21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (2311)

183. mál, hafnarbætur við Dyrhólaós

Frsm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað þessa þáltill. og sendi hana vita- og hafnamálastjóra til umsagnar. Hann taldi að vísu vonlítið til árangurs, að þessum rannsóknum við Dyrhólaós yrði haldið áfram. Hins vegar segir í umsögn hafnamálastjóra, að hann hafi síður en svo neitt við það að athuga, að þetta hafnarmál verði athugað nánar, „ef vera mætti, að hægt yrði að finna einhverja viðráðanlega leið, sem ekki hefur enn verið komið auga á“.

Eins og ég gat um við fyrri umr. þessa máls, var tilefni þess, að ég flutti þessa till. nú, það, að á s. l. sumri komu tveir þýzkir verkfræðingar og litu á staðhætti við Dyrhólaós. Þeir hvöttu mjög til þess, að þetta mál yrði rannsakað nánar. Og þar sem þessir verkfræðingar munu dveljast á Akranesi í sumar, taldi ég rétt að flytja þetta mál hér inn í þingið og þeim gæfist kostur á að segja, hvort þeir sjá nokkra mögulega leið eða líklega til árangurs þarna við Dyrhólaós.

Fjvn. mælir með því, að till. verði samþykkt, og ég vænti þess, að hv. Alþ. taki till. einnig vel.