18.11.1955
Sameinað þing: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (2392)

79. mál, milliliðagróði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég fagna því, að þessi till. skuli hafa komið fram, og mun greiða henni atkvæði og vænti þess, að hún verði samþykkt. Ég tel þó, að hana mætti endurbæta dálítið, og vil benda á tvö atriði í því sambandi til athugunar fyrir hv. n., sem fær málið til meðferðar. Mun ég flytja brtt. um þessi atriði, ef nefndin telur ekki ástæðu til að sinna þeim.

Ég tel eðlilegt, að starfsemi nefndarinnar beinist einnig að rannsókn á milliliðakostnaði í útflutningsatvinnuvegunum, en mér finnst till. orðuð þannig, að verkefni nefndarinnar sé fyrst og fremst að rannsaka milliliðastarfsemi í innflutningsverzluninni og innanlandsverzluninni, a. m. k. mætti skilja hana þannig, en ég tel rétt að taka af öll tvímæli um, að verkefnið sé einnig að rannsaka milliliðastarfsemi í útflutningsverzluninni, þ. e. a. s. þann milliliðakostnað, sem hleðst á útflutta vöru landsmanna og rýrir þá að sjálfsögðu það verð, sem fellur í skaut útvegsmanna og sjómanna. Enn fremur tel ég nauðsynlegt, að kveðið sé skýrt á um það í till., að nefndin skuli hafa vald til þess að heimta skýrslur af öllum hlutaðeigandi aðilum. Án slíks ákvæðis mundi n. trauðla geta leyst jafnmikið og jafnerfitt verkefni og starf n. hlýtur að teljast. Ákvæði um þetta er ekki í till., og ætti varla að geta orðið um það ágreiningur, að það á þar heima.

Ég vil í örfáum orðum bæta nokkrum rökum við framsöguræðu hv. flm. fyrir því, að till. sé gagnleg og nauðsynleg. Mér finnst vera hægt að flytja önnur og miklu sterkari rök fyrir því, að till. sé æskileg, heldur en fram komu í ræðu hv. flm. og vil í fáeinum orðum láta þess getið, hver ég tel þau rök vera.

Þá vil ég fyrst og fremst láta þess getið, að fyrir 10 árum fór einmitt fram slík rannsókn sem sú, sem hér er um að ræða, á vegum opinberrar stofnunar, þ. e. á vegum viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð athugaði, hversu mikill kostnaður hlæðist á innflutta vöru til landsins á ákveðnu ári, árið 1945. Viðskiptaráð hafði sérstaklega góða aðstöðu til þess að láta slíka rannsókn fara fram, vegna þess að það hafði í sambandi við skyldu sína til verðlagseftirlits tekið upp alveg sérstaka aðferð við eftirlit með verðlagi á innfluttum vörum, til viðskiptaráðs voru sendar innflutningsskýrslur og verðútreikningar yfir allar vörur, sem fluttar voru til landsins. Það var í fyrsta skipti í sögu landsins, sem slík skjöl bárust einni stofnun og lágu fyrir hendi á einum stað til rannsóknar. Þess vegna þótti viðskiptaráði þá sjálfsagt að efna til slíkrar rannsóknar, og það var gert. Frá niðurstöðum hennar var skýrt opinberlega, auk þess sem þær voru birtar á prenti í áliti hagfræðinganefndar, sem starfaði á vegum tólf manna nefndar þingflokkanna um haustið 1946, og þar er þessar niðurstöður að finna. Ég rek þær því ekki í einstökum atriðum, en skal aðeins láta þess getið, að þessar niðurstöður leiddu í ljós, að innflutningur, sem var að fob-verði 135.5 millj. kr., var að útsöluverði hjá smákaupmanni 327.4 millj. kr. Það bættust við fob-verð þessarar innflutningsvöru erlendis hvorki meira né minna en 154.7 millj. kr., þangað til hún var komin á búðarborðið hjá smákaupmanninum, að tollum frádregnum, sem að sjálfsögðu er auðvelt að draga frá í þessu sambandi. Kostnaðurinn, sem hlóðst á þessa vöru frá erlendu fob-verði og til smákaupmannsins, nam með öðrum orðum meiru en fob-verðinu sjálfu. Þessi skýrsla er ýtarlega sundurliðuð, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það í einstökum atriðum. Þó má geta þess, að ef t. d. matvara, vefnaðarvara og skófatnaður er athugað, en athugunin mun hafa náð til næstum alls árlegs innflutnings af þessum þremur algengu vörutegundum, kostaði það 66 millj. kr. á því ári — menn verða að hafa í huga verðlag ársins 1945 — að koma eins árs innflutningi af matvöru, vefnaðarvöru og skófatnaði úr skipi og til neytandans, eða 2750 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þessi kostnaður við vörudreifingu innanlands, þessi kostnaður við vörudreifingu frá skipi og á borð smákaupmannsins var næstum eins mikill og innkaupsverð vörunnar erlendis, kominnar í skip.

Þetta hygg ég að séu sterkustu rökin, sem finnanleg eru, fyrir því, að nauðsynlegt sé að rannsaka milliliðakostnaðinn í landinu. Það liggja þegar fyrir 10 ára gamlar óvefengjanlegar athuganir á því, að þessi milliliðakostnaður er óhóflega hár. Það hefur margt breytzt á síðustu 10 árum, og það má alveg eins við því búast, að hann sé orðinn annar núna, hvort hann er orðinn tiltölulega hærri eða tiltölulega lægri, veit enginn, nema slík rannsókn sem þessi fari fram, og þess vegna er eðlilegt, að hún fari fram. Fyrri niðurstöður hafa sýnt, að ástæða er til að halda, að milliliðakostnaði sé fjarri því að vera í hóf stillt og að hann sé mikill baggi á framleiðslunni annars vegar og neytendunum hins vegar.

Engar hliðstæðar athuganir hafa verið gerðar á því, hvað kosti dreifing þeirrar vöru, sem framleidd er í landinu sjálfu. Þó leyfist mér ef til vill að láta þess getið hér, að ég athugaði einu sinni, það var á árinu 1949, hvað dreifing mikilvægustu landbúnaðarafurðanna, kjöts, mjólkur og mjólkurafurða, hefði kostað árið áður, þ. e. árið 1948. Þetta var alltímafrek athugun, sem ég þó gerði á grundvelli upplýsinga, sem ég fékk hjá framleiðsluráði landbúnaðarins og Búnaðarfélaginu fyrst og fremst. Á þessu ári, 1948, nam ársframleiðsla af kjöti 4637 smálestum, og fyrir þetta kjöt fengu bændur greiddar 36.7 millj. kr., en útsöluverð til neytenda var 53.5 millj. kr., svo að kostnaðurinn við slátrun, flutning, geymslu og sölu varð 16.8 millj. kr. Hver fimm manna fjölskylda í Reykjavík varð m. ö. o. að greiða 1218 krónur í kostnað við slátrun, flutning, geymslu og sölu á því kjöti, sem hún neytti á árinu. Sé gert ráð fyrir því, að hver bóndi framleiði um 900 kg af kjöti á ári að meðaltali, en það var sú tala, sem talið var hæfilegt að reikna með fyrir árið 1948, þá leggjast 3260 kr. á það framleiðslumagn vegna þessa kostnaðar. Magn það af mjólk, sem vegið var inn til mjólkurbúanna, reyndist árið 1948 32.3 millj. lítra. Fyrir þessa mjólk fengu bændur greiddar á þessu ári 52.3 millj. kr., en tilsvarandi útsöluverð mjólkur og mjólkurafurða, að viðbættum niðurgreiðslum, sem auðvitað verður að bæta við í þessu sambandi, nam 64.2 millj. kr. Kostnaður við vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurafurðanna nam því 11.9 millj. kr., og kostnaður við vinnslu og dreifingu þeirrar mjólkur, sem seld var í Reykjavík einni, nam 8.6 millj. kr., eða 779 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í bænum. Samtals nam umræddur kostnaður vegna kjöts, mjólkur og mjólkurafurða tæpum 29 millj. kr. Hver fimm manna fjölskylda í Reykjavík greiddi á þessu ári tæpar 2000 kr. í vinnslu- og dreifingarkostnað á þeim landbúnaðarvörum, sem hún keypti á árinu. Heildarverðið, sem bændur fengu samtals fyrir framleiðslu þessara afurða, nam 89 millj. kr., svo að kostnaðurinn, sem á afurðirnar lagðist, frá því að bændurnir skiluðu þeim frá sér, nam 33% af verðinu til þeirra.

Ég held, að hvorki neytendur né bændur hafi ástæðu til að vera ánægðir með þessar tölur, og ég tel þær tvímælalaust benda til þess, að milliliðakostnaðurinn á innlendu landbúnaðarvörunni sé of hár. Síðan þetta var gert, hafa margar aðstæður án efa breytzt eins og í innflutningsverzluninni og því full ástæða til að komast að raun um staðreyndir í þessu máli. Því miður hefur mér vitanlega engin athugun verið gerð á dreifingarkostnaði innlendu iðnaðarvörunnar, enda mjög miklir erfiðleikar á því að gera þá athugun þannig, að örugg verði talin. En þessar niðurstöður liggja fyrir, hafa verið birtar opinberlega og aðferðirnar við útreikningana mér vitanlega aldrei vefengdar og þar af leiðandi niðurstöðurnar ekki heldur. Þetta eru vægast sagt sterk rök fyrir því, að milliliðakostnaðurinn sé óhóflegur í landinu og að ástæða sé til þess að gera ráðstafanir til að lækka hann. Þess vegna er það, að ég tel gott, að þessi till. skuli hafa komið fram, og vona, að hún nái fram að ganga með þeim viðbótum, sem ég gat um áðan. Ég skal að vísu láta þess getið, að eins og háttar nú, eru því miður án efa miklir erfiðleikar á því að haga þessari rannsókn þannig, að fullnægjandi megi teljast. Það er tiltölulega auðveldast að því er snertir kostnaðinn á innlendu landbúnaðarvörunum, en segja má þó, að til þess væri að því leyti minnst ástæða, að þar er hann án efa tiltölulega lægstur. Hann er tiltölulega lægri á innlendu landbúnaðarvörunum en á innlendu iðnaðarvörunum og miklu lægri en á erlendu vörunum, sem fluttar eru til landsins, en einmitt kostnaðinn á innlendu iðnaðarvörunum er mjög erfitt að rannsaka. Til þess eru beinlínis ekki skilyrði, nema þá með mjög náinni samvinnu við iðnrekendurna sjálfa og miklum kostnaði. Því miður eru núna miklir erfiðleikar á því að rannsaka rækilega kostnaðinn við innfluttu vöruna, vegna þess að verðgæzlustjóri, sem er yfirmaður verðgæzlueftirlitsins, hefur fyrir alllöngu hætt skipulegri skýrslusöfnun um innflutning og álagningu, og þetta hefur einmitt gerzt að tilhlutan eða jafnvel eftir fyrirmælum hæstv. viðskmrh. Sjálfstfl., flokksbróður þeirra ágætu áhugamanna, sem standa að þessari till. um að komast að raun um milliliðakostnaðinn, upphæð hans. Ef haldið hefði verið áfram þeim hætti, sem upp var tekinn fyrir nokkrum árum, að safna árlega skýrslum um innflutning og álagningu, lægju þessar upplýsingar fyrir reglulega að því er snertir vörurnar, sem fluttar eru til landsins. En þá var áhugi stjórnarvalda á því að fá að vita um milliliðakostnaðinn ekki meiri en svo, að þessum athugunum var hætt, Hitt er svo annað mál, að það er auðvitað hægt að efna til þeirra, en það veldur meiri fyrirhöfn og meiri kostnaði, og hefði sannarlega farið betur á því, að sami áhugi hefði verið hjá hæstv. viðskmrh. fyrir því að komast að raun um sannleikann um milliliðakostnaðinn og virðist vera hjá flm. þessarar tillögu.

Ég gat þess áðan, að hagfræðinganefndin, sem starfaði á vegum 12 manna nefndar þingflokkanna haustið 1946 og skipuð var mönnum, sem tengsl hafa við alla þá fjóra stjórnmálaflokka, sem þá áttu sæti á Alþingi, gerði nokkra athugun á milliliðakostnaðinum og innflutningsverzluninni í sambandi víð verkefni sitt og sagði um þetta í nál. sínu eina setningu, sem ég ætla að leyfa mér að lesa fyrir þm. Þetta var álit allra þeirra fjögurra hagfræðinga, sem n. skipuðu, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Skýrsla þessi,“ þ. e. skýrsla verðgæzlustjóra, sem ég vitnaði í áðan, „sýnir ótvírætt, að það er óeðlilega dýrt að koma innfluttum vörum úr skipi og til neytandans. Í sumum vöruflokkum er kostnaðurinn við það álíka mikill og vörurnar kosta erlendis f.o.b. Með bættu skipulagi á verzluninni ætti því að vera hægt að losa mannafla og fjármagn, sem hægt væri að nota í þágu annarrar atvinnustarfsemi. Með tilliti til þess, að dreifingarkostnaðurinn er nú óþarflega mikill, telur n„ að hægt ætti að vera að lækka álagningu talsvert frá því, sem nú er, einkum í heildsölu. En þess er þó að gæta, að sjálft fyrirkomulag verzlunarinnar veldur allmikilli álagningarþörf. Eigi að miða við óbreytt skipulag, er þess vegna aðeins hægt að ná takmörkuðum árangri á þennan hátt. Niðurstaðan er því sú, að núverandi skipulag innflutningsverzlunarinnar valdi því, að mjög erfitt sé að koma með öllu í veg fyrir fjárflótta, skattsvik og verðlagsbrot“ — um þessi atriði hafði verið rætt að framan — „auk þess sem dreifing innfluttrar vöru sé óeðlilega kostnaðarsöm og bindi of mikinn fólksfjölda og of mikið fjármagn fyrir öðrum atvinnugreinum.“

Það var með öðrum orðum skoðun sérfræðinganefndar, sem um þetta fjallaði fyrir tæpum 10 árum, að dreifingarkostnaðurinn væri óeðlilega hár og þyrfti að lækka. Þetta tel ég vera enn ein rök til viðbótar fyrir því, að full ástæða sé til þess að samþykkja þessa till. og hraða störfum nefndarinnar sem allra mest og leggja jafnframt á það sérstaka áherzlu, að nefndin geri tillögur um, á hvern hátt sé auðið að lækka milliliðakostnaðinn, því að hitt lít ég á sem sannaða staðreynd, að hann sé óeðlilega og óþarflega hár.