27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (2424)

114. mál, kjarnorkuvopn

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á þskj. 149 hafa þeir hv. 8. landsk. þm. (BergS) og hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) flutt till. um kjarnorkuvopn. Með þessari till. vilja þeir láta Alþingi fela ríkisstj. að beina þeirri áskorun til ríkisstjórnar Sovétríkjanna, Bandaríkjanna og Bretlands, að þær felli niður allar frekari tilraunir með vetnissprengjur og önnur kjarnorkuvopn o. s. frv., eins og segir í tillgr. Henni fylgdi svo alllöng ritgerð eða grg., sem hv. þm. hafa sjálfsagt kynnt sér og er ekki þörf að rekja hér nema í stórum dráttum. Er þar drepið á tilraunir með vetnissprengjur, þær stærstu, sem sagan enn þá hefur greint frá, á ýmsum stöðum og mikill fróðleikur um það, hversu hættulegar þessar vetnissprengjur séu fyrir mannfólk og dýr og gróður á jörðinni, jafnvel þótt í mikilli fjarlægð sé.

Svo segir hér í næstsíðustu málsgr. í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun flm. þessarar þáltill., að sérhverjum einstaklingi og sérhverri þjóð, sem sér og skilur þessar uggvænlegu staðreyndir, beri að gera, meðan tími er til, allt, sem hægt er til að koma í veg fyrir þá ógn, sem gervöllu mannkyni er búin af óvarlegri meðferð þeirrar ægiorku, sem nú hefur verið leyst úr læðingi.“

Og svo er haldið áfram í þessum dúr.

Hv. þm. hafa sjálfsagt allir heyrt um þá feikihættu, sem öllu lífi á jörðinni getur stafað af misnotkun þessara vopna og jafnvel af þeim tilraunum, sem fréttir hafa borizt af, og öðru því, sem stendur í sambandi við þessar ægilegu sprengingar. Þó að þekking okkar hér sé að vísu ákaflega takmörkuð á þessu sviði, þá verður varla hægt að komast hjá að viðurkenna þá staðreynd, sem allur heimurinn raunar virðist viðurkenna, að hér sé um það tortímingarafl að ræða, að ekki hafi annað slíkt þekkzt fyrr á jörðu hér.

Utanrmn. ræddi þessa till. á fleiri en einum fundi og leitaðist við að rannsaka, hver bezt vinnubrögð hægt væri að hafa til þess að verða við þeim óskum, sem fram koma í till., því að n. sjálf var öll á því, að hér væri mikil hætta á ferðum, og vildi gjarnan leggja þeim málstað lið, sem varar við og leggst á móti tilraunum eða notkun á slíkum tortímingarvopnum sem vetnissprengjan og þvílíkt er. Hitt er annað mál, hvort Ísland ætti að haga svo aðgerðum í þessu efni — þessi litla þjóð — að ráðast beint að stórveldunum, sem talin eru upp í tillgr., og mótmæla við þau beinlínis þessum aðgerðum eða þá að fara aðrar leiðir. Fyrir því rannsakaði n., eftir því sem unnt var og tími vannst til, hvað nágrannaþjóðir okkar hefðu gert í þessu efni. Bæði fyrir milligöngu skrifstofu Alþingis var þetta rannsakað og líka fyrir milligöngu utanrrn. Þær upplýsingar, sem n. bárust, voru engar þess háttar, að þar væri hægt að sækja neitt fordæmi í þessu efni. Við höfðum engar fregnir af því, að nein þessara þjóða hefði snúið sér til ríkisstjórna stórveldanna með mótmæli gegn vetnissprengjum eða kjarnorku. Hins vegar taldi n. rétt, að svo miklu leyti sem fært væri, að frá þessari litlu þjóð bærist líka þeim öflum stuðningur, sem vinna á móti tortímingarsprengjum þeim, sem hér eru til umræðu.

Ísland er nú orðið þátttakandi í margs konar alþjóðasamtökum. Þarf ekki að minna á annað en Sameinuðu þjóðirnar og Norðurlandaráðið og Evrópuráðið í því sambandi, og á margs konar alþjóðafundum, svo sem þingmannafundum, eru Íslendingar þátttakendur og geta þar, ef svo vill verða, stutt góðan málstað og hafa gert í ýmsum atriðum. N. fannst því réttara, að sá háttur væri upp tekinn að fela ríkisstjórninni að stuðla að því á þeim vettvangi, sem líklegastur er talinn til árangurs hverju sinni, — og þann dóm verður ríkisstj. sú, sem situr hverju sinni, að kveða upp, hvaða vettvang hún telur heppilegastan, hvort hún álítur rétt að snúa sér beint til ákveðinna ríkja eða hvort hún vill fela fulltrúum sínum á erlendum vettvangi að bera fram tillögur eða fylgja tillögum, sem miða að því að koma í veg fyrir, að vetnissprengjutilraunir séu gerðar áframhaldandi eða aðrar skaðlegar tilraunir, sem ógna mannkyninu.

Að þessu athuguðu ákvað n. að leggja til, að till. væri samþykkt með þeirri breytingu, að tillgr. orðist eins og segir á þskj. 597. — Ég skal geta þess, að við afgreiðslu málsins voru þeir fjarverandi 7. þm. Reykv. og 5. þm. Reykv. og tóku þess vegna ekki þátt í afgreiðslu málsins. Að öðru leyti var þessi brtt. við þáltill. samþ. einróma í nefndinni.