21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2284)

65. mál, fræðsla í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og fram kom við fyrri hluta þessarar umræðu um það mál, sem fyrir liggur, hafði allshn. Sþ. mælt með till. á þskj. 72. En þegar nefndin tók ákvörðun um málið, var hv. þm. Snæf. ekki viðstaddur og ekki í bænum, en hann á sæti í n., eins og kunnugt er. Hann bar svo fram brtt. við þessa till. á þskj. 453, og lá hún að vísu fyrir við fyrri hl. þessarar umr., en n. hafði þá ekki haft hana til athugunar. Síðan hefur nefndin tekið þessa till. til athugunar og getur fyrir sitt leyti mælt með því, að hún verði samþ., og er ekki ágreiningur um það í nefndinni. Hv. 5. landsk. þm. (EmJ) var að vísu ekki á fundi, þegar nefndin tók þessa ákvörðun, en ég hef talað við hann síðan, og fellst hann algerlega á þessa niðurstöðu.

Þessi till. frá hv. þm. Snæf. er, eins og menn sjá, þess efnis að fjölga í þeirri nefnd, sem á að skipa samkv. aðaltillögunni, um tvo, þannig að við bætist sinn fulltrúinn frá hvorum, Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Iðnaðarmálastofnun Íslands. Er ljóst, að fleiri sjónarmið koma til greina í nefndinni með þessu móti heldur en með því móti, sem upprunalega var lagt til. Á hinn bóginn er það, að þessi nefnd er engin stjórn fyrir neinu fyrirtæki, heldur er hún ætluð til þess að gera tillögur, og getur hver nefndarmaður og hver nefndarhluti, ef ekki er samkomulag, auðvitað komið sínum skoðunum að, hvað sem líður skoðunum annarra nm., svo að það virðist ekki hallað á neinn, þó að þessi brtt. verði samþykkt.