21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (2327)

39. mál, eyðing refa og minka

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það sé fjarri mér að draga í efa, að þær upplýsingar, sem hv. 1. þm. N-M. hefur fengið um framkvæmd refa- og minkaeyðingar hér á landi, séu réttar. Hann hefur alla aðstöðu til þess að afla upplýsinga um þetta efni, og ég geng út frá því, að það sé alveg rétt, sem hann hefur verið að segja hér um framkvæmd laganna. En mér virðist, að þær upplýsingar, sem hann gaf hér áðan, séu ef til vill sterkustu rökin, sem hægt er að færa fram fyrir því, að rétt sé að samþykkja þessa till.

Það kom glögglega fram í ræðu hans, að útrýmingarstarfseminni væri mjög áfátt, og líka, að skýrslugerð væri áfátt. Hann virtist telja, að rétt væri að bíða eftir frekari skýrslugerð. En ég held, að rétt sé að bíða ekki eftir henni. Út af fyrir sig verður þessum dýrum ekki útrýmt með skýrslugerð, heldur með öðrum athöfnum, og ég held, að það komi glögglega fram í ræðu hv. þm. sem og af öðru, sem hér hefur komið fram, að full þörf sé á samræmdum allsherjaraðgerðum í þessu máli og nýrri sókn. Fyrir því viljum við greiða með flutningi þeirrar tillögu, sem fyrir liggur.