09.01.1956
Efri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

110. mál, raforkulög

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir, frv. til l. um breyt. á l. nr. 53 21. apríl 1954, um viðauka við raforkulög, hefur nú þegar verið til meðferðar í hv. Nd., sem afgreiddi það með nokkurri breytingu eða viðauka við fyrirsögn, en staðfesti að öðru leyti efni frv.

Í lögunum frá 21. apríl 1954 eru í 3. gr. ákvæði undir nokkrum stafliðum og þ. á m. undir e-lið, er segir:

„Með lántökum handa raforkusjóði eða rafmagnsveitum ríkisins.“

Og segir í þeim lögum ekki meira um það. Í forsendunum fyrir þessu frv., sem er flutt af hæstv. ríkisstj., segir:

„Í lögunum er ekkert ákvæði um heimild til ríkisábyrgðar á láni þessu, sem raforkusjóður tekur. Að vísu eru í heimildarlögum um einstaka raforkuframkvæmdir ákvæði um ríkisábyrgð og lán til þeirra, en þar virðist átt við lán, sem rafmagnsveiturnar sjálfar taka, og þá þar með lán úr raforkusjóði. Rétt virðist að breyta lögum frá 21. apríl 1954 á þann veg, að þar væri heimild til ríkisábyrgðar á lánum, sem tekin eru samkvæmt e-lið 3. gr.

Þessi heimild er orðuð þannig í frv., að e-liður 3. gr. orðist svo:

„Með lántökum handa raforkusjóði eða rafmagnsveitum ríkisins, og er fjmrh. heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs greiðslu lánanna allt að 200 millj. kr.“

Hv. Nd. hefur talið rétt að gera breytingu á fyrirsögn frv. aðeins. Nú heita lögin, sem breytingin er gerð við, að vísu lög um viðauka við raforkulög nr. 12 2. apríl 1946, en í hv. Nd. hefur verið samþykkt að bæta við fyrirsögnina: nr. 12 2. apríl 1946.

Iðnn. hefur kynnt sér þetta mál og ekki álitið þörf á að gera á því breytingar, heldur þvert á móti vill leggja því einróma samþykki. Þess skal getið, að einn nefndarmanna, hv. þm. Str. (HermJ), var fjarstaddur sökum veikinda og er af þeim ástæðum ekki skrifaður undir nál. Ég vil mælast til þess fyrir hönd hv. n., að hv. d. fallist á að samþykkja frv. eins og það nú liggur fyrir.