21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2328)

39. mál, eyðing refa og minka

Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki fara neitt langt út í þetta mál. Ég vil bara benda hv. síðasta ræðumanni á það, hv. þm. N-Þ., að með fyrri lögunum, sem sett voru um eyðingu refa og minka á Alþingi fyrir einum 6–7 árum, var hverri hreppsnefnd í landinu gert að skyldu að reyna að eyða minkum og tófum í landi hreppsins, og svo var heitið ákveðnum verðlaunum fyrir að vinna dýr og ákveðinni hluttöku í öllum kostnaði. Þrátt fyrir það hreyfði mikill hluti af hreppsnefndunum sig ekkert, en ríkið launaði sérstakan mann, og ef einhvers staðar varð vart við einn mink, þá var hringt í ríkið um að láta þennan mann koma. En þó að búið væri að skylda hreppsnefndirnar til að gera eitthvað sjálfar, gerðu þær ekkert annað en að eyða einu símtali og biðja um manninn frá ríkinu.

Þegar Alþingi sá, að þetta dugði ekki, var tekin upp sú aðferð að reyna að safna skýrslum um það, sem gert væri. Það var gert í fyrra, og skýrslurnar áttu í fyrsta skipti að koma núna um áramótin, til þess að sjá nú nákvæmlega, hvernig málið stæði, hvað gert væri, hverjar gerðu ekkert, hverjar gerðu eitthvað og hvernig hver einstök hagaði sér í sínum störfum. Það voru sundurliðuð skýrsluform send til allra oddvita úr stjórnarráðinu, en þau voru búin til af búnaðarþingi, sundurliðað spurt um, hvort væri notuð þessi aðferð, þessi aðferð og þessi aðferð o. s. frv., bæði um minkana og tófuna, og hvað reyndist bezt. Áður en þær upplýsingar liggja fyrir, þá vill Alþingi láta skipa sérstaka nefnd til að gera nú till. Þetta kalla ég bráðræði og taldi og tel enn, að það mundi vera réttara að bíða eftir og sjá, hvernig niðurstaðan yrði af þessu, sem við erum búnir að gera.

Í fyrri lögunum, fyrir 5–6 árum, var fyrir ráðherra lagt að semja reglugerð um framkvæmd laganna til leiðbeiningar um útrýmingu bæði minka og tófu. Það hefur ekki verið gert enn, og enginn hefur hreyft hönd eða fót til þess að biðja um, að reglugerðin væri sett, nema ég, sem hef tvívegis átt tal um það við Gunnlaug Briem skrifstofustjóra. Í síðari lögunum er þetta aftur tekið fram og heldur engin reglugerð komin hvað það snertir, þó mun nú skipuð nefnd til þess. Áhuginn er þess vegna enginn hjá þessum mönnum, sem fyrir þessu eru að tala hér, til að reyna að framfylgja því, sem á að framfylgja, heldur bara að reyna að slá um sig með því að benda á eitthvað nýtt, koma með eitthvað nýtt, sem enginn maður veit, hvað er.

Það er verið að tala um eitrun, það er verið að tala um að smita þá með einhverjum næmum sjúkdómi. Það liggur fyrir umsögn bæði yfirdýralæknisins íslenzka, yfirdýralæknis í Kaupmannahöfn og Serum Laboratori í Kaupmannahöfn um, að það sé ekki gerlegt, og við þekkjum ekki neina leið til þess að geta það.

Hvort þessi nefnd á að finna einhverja slíka leið, veit ég ekki. Hún á kannske að gera það.

Mér finnst þess vegna þetta vera eins og önnur fljótfærni, sem hérna er gert, vanhugsað að því leyti til, að það er ekki reynt að styðjast við það, sem til er og við eigum að hafa í höndunum til þess að geta byggt upp betri aðferðir í þessu efni. Það er það, sem mér finnst.

En þar sem málið núna hvílir eftir lögunum eiginlega í höndum Búnaðarfélags Íslands og hér á að taka það frá því, þá er ég því feginn út af fyrir sig. Ég er feginn, að það komi þriggja manna nefnd, sem sjái um þetta allt saman, og við þurfum ekkert um það að hugsa í Búnaðarfélaginu. Hún tekur þá við skýrslunum framvegis og vinnur úr þeim, og hún getur náttúrlega skrifað hverri hreppsnefnd og bent henni á, hvaða leið reyndist bezt í hinum hreppsnefndunum og hvað hefði reynzt illa hjá hinum. Hún kemur þá til með að standa í bréfasambandi við oddvitana næsta ár og ýta á þá um, hvað á að gera, bæði gagnvart minkunum og tófunum. Ég er feginn að vera laus við það þessa 1–2–3 mánuði, sem ég kannske verð enn þá við Búnaðarfélagið, og sá, sem kemur eftir mig, vafalaust líka, svo að ég hef ekkert á móti till. í sjálfu sér. En tillagan er ekkert annað en bráðræði, gerð í fljótfærni án þess að hafa athugað, hvernig málið í heild stendur.