19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2315)

39. mál, eyðing refa og minka

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. S-Þ., hv. þm. Mýr. og hv. þm. V-Húnv. að bera fram á þskj. 44 till. til þál. um að fela ríkisstjórninni að láta í samráði við Búnaðarfélag Íslands fara fram athugun á möguleikum til eyðingar refa og minka og þá sérstaklega, hvort ekki sé tiltækilegt að taka upp nýjar aðferðir til útrýmingar. Ég skal ekki hafa langt mál um þessa till., en get í aðalatriðum látið nægja að vísa til grg. á þskj. 44, og það því fremur sem þetta mál eða skylt var nokkuð rætt hér í hv. Alþ. í fyrra.

Það er nú orðið alllangt síðan byrjað var að setja lög á Alþ. um útrýmingu refa. Fyrstu lög um það efni munu vera frá því um 1880 og þá í því formi að heimila aðilum heima í héruðum að setja reglugerðir um refaeyðinguna. Síðar, nú fyrir nokkrum árum, var svo sett sérstök löggjöf um eyðingu refa og minka, og samkvæmt þeim lögum leggur ríkið fram árlega nokkurt fé til þessarar starfsemi á móti því, sem sýslusjóðir, sveitarsjóðir, leggja fram.

Á árinu 1953 mun kostnaðurinn alls við eyðingu refa og minka hafa verið eitthvað á milli 800 og 900 þús. kr., og af því greiddi ríkið rúml. 300 þús. kr.

Sú aðferð, sem frá öndverðu hefur einkum verið beitt við útrýmingu refa, er eins og kunnugt er að reyna að vinna grenin á vorin og útrýma þannig í einu bæði fullorðnum dýrum og afkvæmum þeirra. Er flestum kunnugt, hvernig að þeim er unnið. Jafnframt lögðu menn það fyrir sig að liggja fyrir tófum á veturna og skjóta þær, og var á tímabili mikið um tófuveiðar með þeim hætti, þá voru refaskinn í háu verði, þannig að þeir, sem lögðu fyrir sig refaveiðar, höfðu möguleika til þess að hafa töluvert upp úr vinnu sinni. Síðar breyttist þetta þannig, að skinnin féllu í verði, og var þá lítið upp úr refaveiðum að hafa. Þá var tekið í lög að greiða sérstök verðlaun fyrir að vinna hlaupadýr. Um sama leyti hafði svo þau ótíðindi borið að höndum, að minkar höfðu sloppið úr búrum hér á landi og tóku að breiðast út um landið. Hefur síðan orðið áframhald á því, að þessi plága hefur verið að breiðast út til fleiri og fleiri héraða. Í lögum var þá einnig ákveðið að veita verðlaun fyrir að vinna minka.

Nú er það svo, að það fer hvort tveggja saman nú síðustu árin, að refum hefur fjölgað mjög hér á landi, a. m. k. í mörgum héruðum, þannig að til vandræða þykir horfa, og að villiminkar hafa verið að gera vart við sig í æ fleiri og fleiri héruðum. Eru að vísu einstaka héruð enn þá, þar sem minka hefur ekki orðið vart, en sú hætta er alls staðar yfirvofandi, að þeir fari að láta á sér bæra þá og þegar. Þetta er hinn mesti vágestur, ekki sízt í varplöndum, þar sem þau eru, t. d. æðarvörp og andavörp, svo og í veiðivötnum.

Á síðasta Alþ. var borið fram frv. um að hækka þau verðlaun, sem greidd voru fyrir að vinna hlaupadýr og minka. Setti Alþ. ný lög um breyt. á hinum eldri lögum um eyðingu refa og minka þess efnis að hækka þessi verðlaun nokkuð. En við flm. teljum, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, bæði að því er varðar refina og minkana, að mjög sé æskilegt að taka það upp til alveg sérstakrar athugunar. Fyrir okkur vakir, að ríkisstj. láti fram fara þessa sérstöku athugun á því, hvaða ráð helzt séu tiltækileg til þess að framkvæma útrýminguna, og verði þá bæði litið á þær aðferðir, sem hingað til hafa verið notaðar, og nýjar aðferðir, sem til mála kynnu að koma í þessu efni og nánar er að vikið í grg. tillögunnar.

Við höfum ekki séð ástæðu til þess að óska eftir því, að beinlínis verði látin fara fram endurskoðun laganna, og það er vegna þess, að á þingi í fyrra var unnið allmikið starf í því efni, aðallega af hv. landbn. Ed., sem leitaði umsagnar og tillagna um málið, m. a. hjá öllum sýslumönnum landsins. En að þeim upplýsingum fengnum gerði n. tillögur um nokkrar breytingar á lögunum, sem samþ. voru á þinginu, jafnframt því sem verðlaunin voru hækkuð. Till. okkar lýtur að því fyrst og fremst að athuga framkvæmdina og hvaða aðferðir muni gefa bezta raun, en að sjálfsögðu getur vel komið til mála í sambandi við þá athugun að gera einhverjar breytingar á sjálfum lögunum um þetta efni.

Ég vil svo leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.