14.03.1956
Sameinað þing: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (2321)

39. mál, eyðing refa og minka

Frsm,. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þessi þáltill. um eyðingu refa og minka er um það, að Alþ. feli ríkisstj. að láta í samráði við Búnaðarfélag Íslands fara fram athugun á möguleikum til eyðingar refa og minka og þá sérstaklega, hvort ekki sé tiltækilegt að taka upp nýjar aðferðir til útrýmingar þeim. Till. var vísað til allshn. þingsins, og sendi hún hana til Búnaðarfélags Íslands og bað um umsögn þess um till. Svar barst frá Búnaðarfélaginu, og er það prentað sem fskj. með nál. allshn. á þskj. 412.

Í svari sínu segir Búnaðarfélagið meðal annars:

„Búnaðarfélag Íslands hefur á ýmsan hátt unnið að því, að betri árangri yrði náð við eyðingu refa og minka. Hið síðasta í því efni er það, að samkomulag hefur náðst um það við sendiráð Bandaríkjanna hér á landi, að hingað til lands komi kunnáttumaður á þessu sviði, er gefi leiðbeiningar um nýjar aðferðir við eyðingu refa og minka. Er komu þessa manns vænzt á næsta vori. Þá hefur stjórnin fengið um það fregnir frá landbrn., að greiddur verði ferðakostnaður þessa manns hér. Lítur Búnaðarfélagsstjórnin því svo á, að ekki sé ástæða til frekari aðgerða í máli þessu að svo stöddu.“

Allshn. leit svo á, að samkv. þeim upplýsingum, sem liggja fyrir frá Búnaðarfélaginu, sé till., eins og hún er fram borin, fullnægt. Það er verið að gera það, sem till. ætlast til að gert verði. Þess vegna leggur n. til, að till. verði afgreidd með rökstuddri dagskrá, þannig hljóðandi:

„Í trausti þess, að þeim ráðstöfunum, sem hafnar eru til eyðingar refa og minka, verði fram haldið og þær efldar, tekur Alþingi fyrir næsta mál á dagskrá.“

En síðan n. gaf út sitt álit, hafa flm. þáltill. borið fram við hana brtt., sem er töluvert mikið öðruvísi en upprunalega till. og því raunverulega alveg nýtt mál. Þeirra brtt. er um það, að skipuð verði nefnd til að gera tillögur um skipulagðar og samræmdar aðgerðir um land allt í því skyni að vinna að útrýmingu refa og minka með þeim aðferðum og á þann hátt, sem n. telur vænlegast til árangurs á sem skemmstum tíma o. s. frv.

Um þessa brtt. hefur allshn. alls ekkert fjallað, og hefði slík till. legið fyrir, þegar n. tók málið til meðferðar, þá tel ég mjög vafasamt, að n. hefði lagt til að afgreiða slíka till. með rökstuddri dagskrá, því að hún er um ákveðna aðferð í þessu máli, sem sé að skipa nefnd. En till., eins og hún liggur fyrir og var borin fram, er aðeins um það að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir í þessu efni í samráði við Búnaðarfélag Íslands, einmitt það, sem Búnaðarfélag Íslands er að gera í samráði við ríkisstjórnina.

Ég get ekki neitt sagt um þessa brtt. frá hendi n., og væri svo, að hv. flm. vildu fá álit n. um hana, mundi vera ráð að fresta umr., svo að n. gæfist tóm til að athuga þessa brtt. Það má e. t. v. deila á n. fyrir það, af því að nokkuð er síðan brtt. kom fram, að hafa ekki þegar tekið hana fyrir, en eins og hv. þm. vita, hafa bæði ég og aðrir þm. í mínum flokki verið störfum hlaðnir undanfarna daga, og er það kannske nokkur afsökun fyrir því að hafa ekki kallað saman fund í nefndinni. Á hinn bóginn geta flm. alveg ráðið því, hvort þeir vilja láta till.. ganga undir atkv. eða fá athugun n. á henni.