út í bláinn, að fyrri tíma menn völdu þessa leið. Þeir þurftu að komast snemma sumars milli landsfjórðunga á ferðum sínum til Alþingis, og þeir völdu þessa leið vafalaust vegna þess, að hún hefur verið tiltölulega snemma fær og tiltölulega greiðfær. Og stytzt er hún vitanlega. Það er augljóst, að inn til landsins er úrkoma minni en niðri við ströndina, og vötn eru þar einnig minni en þau eru orðin, þegar nær sjó dregur. Einnig eru línur landslagsins mýkri inn til landsins en úti við ströndina, a. m. k. vestur-, norður- og austurströndina.

Nú þegar hefur verið ekið af Rangárvöllum um Sprengisand og norður í Bárðardal. Á þeirri leið er langstærsta torfæran Tungnaá, en hún er óbrúuð, og þarf á hana töluvert dýra brú. Áð fenginni brú á Tungnaá, merkingu vegar norður Sandinn og lagfæringum á minni torfærum yrði þessi leið þegar orðin allgreiðfær sterkum bílum. Mætti hugsa sér það sem fyrsta áfanga, þegar þar að kæmi, að hægt væri að sinna þessu verkefni, að brúa Tungnaá og opna þar með möguleika fyrir sumarferðir. Lengra fram í tímann sér svo hilla undir það, að byggður verði myndarlegur og fljótfarinn nútímavegur á þessum slóðum, nokkurn veginn beina línu frá Rangárvöllum norður í Bárðardal, með þverálmu norðan Vatnajökuls til Austurlands.

Bílferðir þær, sem ég hef áður vikið að og nú hafa nokkuð verið farnar, langs og þvers um hálendið, þar sem þó engin vegagerð er, benda vissulega til þess, að landshættir séu þarna slíkir, að vegagerð sé tiltölulega auðveld. Tækniframfarirnar eru ákaflega stórstígar, og manni leyfist þess vegna að ræða um margt, sem áður mátti kalla fráleitt. Það er ekki mikið yfir einn áratug síðan byrjað var að nota jarðýtur við vegagerð hér á landi. En þó er svo komið, að þær ýtur, sem þá komu og ollu byltingu í vegamálunum, þykja nú svo smáar, að barnaleikspil mega kallast hjá þeim vélum, sem nú eru orðnar algengar. Þetta er það, sem hefur gerzt á einum tíu árum. Og hvað kann svo að gerast, við skulum segja á næsta áratug? Um það skal ég vitanlega engu spá. En þessi þróun bendir til þess, hvers vænta megi.

Um notagildi framtíðarvega yfir hálendið skal ég ekki vera margorður. Sú byrjun að brúa Tungnaá mundi strax hafa verulega þýðingu. Ég trúi, að stórar sveitir eigi á afrétt að sækja yfir þessa á, og mundi brúin spara þeim mikið vos og erfiðleika.

Það sjá allir í hendi sér, hve gífurlegur munur er á vegalengdum, við skulum segja bara á milli þeirra tveggja héraða, sem næst liggja, Rangárvallasýslu og Þingeyjarsýslu, að fara beinleiðis yfir hálendið eða að krækja vestur fyrir.

Það er líka enginn vafi á því, að framtíðarvegur á þessum stöðum, þ. e. uppbyggður nútímavegur, mundi hafa geysilega þýðingu fyrir allt atvinnu- og athafnalíf um norðaustur- og austurhluta landsins, þann landshluta, sem liggur lengst frá þéttbýlustu svæðunum. Það, sem gerðist, væri í rauninni það, að þessi landshluti færðist nær aðalþéttbýlinu, svo að skipti hundruðum km. Og augljóst er, að leið um þessar slóðir yrði talin glæsileg ferðamannaleið. Það er örðugt að gera sér fyrir fram fulla grein fyrir notagildi vegar í einstökum atriðum. Hitt er alkunnugt, að sérhver nýr vegur kallar umferðina yfir sig, ef svo má segja.

Ég vil svo að lokum aðeins árétta þetta: Till. er um rannsókn, eins og hún ber með sér sjálf. Við flm. teljum, að hún eigi rétt á sér: í fyrsta lagi vegna þess, að vegagerðin yfir hálendið er engin tæknileg fjarstæða, heldur þvert á móti; í öðru lagi vegna þess, að slíkur vegur mundi hafa mikla þjóðhagslega þýðingu; og í þriðja lagi vegna þess, að það er rétt og skylt að ætla rúman tíma til undirbúnings verka af þessu tagi. Og þó að við höfum í mörg horn að líta í dag og ekki sízt á sviði vegamálanna, þá sakar ekki að gefa gaum nýjum viðfangsefnum.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.