27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (2444)

19. mál, varnarsamningur við Bandaríkin

Frsm. 3. minni hl. (Jóhann Hafstein.):

Herra forseti. Milli lýðræðisflokkanna þriggja, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., hefur enginn ágreiningur verið um meiri háttar ákvarðanir, sem teknar hafa verið á undanförnum árum í utanríkismálum. Á ég þar fyrst og fremst við ákvarðanir Alþingis um þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu 1949 og gerð varnarsamningsins frá 1951.

Alþfl. hefur hin síðari árin í stjórnarandstöðu viljað fara með nokkuð öðrum hætti að við framkvæmdir málanna, en milli Sjálfstfl. og Framsfl. hefur enginn ágreiningur verið um meginstefnuna í utanríkismálum, hvorki í ríkisstj. Steingríms Steinþórssonar 1951–53 né ríkisstj. Ólafs Thors frá þeim tíma. Það hefur verið yfirlýst stefna beggja þessara ríkisstj. og stuðningsfl. þeirra á Alþingi, að erlent varnarlið dveldist ekki lengur hér á landi en nauðsynlegt væri vegna öryggis landsins.

Ekki er kunnugt um, að hæstv. utanrrh., dr. Kristinn Guðmundsson, hafi gert um það neinar till. innan hæstv. ríkisstj., að hún ákvæði nú að segja varnarsamningnum upp, og engan boðskap þess efnis hefur hæstv. ráðh. flutt Alþingi. Hins vegar hefur nýafstaðið flokksþing Framsfl. samþ., um leið og það samþ., að alþingiskosningar skyldu fram fara í sumar, að rétt væri nú að algerlega óundirbúnu máli að segja varnarsamningnum frá 1951 upp. Í framhaldi af þessu hafa tveir þm. Framsfl. í utanrmn. sameinazt þriðja fulltrúanum þar, úr Alþfl., um till. á þskj. 623, sem felur í sér ákvörðun um uppsögn varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Ég legg áherzlu á, að mér vitanlega er ekki nú fremur en fyrr nokkur ágreiningur um meginstefnu í þessu máli milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, en við sjálfstæðismenn teljum, að með þeirri málsmeðferð, sem viðhafa á samkv. till. þeirra framsóknarmanna og Alþýðuflokksmanna á þskj. 623, sé farið mjög óhyggilega að og enda ekki í samræmi við ákvæði varnarsamningsins sjálfs, sem Alþingi hefur lögfest.

Við teljum, að áður en svo veigamikil ákvörðun sé tekin sem í nefndri till. felst, þurfi að grandskoða málið og gera sér til fyllstu hlítar grein fyrir, hvað við tekur, þegar varnarliðið hverfur úr landi, ef fært þykir öryggis landsins vegna að láta það fara. Enginn slíkur viðbúnaður hefur verið viðhafður, og bar þó vissulega hæstv. utanrrh. að hafa um það forustu.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. höfum í dag freistað þess að fá frá hæstv. utanrrh. nokkrar upplýsingar, sem við teljum miklu skipta við ákvörðun í þessu máli. Við höfum spurt á nefndarfundi um ýmis þau atriði, sem vitneskja um er að okkar dómi forsenda þess, að verjandi sé að taka endanlega afstöðu til þess máls, sem hér um ræðir. Vil ég leyfa mér að gera hv. þingheimi grein fyrir því, sem við inntum eftir, og þeim svörum, sem hæstv. ráðherra gaf:

1) Hefur ástandið í alþjóðamálum raunverulega batnað eða aðeins á yfirborði? Svar ráðh.: Hann telur nú almennt álitið, að friðarhorfur hafi breytzt til batnaðar.

2) Er nokkur sérstök hætta, sem vofir yfir Íslandi? Svar: Telur sig ekki hafa aðstöðu til að svara því.

3) Hvaða áhrif hafa ný vopn, svo sem eldflaugar, á hernaðarþýðingu Íslands? Svar: Gera hernaðarþýðinguna minni.

4) Hvaða áhrif hefur brottför varnarliðsins frá Íslandi á varnarmöguleika og öryggi aðildarríkjanna í heild? Svar: Varnarmöguleikarnir mundu ef til vill eitthvað veikjast.

5) Bætir það eða dregur úr friðarhorfum í heiminum, ef dregið er úr öryggi og varnarmöguleikum Atlantshafsbandalagsins? Svar: Mundi ekki auka friðarhorfurnar.

6) Geta Íslendingar lagt til nægan mannafla til að tryggja öryggi Íslands eins og nú stendur? Svar: Álítur, að Ísland geti ekki tryggt öryggi sitt.

7) Er hægt að gera það án þess að hafa herafla, án þess að á herafla þurfi að halda? Svar: NATO lét þá skoðun í ljós 1949, að ekki þyrfti á herafla að halda til þess að tryggja öryggi landsins þá.

8) Hversu mikinn mannafla þarf til þeirra starfa, sem framkomnar till. gera ráð fyrir að Íslendingar taki að sér? Svar: Veit það ekki nákvæmlega, en sennilega þyrfti að nota færri Íslendinga en nú eru í varnarliðsþjónustu.

9) Hvers eðlis er sú gæzla varnarmannvirkja, sem till. ráðgera? Svar: Eftirlit og viðhald varnarmannvirkja.

10) Hvernig fer með kostnað af þessum öryggisráðstöfunum? Svar: Geri ráð fyrir, að greiðsla komi annars staðar frá.

Að sjálfsögðu eru þessi svör ekki veigamikil og kannske ekki við að búast, þegar haft er í huga, hversu lítill undirbúningur hefur af hálfu hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst utanrrh. verið hafður í frammi, til þess að hægt sé að svara eða gera sér grein til hlítar fyrir svörunum við slíkum spurningum eins og þessum. Það sem þau svör ná, sem hér hafa verið gefin, gefa þau vissulega til kynna, að þm. ættu með fyllstu varúð að taka ákvarðanir í því máli, sem hér um ræðir.

Að vandlega athuguðu máli höfum við fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. lagt til á þskj. 643, að mál þetta verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem hv. þingheimi hefur gefizt kostur á að kynna sér. Í þessari dagskrá felst nokkuð samandregið, í fyrsta lagi það, að Alþingi áréttar, að erlent varnarlið dveljist ekki lengur hér á landi en nauðsynlegt er vegna öryggis landsins, og lýsir yfir því, að það telur rétt, að hafinn sé nauðsynlegur undirbúningur þess, að svo megi verða.

Í öðru lagi felst í þessari rökstuddu dagskrá, að við teljum, að áður en ákvarðanir, sem þýða sama sem ákvarðanir um brottför varnarliðsins héðan, séu teknar, þurfi að athuga ýmislegt miklu rækilegar en gert er, og koma fram í dagskránni ýmis þau atriði, sem við teljum að nauðsynlegt sé að geta gert sér rökstudda grein fyrir, hvernig svara eigi.

Hv. þm. Str. sagði hér áðan, að það væri algerlega gagnslaust að spyrja aðra. Það eru ekki allir svo miklir á velli, að þeir geti tekið undir þessi orð, að gagnslaust sé að spyrja aðra, og allra sízt ættum við Íslendingar, þegar um ræðir öryggismál og hernaðarmál, að telja okkur svo mikla, að við þurfum ekki að spyrja aðra um, hvað gera skuli. Og sannast að segja höfum við sjálfir beinlínis lögfest með l. um varnarsamninginn frá 1951, að við skulum spyrja aðra, og það er m. a. það, sem við þm. Sjálfstfl. hér finnum að, að skortir á um málsmeðferðina, því að samkv. 7. gr. eða uppsagnargrein samningsins er svo fyrir mælt, að hvor ríkisstj. geti hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstj., farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og að það geri till. til beggja ríkisstj. um það, hvort samningar þessir skuli gilda áfram eða ekki. Það á að endurskoða málið, og aðrir eiga að gefa sitt álit, eftir því sem við höfum sjálfir lögfest. Þegar þær álitsgerðir liggja fyrir, er svo hins vegar tvímælalaust á valdi okkar sjálfra að skera úr um það, hvaða ákvarðanir beri að taka. En mér skilst helzt á hv. þm. Str., að hér sé betra að taka ákvarðanirnar áður en sé gerð tilraun til þess að fá nokkrar upplýsingar um það, hvað öryggi landsins sé fyrir beztu að ákvarðað sé. Þess vegna ályktum við í þriðja lagi í okkar rökstuddu dagskrá, að það sé ekki tímabært að svo stöddu máli að afgreiða þær till., sem hér liggja fyrir, heldur að Alþingi skuli beina því til utanrrh., að hann láti rannsaka öll þau atriði, sem í hinni rökstuddu dagskrá greinir, og önnur, er máli skipta, og leggi um það fullkomna skýrslu fyrir næsta Alþingi, þannig að þingheimi gefist þá kostur á öruggari grundvelli en nú að marka afstöðu sína til þessa máls.

Ég held, að við þurfum ekki að deila hér um óskir okkar í þeim efnum, að erlent varnarlið geti sem fyrst farið af íslenzkri grund, og þar þurfi í sjálfu sér enginn annan um að saka, a. m. k. ekki af fulltrúum í lýðræðisflokkunum. Hitt er svo annað mál, með hverjum hætti við snúumst við jafnalvarlegum málum og hér er um að ræða og með hve mikilli festu og alvöru við þorum á þeim að taka. Að mínum dómi greinir hér á um það — og það eitt — milli lýðræðisflokkanna, — ég hef látið liggja á milli hluta að ræða till. kommúnista hér, og ég tel ekki skipta máli að ræða það, sem þeir leggja til í utanríkismálum, — en það, sem greinir á milli lýðræðisflokkanna, er það eitt, hvort meðferð og ákvarðanir í utanríkismálum eiga að miðast við kosningabaráttu flokkanna í návíginu innanlands eða það á að gera á hverjum tíma þær ráðstafanir, sem miðast við það eitt að treysta sem bezt öryggi íslenzku þjóðarinnar. Það er af þessum sökum, sem ég nú hef greint, að við leggjum til, að samþykkt verði rökstudda dagskráin á þskj. 643.