21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2292)

76. mál, súgþurrkun

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það var fyrir alllöngu vísað til fjvn. þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, um lækkað verð á raforku til súgþurrkunar. Aðalefni þessarar till. er að fela ríkisstj. að láta fara fram á því athugun, hver ráð séu tiltækilegust til að lækka svo raforkukostnað til súgþurrkunar á heyi, að bændum verði almennt fært að taka upp þá verkunaraðferð, og að athugun lokinni séu gerðar ráðstafanir til framkvæmda í þessu efni í samráði við Búnaðarfélag Íslands.

Svo sem háttur er fjvn. um ýmsar till., sem þörf er á að láta rannsaka nánar af þeim mönnum, sem sérþekkingu hafa á því sviði, sendi fjvn. þessa till. til umsagnar til tveggja aðila, annars vegar til Búnaðarfélags Íslands og hins vegar til raforkumálastjóra. Búnaðarfélag Íslands hafði þann hátt á, sem eðlilegur var eins og á stóð, að vísa till. til aðgerða búnaðarþings, sem settist á rökstóla um það leyti. Og hér er prentuð í nál. fjvn. um þetta mál sú ályktun, sem búnaðarþing gerði varðandi súgþurrkunina, en þar er óskað eftir, að athugun sé gerð á möguleikum á því að lækka nokkuð fastagjald af súgþurrkunarmótorum og helzt að sú lækkun gæti numið helmingi gjaldsins eins og það er nú. Auk þess er á það bent, að komið gæti til mála, að straumur yrði rofinn við súgþurrkunarvélar á mesta annatíma raforkuveranna, þ. e. á matmálstímum á daginn. Hins vegar barst n. og bréf frá raforkumálastjóra um þetta mál, og það bréf er prentað hér með nál. fjvn„ og eins og menn sjá af því, ber allmikið á milli þeirra óska, sem fram koma í ályktun búnaðarþings um lækkun á fastagjaldinu af mótorum til súgþurrkunar, og þeirrar niðurstöðu, sem raforkumálastjóri kemst að um þetta efni í lok bréfs síns. Hann bendir á það, að á s. l. ári hafi farið fram athugun eftir ósk frá Alþ. á raforkuverði til súgþurrkunar og að sú athugun hafi leitt til nokkurrar lækkunar frá því, sem áður var um fastagjaldið. Hins vegar hafi í sambandi við almenna hækkun, sem varð á raforkuverði á s. l. ári, rafmagnsgjaldið til súgþurrkunar að vísu verið nokkuð hækkað frá því, sem áður var, en heildarlega sé það gjald, sem tekið er fyrir raforku til súgþurrkunar, allmiklu lægra en gjald til hliðstæðs rekstrar við iðnað og annað þess háttar. En það, sem hér um ræðir og verulegu máli skiptir að því er snertir fastagjaldið af mótorum til súgþurrkunar, er það, að eingöngu er um að ræða notkun þessara mótora í hæsta lagi í þrjá mánuði á ári, en hins vegar notkun, sem í flestum tilfellum fer fram allt árið. Þess vegna verður það svo, að þó að fastagjaldið af mótorum til súgþurrkunar sé nokkru lægra en til annarra hliðstæðra véla, þá verður þetta gjald með tilliti til þessa stutta notkunartíma miklu hærra raunverulega og allþungbær liður í kostnaðinum við súgþurrkunina. Það, sem hér ber á milli í þessu efni, að því er snertir óskir búnaðarþings og niðurstöður þær, sem komizt er að í bréfi raforkumálastjóra, snertir eingöngu fastagjaldið af mótorum, sem notaðir eru til súgþurrkunar, en enginn ágreiningur um það verð, sem tekið er fyrir raforkuna til súgþurrkunar. Það eru engar óskir um að lækka það út af fyrir sig, heldur snýst þetta eingöngu um fastagjaldið, að það fengist nokkur lækkun á því.

Með tilliti til alls þessa, sem ég nú hef lýst, varð um það samkomulag í fjvn. að leggja til, að leitað yrði leiða til þess, að takast mætti að fá nokkra lækkun enn á fastagjaldinu, og hefur fjvn. því breytt þáltill. í það horf, eins og sést á þskj. 500, þar sem eingöngu er nú farið fram á í þessari þáltill., eins og fjvn. leggur til að hún verði samþ., að láta í samráði við Búnaðarfélag Íslands athuga möguleika á því, að lækkað verði frá því, sem nú er, fastagjald á vegum rafveitna ríkisins af mótorum, sem notaðir eru til súgþurrkunar. Það er till. fjvn., að till. verði samþ. eins og lagt er til í brtt. nefndarinnar á þskj. 500.