13.03.1956
Neðri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2342)

184. mál, loftferðir

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Núgildandi lög um loftferðir eru frá árinu 1929. Á því tímabili, sem liðið er síðan, rúmum hálfum þriðja áratug, hafa orðið ákaflega miklar breytingar um þessi mál, bæði um smíði flugvéla, um alla tækni í þeim efnum og loftferðareglur og samgöngur í lofti yfirleitt. Það er því orðin brýn nauðsyn að endurskoða þessa löggjöf, og er það aðalefni þeirrar till., sem hér liggur fyrir, að neðri deild Alþingis álykti að fela ríkisstjórninni að láta fram fara endurskoðun löggjafar um loftferðir.

Það eru mörg ákvæði þessara laga og reglna, sem settar hafa verið samkv. þeim, sem væri ástæða til að ræða hér, en ég skal ekki á þessu stigi fara út í það nema að örlitlu leyti.

Eitt af því, sem almenningur, sérstaklega hér í Reykjavík, en sums staðar víðar í þéttbýli, kvartar yfir, er óþarfaflug flugvéla yfir þéttbýli. Þá er þess fyrst að geta, að þó nokkur brögð eru að því, að kennslu- og æfingaflugvélar fljúga yfir borg og bæ, og er því að sjálfsögðu samfara viss slysahætta. Sem betur fer, hafa slík slys ekki orðið mörg, en hefur þó komið fyrir.

Það virðast engar reglur til um þetta efni hér hjá okkur. Að vísu er Ísland aðili að alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO, og þessi stofnun hefur samþykkt allýtarlegar reglur um loftferðir, sem þátttökuríkin hafa skuldbundið sig til að taka inn í sinn flugrétt. Þar eru m. a. reglur um flug yfir borgum og þéttbýli, en þessar reglur munu ekki hafa verið lögleiddar eða birtar hér á landi, svo að vitað sé. Það er að vísu til reglugerð um Reykjavíkurflugvöll frá 1949, og segir þar, að loftför í reynsluflugi í nágrenni flugvallarins skuli, eftir því sem við verður komið, forðast flug yfir Reykjavíkurborg. Þetta er svo óákveðið orðalag, að telja má það nokkuð lítils virði.

Í löggjöf sumra annarra þjóða eru alveg skýrar reglur um það, hvernig kennslu- og æfingaflugvélar og jafnvel flugvélar yfirleitt megi fljúga yfir borgum og þéttbýli, og er það víða á þá lund, að aldrei megi fljúga lægra en svo, að þær geti, ef vélarbilun ber að hendi, örugglega lent utan við þéttbýlið, og í ýmsum þessara reglna er ákveðið í metratölu, hver þessi hæð skuli vera minnst.

Um þetta er sjálfsagt að fá alveg skýrar reglur, og þarf með þeim að sjálfsögðu á engan hátt að draga úr kennslu- og æfingaflugi. Varðandi höfuðborgina sýnist óþarfi að nota flugvöllinn hér og Reykjavík eins og gert hefur verið til æfingaflugs. Það eru annars staðar ágæt skilyrði, t. d. að sumarlagi á Sandskeiði og jafnvel víðar, fyrir slíkt kennsluflug, og ástæðulaust að vera að stofna til þeirrar slysahættu, sem getur verið þessu samfara.

Annað atriði í þessu efni, sem ég vildi minna á hér, er, að það hefur hvað eftir annað vakið óánægju hér í bænum, að flugvélar varnarliðsins, þrýstiloftsflugvélar, fljúgi hér með miklum dunum og dynkjum yfir borgina. Ætla ég, að allur þorri bæjarbúa vilji helzt vera laus við slíkt flug, enda ekki sjáanlegt, að á því sé nein nauðsyn á friðartímum.

Ég skal ekki fara ýtarlegar út í þessa till., en vænti þess, að menn geti orðið sammála um, að þörf sé á að endurskoða þessa löggjöf frá 1929 um loftferðir og samræma þá löggjöf bæði alþjóðareglum og þeim þörfum, sem komið hafa í ljós á þessu langa tímabili. Hef ég þó aðeins gert hér eitt sérstakt atriði að umtalsefni, sem er takmörkun á flugi yfir borgum og þéttbýli, en að sjálfsögðu eru fjöldamörg önnur atriði, sem þurfa athugunar við.

Ég vildi leggja til, að umr. yrði frestað og till. vísað til n., og geri ég ráð fyrir, að till. muni helzt eiga heima í samgmn.