22.02.1956
Sameinað þing: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2349)

156. mál, bátagjaldeyrishlunnindi til sjómanna í Vestmannaeyjum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á þskj. 380 hef ég leyft mér að bera hér fram till. til þál. um greiðslu bátagjaldeyrishlunninda til sjómanna í Vestmannaeyjum, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að því á þann hátt, er hún telur hagkvæmast, að gera útvegsmönnum í Vestmannaeyjum fært að inna af hendi greiðslur til sjómanna vegna vangoldinna bátagjaldeyrishlunninda fyrir árin 1952 og 1953.“

Það er ekki nýtt mál, sem ég er hér að hreyfa. Því hefur áður verið hreyft, e. t. v. í öðru formi, af öðrum, og hér á hinu háa Alþingi, og af mér var það upp tekið sérstaklega í haust, þegar það leit út fyrir, að í odda kynni að skerast milli útvegsmanna í Vestmannaeyjum og sjómanna, vegna þess að sjómenn hafa samkv. dómi rétt til hluta af þessum bátagjaldeyrishlunnindum fyrir árin 1952 og 1953 og raunar líka fyrir árið 1951, þótt þess gæti þar minna.

Þegar fyrsta reglugerðin um bátagjaldeyrishlunnindi var sett, sem heitir reglugerð um innflutningsréttindi til bátaútvegsmanna, er fullyrt af útvegsmönnum a. m. k., og mér virðist það koma fram í reglugerðinni, að þar hafi verið átt við það, að þessi innflutningsréttindi ættu að vera hlunnindi til handa útvegsmönnum sjálfum, en ekki beint til sjómanna, en vitaskuld kæmu þá fram í hækkuðu fiskverði gagnvart þeim. Í reglugerðinni mun þetta ekki vera svo greinilega fram tekið sem skyldi, og hefur það m. a. orðið til þess að valda þeim ágreiningi, sem varð í Vestmannaeyjum siðar meir út af því, hvernig skiptast skyldu þessi bátagjaldeyrishlunnindi. Ráðningarkjör eða ráðningarsamningar hafa sem sé um langt skeið verið með öðrum hætti í Vestmannaeyjum en við Faxaflóa, og það ásamt óljósum ákvæðum af hálfu ríkisyfirvaldanna um skiptingu þessara fríðinda hefur valdið þeirri deilu, sem er komin á það stig, að sýnt er, að útvegsmenn í Vestmannaeyjum verða að borga aftur fyrir sig, ef ég má svo kveða að orði, eftir á stórfé til sjómanna, sérstaklega fyrir árin 1952 og 1953.

Það er talið, að það muni vera nálægt 3½ millj. kr., sem sjómenn eiga kröfu á hjá útvegsmönnum samkvæmt þessum dómum, sem gengið hafa, og eins og ástatt er hjá útvegsmönnum yfir höfuð, þá leyfir efnahagur þeirra það ekki, sízt af öllu nú. Eins og allt er dýrt til útgerðar, leyfir hann þeim ekki að inna þessa greiðslu af hendi, án þess að til komi einhver styrkur eða hjálp, annaðhvort banka eða ríkisvalds.

Ég skrifaði, þegar ég hafði fengið í hendur bréf Útvegsbændafélags Vestmannaeyja eða afrit af því frá 27. okt. 1955, sem sent var Landssambandi ísl. útvegsmanna, ríkisstj. ýtarlega um þetta mál og líka skrifaði ég hv. fjvn. 9. nóv. 1955 um þetta efni, og við hvora tveggja þessa aðila fór ég fram á, að ríkisvaldið veitti einhverja aðstoð til þess, að útvegsmenn gætu leyst sjómenn heiðarlega af hólmi á þeim forsendum, sem fyrir liggja. Hér er orðið um að ræða skuldakröfu, sem ekki verður sjálfsagt vefengd, enda munu útvegsmenn almennt hafa hug á því að ljúka þessum skuldum, ef þeim er gert það fært. Hvorki hæstv. ríkisstj.hv. fjvn. sinnti þessu erindi mínu, svo að ég viti til. Tók ég það svo fyrir við 3. umr. fjárlagafrv. að flytja brtt. við 22. gr. og fór þar aðeins fram á það, að ráðherra yrði heimilt að lána úr ríkissjóði eða ábyrgjast lán með þeim skilyrðum, sem ríkisstj. ákvæði, og með þeim tryggingum, sem hún teldi gildar, þessa fjárhæð, til þess að gera útvegsmönnum í Vestmannaeyjum fært að standa straum af því gjaldi, sem þeir eiga að greiða til sjómannanna. Þessi till. náði því miður ekki samþykki hins háa Alþingis, en þetta mál er þar með ekki úr sögunni. Það er það ekki af minni hendi, meðan ég kann á að halda, og það mun því síður vera það af hendi þeirra, sem rétt eiga hér á greiðslu frá sínum húsbændum eða útvegsmönnum, og raunar ekki frá útvegsmannanna hálfu sjálfra.

Það hefur hér farið talsvert á milli mála, og ég tel, að eftir atvikum eigi hæstv. ríkisstj. eða hennar starfsmenn, sem um þessi mál fjölluðu í byrjun, nokkuð af sökinni, þó að vitaskuld nokkuð af henni kunni að hvíla á Vestmanneyingum sjálfum, að þeir hefðu átt að segja við ríkisstj. á þeim tíma, sem þetta skeði: Okkur er þetta ekki nægur styrkur með þeim samningum, sem við höfum við okkar sjómenn, við þurfum að fá meiri og betri fríðindi af hálfu ríkisvaldsins. — Þetta gerðu þeir þá ekki og þá sennilega í trausti þess, að það hefur verið þannig fyrir þeim skýrt, að þessi fríðindi ættu að ná til þeirra og þeirra einna. Í bréfi sínu, dags. 27. okt. 1955, til Landssambandsins fullyrðir stjórn Útvegsbændafélagsins, að þann dag hafi ráðuneytisforstjóri sjávarútvegsmálaráðuneytisins, Gunnlaugur Briem, staðfest það, að til þess hefði verið ætlazt með reglugerð um innflutningsréttindi bátaútvegsins, að tekjur af þessum réttindum rynnu óskertar til útvegsmannanna, en hafi svo verið, þá spyr ég: Hvers vegna var þá ekki reglugerðin höfð það greinileg og glögg, að ekki mætti um deila?

Alþingi hefur oft og tíðum hlaupið undir bagga, þegar óvænt slys eða óhöpp hafa hent vissar stéttir manna, ja, ég vil segja jafnvel einstaklinga, og þetta háa Alþingi, sem nú á setu, hefur t. d. í fjárlagaákvæðum gert ráðstafanir til þess að hlaupa undir bagga með bændum á óþurrkasvæðinu með því að heimila ráðherra að lána bjargráðasjóði allt að 10½ millj. kr. til þess að lána til bænda á óþurrkasvæðinu til að gera þeim léttara að bera þá bagga, sem á þá lögðust vegna óþurrkanna s. l. sumar.

Hér er að vísu um stóran hóp að ræða, þar sem eru bændur á óþurrkasvæðinu, en það er líka um stóran hóp manna að ræða, þar sem eru allir útvegsmenn án undantekningar í Vestmannaeyjum og allir sjómenn, þeir sem stunda atvinnu á vélbátaflotanum samanlagt, svo að í hvoru tveggja tilfellinu getur maður sagt, að það er um stóra hópa að ræða, sem hér hafa orðið fyrir áföllum. Ég sé ekki, að það sé sanngjarnt, þegar þingið vill hlaupa undir bagga með einhverjum sérstökum einum út af óviðráðanlegu áfalli, sem hann hefur orðið fyrir, að það sé réttlæti í því að láta aðra, þó að ekki sé sama eðlis áfallið, algerlega standa þar utan gátta, þó að þeim sé mikil þörf hjálpar og styrktar.

Enn er þess að geta, að af því fé, sem Alþingi leyfir eða veitir til þess að auka og efla atvinnu í byggðarlögum landsins, fá Vestmannaeyjar engan eyri né heldur byggðirnar við Faxaflóa. Því hefur verið úthlutað til annarra aðila, og er skýrt fram tekið, að það hafi í hvorugan þennan staðinn farið. Mér virðist, að þetta styðji að því, að þingið ætti að líta eitthvað til þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli og ég er að flytja þessa till. fyrir. Ég fer ekki fram á með þessari till., að útvegsmönnum í Vestmannaeyjum sé veittur styrkur, og ég fór ekki fram á það með brtt. við fjárl., heldur að hér væri um eins konar lán að ræða, lánsmöguleika, þannig að gera þeim mögulegt að greiða sjómönnum og losna við þær skuldir á nokkrum árum með því að fá lán til þess að greiða þær.

Ég held, að það þurfi ekki orðum að því að eyða, að útvegsmönnum þýðir ekki að snúa sér til bankanna, eins og nú er ástatt í þessu efni, og hefur ekki verið síðan þetta mál kom upp, því að þeir gera miklu frekar nú að skera við neglur sér það, sem látið er til útvegsins, líka í Vestmannaeyjum og ekki síður þar en annars staðar, heldur en þeir hafi nokkuð við það aukið.

Að öllu þessu athuguðu vildi ég treysta á réttdæmi hins háa Alþingis með að stíga spor í þá átt, að ríkisstj. væri á það bent að reyna að greiða fyrir því, að þessar skuldir mættu ljúkast á friðsamlegan hátt, — ég segi á friðsamlegan hátt og á þar við, að það þurfi ekki að leiða að því, að til neinna átaka sérstakra þurfi að koma í útveginum í Vestmannaeyjum vegna ágreinings út af því, að þessar skuldir til sjómannanna séu ekki greiddar. Það var dálítið haft á orði fyrir byrjun þessarar vertíðar, sem nú stendur yfir, að svo kynni að fara, að þeir af bátaeigendum, sem gætu ekki greitt sjómönnum þessar skuldir, mundu ekki fá að lögskrá menn á báta sína fyrir sjómannasamtökunum. Ég skal nú ekki segja um það, hvort lög standa til þess eða hefðu staðið til þess, að sjómenn öftruðu slíku, ég er ekki svo lögfróður, að ég kunni skil á því, hitt veit ég, að sjómenn í Vestmannaeyjum sýndu þá stillingu við þetta tækifæri, þegar þurfti að fara að koma bátunum af stað, að þeir gerðu ekki ágreining á þann hátt, sem mjög var á orði haft fyrr á haustinu eða fyrr í vetur. Þeir gerðu ekki ágreining út af því og hindruðu ekki á neinn hátt skráningu, lögskráningu, sem þó var jafnvel búizt við að yrði framkvæmt. Ég tel, að þeir hafi sumpart gert það af því, að þeir hafi, eins og ég leyfi mér að gera, sett von sína til hæstv. ríkisstj. og hins háa Alþ. um það, að hafðar yrðu í frammi þær aðgerðir, sem kæmu að haldi, til þess að útvegsmenn gætu lokið við þá skuldum sínum, án þess að til átaka þyrfti að koma. Ég veit ekki, hvort ég þarf fleiri orð hér um þetta að tala eða meira um þetta að ræða. Ég hef gert það, sem mér hefur verið unnt á þessu þingi, að gera þeim, sem með fjármálin fara og fjármálunum ráða sérstaklega, málið skiljanlegt, og ég taldi mér skylt að skiljast ekki svo við þingið, að ég gerði ekki þingheimi öllum eins greinilega grein fyrir málavöxtum og ástæðum og unnt væri og fengi málið þannig lagt undir dóm allra hv. þm., úr því að hv. fjvn. sá sér ekki fært að sinna því.

Ég teldi, að af ýmsum ástæðum hefði verið rétt að biðja um að lokinni þessari umr., að þessu máli væri vísað til hv. fjvn. Ég geri það þó ekki að kappsmáli, en læt það samt sem áður vera mína fyrstu till., ellegar þá til vara, að málinu verði vísað til hv. allshn. þingsins. En ég vona, að þm. skilji það, að hér standa mikil vandræði fyrir höndum fyrir allan þorra útvegsmanna í Vestmannaeyjum, þar sem þeir eiga að inna af höndum stórar fjárfúlgur nú á næstu mánuðum í viðbót við allar þær álögur, sem við svo að segja daglega erum að samþykkja á þennan sama atvinnuveg, og að hv. Alþ. virði það líka við forráðamenn sjómannanna og sjómannastéttina, sem þarna á hlut að máli, að þeir hafa sýnt af sér þolinmæði í þessu efni og ekki haft í frammi nein viðbrögð til þess að knýja fram vilja sinn með valdi.

Ég geri ráð fyrir, að ef atriði eins og þetta hefði komið fyrir í fyrra, þegar saminn var sáttafriður í hinni stóru vinnudeilu, þá hefði það líklega ekki þótt nema fjöður af fati hjá hæstv. ríkisstj. að ganga inn á að ábyrgjast fyrir útvegsmenn í Vestmannaeyjum 3½ millj. kr., lána þeim það eða fá það lánað handa þeim til nokkurra ára, til þess að þeir geti haft frið við sína sjómenn. Þá hefði það sennilega flogið í gegn, en það á eins að geta komið til álita nú, þegar málið er flutt, án þess að nein hótun sé frá neinna hálfu í þessu efni, heldur aðeins ábending um sanngirnisaðgerðir af hálfu þings og stjórnar og nauðsynlegar aðgerðir í garð þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli.

Það er vitaskuld, eins og ég sagði áður, að ég fór fram á lán eða ábyrgð á láni í minni brtt. við fjárl. Í þessari till., sem hér liggur fyrir, er hvorugt sérstaklega tekið fram, enda vita allir, að hæstv. ríkisstj. hefur fleiri leiðir til þess að stuðla að góðri lausn þessa máls en þær, sem sérstaklega var á bent í brtt. við fjárl., og hef ég því látið það standa algerlega opið, hvernig ríkisstj. vildi haga sinni aðstoð, en fer aðeins fram á, að Alþ. kveði svo á um, að greitt sé fyrir þessu af hálfu ríkisstj. á þann hátt, sem henni hentar og bezt kemur að notum fyrir alla aðila.