24.03.1956
Neðri deild: 93. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2345)

184. mál, loftferðir

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Svo sem nál. samgmn. ber með sér, var hv. þm. N-Ísf. (SB) valinn frsm. n., en þar sem hvorugur varaforseta er hér staddur, á hann þess ekki kost að fara úr forsetastóli að mæla fyrir áliti n., svo að ég vildi fylgja því úr hlaði með örfáum orðum.

Samgmn. hefur tekið málið til athugunar og rætt það og jafnframt haft samráð við flugmálastjóra, og hefur hann látið í ljós þá skoðun, að hann teldi mjög æskilegt, að umrædd endurskoðun loftferðalöggjafarinnar, sem till. gerir ráð fyrir, færi fram.

Svo sem tekið er fram í grg. till., eru núgildandi lög um loftferðir frá 1929. Síðan hefur orðið margvísleg þróun í flugmálum og ýmis lagaákvæði sett meðal annarra þjóða og alþjóðlegar reglugerðir í sambandi við flugmál, í ýmsu frábrugðin þeim lögum, sem nú gilda hér hjá okkur. N. er því sammála því, sem fram kemur hjá flm. umræddrar þáltill., að það sé mjög mikilvægt öryggismál í sambandi við flugferðir okkar, að sú endurskoðun fari fram, sem till. gerir ráð fyrir, og leggur því nefndin einróma til, að till. verði samþykkt óbreytt.