18.11.1955
Sameinað þing: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (2394)

79. mál, milliliðagróði

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur svarað ýmsum þeim athugasemdum, sem fram hafa komið í þessum umræðum. Get ég því stytt mál mitt verulega. Ég vil þó byrja á því að þakka flestum hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir undir þessa till. Mér hefur fundizt, að í ræðum bæði hv. 1. þm. Eyf. og hv. 1. landsk. kæmi fram skilningur á því viðfangsefni, sem um væri að ræða.

Hv. 1. þm. Eyf. benti á það, að þessi till. ætti fullt eins heima í fjvn. og allshn. Á það get ég og ég vænti allir hv. meðflutningsmenn mínir mætavel fallizt. Það er að vísu nokkurt matsatriði, til hvorrar nefndarinnar málið á frekar að fara, en það er rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, að væntanlega hefur till. útgjöld í för með sér, þegar hún hefur verið samþykkt og er komin til framkvæmdar, þannig að segja má, að eðlilegra sé, að hún fari til fjvn. Ég get þess vegna fallizt á það.

Hv. sami þm. spurði um það, hversu víðtæka rannsókn flutningsmenn hugsuðu sér samkv. tillögunni, hvort þar væri eingöngu átt við rannsókn á þætti milliliðakostnaðarins í landbúnaði, sjávarútvegi og jafnvel iðnaði, eða hvort hún nær t. d. til fleiri þátta atvinnulífsins.

Ég hygg, að ég hafi tekið það greinilega fram í framsöguræðu minni, að við ætlumst til þess, að rannsóknin verði eins víðtæk og frekast er kostur, þ. e. a. s. hún nái, auk þess að ná til landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar, til verzlunar, vörudreifingar og ef til vill til byggingarkostnaðar. Ég vil taka fram, að það hlýtur að verða nokkuð undir mati þeirra sérfróðu manna komið, sem rannsóknina framkvæma, hversu víðtæk hún verður. En hún verður að vera það víðtæk, að hún sýni það, sem hún á að sýna, þ. e. a. s. þátt milliliðakostnaðarins og milliliðanna yfirleitt í rekstri atvinnuvega þjóðarinnar. Með þessu er einnig svarað því, sem hv. 1. landsk. spurðist fyrir um, hvort ætlunin væri, að rannsóknin næði einnig til þáttar milliliðanna í útflutningsverzluninni. Flutningsmenn hafa hiklaust gert ráð fyrir því, að hún næði til þess þáttar framleiðslustarfseminnar.

Þá spurði hv. 1. þm. Eyf., hvernig flutningsmenn hefðu hugsað sér, að n. framkvæmdi verk sitt. Ég þóttist hafa drepið nokkuð á það í frumræðu minni, en ég vil bæta því við, að að sjálfsögðu er til þess ætlazt, að n. afli sér allra þeirra gagna, sem nauðsynleg eru til þess að byggja á rökstuddan dóm á því viðfangsefni, sem um er að ræða. Ég vil ekki viðurkenna það, sem hv. þm. drap á, að n. væri valdalaus. Ég fæ ekki betur séð en að langsamlega flestar þær upplýsingar, sem slík rannsóknarnefnd þarf að afla sér, geti hún fengið beint ýmist frá opinberum aðilum eða þá frá samtökum hlutaðeigandi atvinnugreina. Ekkert er auðveldara t. d. varðandi sjávarútveg og landbúnað en að snúa sér til þeirra samtaka, sem þessar atvinnustéttir hafa sjálfar myndað með sér. Það eru einnig til opinberir aðilar, sem gefið geta upplýsingar um verzlun, vörudreifingu o. s. frv., og hv. 1. landsk. þm. upplýsti einmitt, að rannsókn hefði verið framkvæmd á því sviði allýtarleg fyrir tíu árum. En ég mun koma örlítið nánar að þeirri rannsókn síðar.

Hins vegar værum við flm. áreiðanlega ekki mótfallnir því, ef Alþingi gæti veitt þessari n. eitthvert sérstakt aukið vald. Það hefur verið litið svo á hingað til, að rannsóknarnefndir samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar væri aðeins hægt að skipa í deildum. Menn greinir nokkuð á um þetta. Sumir halda því fram, að það sé hægt að skipa þær í Sþ. einnig. En þá erum við komnir að því, sem ég minntist einnig á í framsöguræðu minni, að þá yrði n. að vera skipuð þingmönnum einum, og það er ákveðin skoðun mín, að þingmenn mundu ekki komast yfir að vinna það verk og mundu ekki heldur hafa þá sérfræðilegu þekkingu til brunns að bera, nema tiltölulega fáir, sem er nauðsynleg til að geta unnið þetta mjög svo víðtæka, nauðsynlega, en vandasama verk. En þetta atriði er gersamlega opið frá hálfu okkar flm. til athugunar fyrir þá n., sem málið fær til meðferðar. Það verður ekki ágreiningsmál við okkur, hvernig tryggilegast verður búið um það, að n. geti haft það vald, sem hún þarf á að halda til þess að geta fengið nauðsynlegar upplýsingar og byggt á þeim þær tillögur, sem nauðsynlegar eru til úrbóta.

Hv. 1. landsk. þm. minntist á rannsókn þá, sem viðskiptaráð framkvæmdi árið 1945 á verzlunarkostnaðinum. Ég er sannfærður um það, að sú skýrsla, sem liggur enn þá fyrir, gæti orðið mjög gagnleg fyrir þessa nefnd, sem nú verður kosin. En auðvitað má búast við því, að rannsóknina yrði samt sem áður að framkvæma að nýju. Margt hefur breytzt á tíu árum, og þó að hægt væri að hafa stuðning af fyrrgreindri skýrslu, þá er mjög hæpið, að hún mundi nægja. En af því að það skaut upp í hv. þm. dálítilli tortryggni, þó að hann væri, eins og hans er vandi, hinn prúðasti í sínum málflutningi, gagnvart hug Sjálfstfl. til þessa máls, þá get ég ekki varizt því að benda honum á það, að eitthvað örlítið muni hafa skort á áhugann hjá hæstv. viðskmrh. Alþýðuflokksins, sem tók við völdum árið 1947 og sat fram á haust 1949, án þess svo mikið sem hreyfa þessari skýrslu og án þess að láta fara fram nokkra rannsókn í tilefni þeirra talna og þeirra niðurstaðna, sem hv. þm. dró hér fram nú og ég viðurkenni fúslega að voru hinar uggvænlegustu, þó að þær hafi kannske ekki sagt sannleikann allan, eins og hv. 3. þm. Reykv. benti á. Hvernig stóð á því, að hæstv. viðskmrh. Alþýðuflokksins í „fyrstu stjórn Alþfl.“ tók ekki þessa skýrslu og krufði hana til mergjar og skipaði rannsókn á grundvelli hennar og kippti þessu í lag? Mér þætti vænt um að fá skýringu á því við tækifæri hjá mínum hv. vini, 1. landsk. þm. En ég gleðst yfir því, að þessi skýrsla er til, og það verður hægt að nota hana, þegar þessi rannsókn verður framkvæmd fyrir alvöru, því að það er ætlunin að framkvæma þessa rannsókn, sem hér um ræðir, í fullri alvöru.

Mér kom það ekkert á óvart, þegar hv. 8. landsk. þm. kom hér fram og sagði, að sér hefði „brugðið ákaflega í brún“, þegar hann sá þessa till. Honum hafði brugðið svo ákaflega í brún, að maðurinn var beinlínis skjálfandi á beinunum og dauðhræddur, þegar hann kom hingað upp í ræðustólinn.

Við hvað var maðurinn hræddur? Það kom ákaflega greinilega í ljós af ræðu hans. Hann var hræddur við það, að sannleikurinn yrði leiddur í ljós í þessu máli og hann og fleiri menn, sem tala um þjóðmál af lítilli ábyrgðartilfinningu, blanda vanalega inn í þau persónulegum skætingi, gætu ekki haldið áfram að jóðla á milliliðagróðanum og jafnvel gera einn einstakan flokk í landinu ábyrgan fyrir honum. Það var þetta, sem maðurinn var hræddur við, og það var þess vegna engin furða, — ég er viss um, að það er það eina, sem hann sagði satt í þessari ræðu, — að honum hafi brugðið ákaflega við, þegar hann sá tillöguna. Þessi hv. þm. mataði þingheim t. d. á þeim vísdómi, að hæstv. dómsmrh. hefði skýrgreint Sjálfstfl. á fundi í Varðarfélaginu fyrir skömmu sem „flokk milliliðanna“. Þarna er sannleikanum alveg snúið við. Það er engin furða, þó að svona maður sé hræddur við sannleikann og honum bregði einkennilega í brún, þegar hann sér till., sem á að leiða sannleikann í ljós.

Það fór nefnilega fjarri því, að hæstv. dómsmrh. segði slíka fjarstæðu. Hann benti hins vegar á það, að enda þótt íslenzkt þjóðfélag hefði verið milliliðalítið í hundruð ára, þá hefðu á því tímabili ríkt hér bágindi og hungur og örbirgð. Jafnvel þegar milliliðirnir voru ekki til, þá gat slíkt gerzt, að hér ríkti hungur og örbirgð. Hæstv. ráðh. benti hins vegar á það, að þegar hið íslenzka þjóðfélag óx úr grasi, þá skapaðist verkaskipting innan þess, þá hætti bóndinn að vera allt í senn útgerðarmaður, sjómaður og iðnaðarmaður o. s. frv. Það skapaðist iðnaðarmannastétt, það skapaðist verzlunarstétt, það skapaðist stétt innlendra embættismanna. Þetta var beinlínis í samræmi við þá þróun, sem gerzt hefur í öllum þjóðfélögum, að þjóðirnar skipta frekar með sér verkum, það skapast stéttaskipting á meðal þeirra. Þó að hæstv. dómsmrh. hafi bent á þessa augljósu staðreynd, sem hvert einasta barn í landinu þekkir og veit um, þá þýðir það auðvitað ekki það, að hann hafi þakkað aukinni verkaskiptingu eða milliliðastarfsemi allar þær umbætur, sem unnar hafa verið í landinu.

Það er óhætt að fullyrða, að sumt af framförunum er aukinni verkaskiptingu að þakka, að þjóðin hagnýtir betur hæfileika sína og vinnuafl með aukinni verkaskiptingu. Þetta viðurkennir hver einasti maður. En að hæstv. ráðh. hafi þakkað milliliðastarfseminni sem slíkri og ekki sízt óheilbrigðri milliliðastarfsemi þá velmegun, sem nú ríkir á Íslandi og hefur verið að vaxa undanfarin ár, er auðvitað alveg helber blekking.

Hv. 8. landsk. minntist lauslega á milliliðina í sjávarútveginum, sem hann sagði að Sjálfstfl. héldi verndarhendi sinni yfir. Hvaða milliliðir eru t. d. í útflutningsverzluninni af hálfu sjávarútvegsins? Það er Landssamband íslenzkra útvegsmanna, sem þó annast ekki útflutninginn. Það hefur hönd í bagga með um gjaldeyrisfríðindi útvegsins nú. Það er Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það er Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem hefur allmörg frystihús innan sinna vébanda. Og það er Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda. Allar þessar stofnanir eru settar á laggirnar af útvegsmönnum, af framleiðendum sjálfum, og um þá þeirra, sem kannske sízt er sett á laggirnar af framleiðendum sjálfum, Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, er það að segja, að stofnun þess var löggilt með löggjöf, sem hver setti? Sjálfstæðisflokkurinn? Nei, sem Framsfl. og Alþfl. settu, þegar svokölluð „frjálslynd umbótastjórn“ var hér á landi. Og þessi löggjöf var þá sett að beiðni framleiðenda. Ég er ekki að ásaka þessa flokka fyrir að hafa gert það. Þessi löggjöf um bætt skipulag á útflutningi saltfisks var sett að beiðni framleiðenda, sem voru komnir út í algert öngþveiti með útflutning þessarar aðalútflutningsvöru landsmanna. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er líka mynduð af frystihúsaeigendum um land allt. Sama er að segja um það samband þeirra frystihúsaeigenda, sem eru innan Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Svo á Sjálfstfl. að halda verndarhendi yfir einhverri óheilbrigðri milliliðastarfsemi, sem þessir aðilar reka!

Nei, það er hægt að standa upp á fundum og segja þetta, helzt ekki á Alþingi samt. Það er reiknað með of mikilli fáfræði hv. þingmanna, til þess að það sé boðlegt. En það er ekki hægt að ráða fram úr þeim vanda, sem hér er um að ræða og ekki sízt hefur verið lögð áherzla á að fyrir hendi væri af hv. 8. landsk. þm. og hans flokki, með slíkum málflutningi. Það er ekki hægt.

Hv. þm. sagði, að Sjálfstfl. og viðskmrh. hans hefðu gefið innflutninginn og verzlunarálagninguna frjálsa, m. a. á útgerðarvörum. Við skulum segja, að svo sé. En hvað er þá það, sem skiptir meginmáli í þessu sambandi? Hefur verðið hækkað við það, að innflutningurinn á þessum vörum var gefinn frjáls? Hefur verðið hækkað? Er það óhagstæðara fyrir útveginn og fyrir sjómennina? Það er það, sem skiptir máli. Og hv. 3. þm. Reykv. benti auk þess á það hér áðan, að mjög mikill hluti útgerðarvara er fluttur inn beint af útvegsmönnum sjálfum. Og ég segi: Það er alveg hiklaust rétt að stefna að því, að útvegsmennirnir geti losnað við sem mest af milliliðaálagningu, og útvegsmenn í mörgum landshlutum hafa einmitt gert þetta. Það þekkja allir frumkvæði Vestmanneyinga um ýmiss konar samtök í verzlunarmálum sinnar útgerðar.

Það vita allir, að þeir urðu fyrstir til þess að stofna olíusamlag. Þeir stofnuðu líka lýsissamlag. Og þeir hafa fleiri samlög, hygg ég, sem hafa einmitt bætt aðstöðu þeirra verulega. Og ég veit ekki betur en að einn af þingmönnum Sjálfstfl., sem mest hefur haft sig í frammi á sviði útgerðarmála, hafi einmitt verið meðal frumkvöðlanna í þessari starfsemi, hv. þm. Vestm. (JJós).

Hv. 8. landsk. þm. var ákaflega kvíðandi yfir því, hvað mundi taka langan tíma að framkvæma þessa rannsókn. Ja, mér þykja það nú slæmar fréttir, ef það kynni að reynast svo, að þetta tæki svona langan tíma. Ég trúi því nú naumast, að það taki mjög mörg ár að framkvæma nægilega ýtarlega rannsókn, til þess að hægt sé að komast að sannleikanum í þessum efnum. En vill þá ekki hv. þm. bara flytja brtt. um það, að í staðinn fyrir að rannsókninni skuli lokið fyrir næsta reglulegt þing, þá skuli henni lokið t. d. eftir þrjú ár? Mér finnst það vera mjög í samræmi við þann „framsóknaranda“, sem kemur fram hjá honum. Ég segi framsóknaranda innan gæsalappa — vegna þess að ég heyrði ekki betur og sá ekki betur en að hv. þm. væri að telja öll tormerki á því, að þetta væri hægt. Maðurinn, sem búinn er að vera að tala um milliliðaokrið, frá því að hann fór að tala um pólitík, stendur hér upp, þegar loksins er flutt till. um að rannsaka milliliðagróðann, og sér öll tormerki á því, að þetta sé framkvæmanlegt. Það tekur svo langan tíma, að það þýðir ekki að vera að hafa sig í það að vera að samþykkja svona till., tekur 3–4 ár og yrði ekki búið fyrr en eftir næstu kosningar. Hann hefur kannske verið að hugsa um það. Það hefur flögrað að honum allt í einu, að hann ætti að mæta fyrir dómstóli þjóðarinnar einhvern tíma á næstunni. (Gripið fram í.) Það leit nú sannarlega ekki út fyrir það, að hv. þm. hlakkaði til eins eða neins, vegna þess að öll hans framkoma mótaðist af hræðslu, ótta og skelfingu.

Þessi sami hv. þm. sagði, að það væri ekki rétt hjá mér, að hann eða flokkur hans hefði ekki flutt till. um slíka rannsókn; hann hefði flutt till. um verðlagseftirlit. Já, einmitt það. Það átti þá að koma í veg fyrir milliliðagróða og óhóflega álagningu með verðlagseftirliti. Ég held, að þessi hv. þm. þekki fólkið á götunni í Reykjavík og fólkið úti um allt land allt of lítið. Ég held hann vantreysti alveg minni þess. Hér var nefnilega verðlagseftirlit fyrir nokkrum árum. Tryggði það afnám milliliðagróða? Tryggði það lágt og sanngjarnt vöruverð? Tryggði það yfirleitt hagsmuni almennings í verzlunarmálunum? Ef hann vissi nokkuð um, hver meining fólksins væri, þá mundi hann áreiðanlega ekki segja já og þá mundi hann áreiðanlega ekki hæla sér af því að hafa flutt till. um verðlagseftirlit sem einasta úrræðið til þess að skapa heilbrigt verzlunarástand í landinu. Það var nefnilega þannig, að hér hefur sennilega aldrei ríkt verra ástand s. l. 15–20 ár í verzlunarmálum en einmitt meðan verðlagseftirlitið var sem strangast hér í Reykjavík og um land allt. Hér ríkti svartur markaður og hvers konar brask. Milliliðunum meira að segja fjölgaði, þeim hraðfjölgaði. Menn, sem alls ekki verzluðu, keyptu vörur til þess að braska með þær. Menn smygluðu og menn smurðu á vöruna á alla vegu. (Gripið fram í.) Það getur nú verið, að þeir geri eitthvað að því enn þá, en ég segi, að fólkið er ekki nú háð svarta markaðnum og milliliðabraskinu eins og það var þá, einmitt þegar verðlagseftirlitið blómgaðist í landinu. Þetta ætti hv. þm. að muna, af því að hann mun nú einu sinni meira að segja hafa haft lífsframfæri sitt af því að vinna einhvers staðar í útjöðrum fjárfestingar- og verðlagseftirlitsskrifstofubáknsins. Ég veit ekki, hver þáttur hans hefur verið í því. Það væri ágætt, að hann upplýsti það þá líka. Hann hefur þá eigin reynslu af því, hvernig verðlagseftirlit og fjárfestingareftirlit, höft og bönn tryggja fólkinu hagkvæma verzlun og sanngjarnt vöruverð. En almenningur á Íslandi man það, að verðlagseftirlitið tryggði honum ekki hagstætt vöruverð. Þvert á móti, það skapaði svartan markað og hvers konar brask og milliliðastarfsemi.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að svara fleiri atriðum að sinni af þeim, sem fram hafa komið í þessum umræðum. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði í frumræðu minni, að fyrir okkur sjálfstæðismönnum vakir það fyrst og fremst með þessari till. að fá úr því skorið, hver þáttur milliliðanna sé í framleiðslukostnaði og viðskiptalífi þjóðarinnar yfirleitt. Þegar spilin hafa verið lögð á borðið um það, þegar sannleikurinn hefur verið leiddur í ljós, þá viljum við gera raunhæfar tillögur til úrbóta. Við viljum ekki láta sitja við það eitt að tala um það, að hér sé óhófleg milliliðastarfsemi. Við kunnum því náttúrlega frekar illa, að við, sem berjumst fyrir frjálsri verzlun og frjálsri samkeppni og þar með hagstæðri verzlun fyrir þjóðina, séum sí og æ brennimerktir sem flokkur milliliðanna og sá flokkur, sem fyrst og fremst vilji hjálpa einhverjum óheilbrigðum milliliðum til þess að raka saman fé á kostnað almennings. Við viljum leiða sannleikann í ljós, og við erum ekki hræddir við hann, eins og hv. 8. landsk. þm. virðist vera.