19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (2317)

39. mál, eyðing refa og minka

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 1. þm. N-M. (PZ) vil ég aðeins vekja athygli á því, að sú till., sem hér liggur fyrir, er ekki um skipun milliþn. Það er ekkert á nefndarskipun minnzt í till. og lagt á vald ríkisstj., á hvern hátt hún vinnur að framkvæmd tillögunnar, hvort það er með nefndarskipun eða á annan hátt.

Annars virtust mér þær upplýsingar, sem hv. þm. gaf í ræðu sinni, benda greinilega í þá átt, að full þörf sé á því að gefa sérstakan gaum að framkvæmd þessa máls, og þessi till. er eiginlega takmörkuð við athugun á framkvæmdunum. Hér er ekki farið fram á endurskoðun sjálfra laganna, en með því að bera fram till. viljum við leggja sérstaka áherzlu á þetta mál við hæstv. ríkisstj. og teljum, að þess sé rík þörf, af ástæðum, sem ég hef áður nefnt.