27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (2447)

19. mál, varnarsamningur við Bandaríkin

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Vorið 1951, þegar herstöðvasamningurinn við Bandaríki Norður-Ameríku var gerður, stóðu að þeirri samningsgerð þrír stjórnmálaflokkar, eins og kunnugt er, Sjálfstæðisfl., Framsfl. og Alþfl. Helztu rökin, sem reynt var að tefla fram til varnar þeirri örlagaríku samningagerð, voru þau, að styrjaldarhætta væri mikil og stórveldastyrjöld raunar alveg yfirvofandi, þess vegna yrði Ísland að leyfa Bandaríkjunum herstöðvar hér á landi, svo að treysta mætti, eins og það var orðað, varnarkerfi hinna vestrænu þjóða. Jafnframt var því haldið mjög á lofti, að þetta væri fyrir Ísland gert, það væri varnarráðstöfun Íslandi og íslenzku þjóðinni til fulltingis, svo að hún félli ekki í hendur ræningja, í hendur austræns stórveldis, sem hefði hug á að ná hér ítökum og hernaðaraðstöðu.

Þegar er þessi samningur var gerður árið 1951, höfðu margir Íslendingar þó fullan skilning á því, að hér voru fyrst og fremst rökleysur uppi hafðar. Íslendingum væri sízt af öllu búið öryggi með því að draga það inn í átök stórvelda með þeim hætti, sem gert var með samningnum 1951 og hersetu Bandaríkjahers hér á landi. Þessi skilningur náði þegar árið 1951 langt út fyrir raðir þess eina stjórnmálaflokks, sem á þeim tímum lýsti sig andvígan hersetu Bandaríkjanna hér, Sósfl. Fylgjendur herstöðvasamningsins og hernámsins áttu þó hægt um vik með að koma vilja sínum fram, enda dró það mjög úr sóknarþunga baráttunnar hjá Sósfl., að forustumenn hans og málgögn höfðu opinskátt og eindregið haslað sér völl við hlið annars aðilans í tafli heimsveldanna, við hlið Sovét-Rússlands, og túlkuðu málstað þess og sjónarmið af engu minna kappi en hernámsflokkarnir túlkuðu málstað Bandaríkja Norður-Ameríku og fylgiríkja þeirra.

Með tilkomu Þjóðvarnarflokks Íslands varð sú breyting á, að þá risu upp í landinu stjórnmálasamtök, sem eingöngu litu á þessi mál frá íslenzku sjónarmiði án alls tillits til samúðar eða andúðar í tafli stórveldanna um áhrif og yfirráð. Frá hinu íslenzka sjónarmiði var auðsætt, að baráttan hlaut að standa um það, að Ísland losnaði við hina erlendu hersetu og legði sitt lóð á vogarskálar til þess að reyna að draga úr spennunni í alþjóðamálum, að það snerist í lið með þeim öflum, sem túlkuðu málstað bættrar sambúðar stórveldanna og raunar allra þjóða. Við þjóðvarnarmenn höfum þráfaldlega á það bent, þegar við höfum haft tækifæri til, að herseta og herstöðvar hér á landi eru síður en svo nein trygging fyrir því, að friður haldist í heimi hér. Það er meira að segja fullkomlega ljóst og hefur sýnt sig hvað eftir annað, að hið austræna stórveldi, Sovét-Rússland, lítur á hersetu Bandaríkjamanna hér sem ógnun við sig, enda hefur sú skoðun oft fengið byr undir vængi, þegar hinir og aðrir bandarískir aðilar, meira eða minna áhrifamiklir, hafa gálauslega og oft af hreinu blygðunarleysi verið að bollaleggja um það, hvernig nota megi herstöðina hér til árása í austurveg.

Við þjóðvarnarmenn höfum einnig sýnt fram á það margsinnis, að dvöl Bandaríkjahers hér sé Íslendingum engin vörn, ef til styrjaldar kynni að draga, heldur sé þessi kenning hin mesta blekking, einhver hin óskammfeilnasta, sem nokkru sinni hefur verið reynt að halda að íslenzku þjóðinni. Eftir tilkomu hinna geigvænlegu kjarnorkuvopna er slík herstöð orðin voðinn sjálfur fyrir þjóðina, sem landið byggir, ef svo hörmulega skyldi fara, að stórveldastyrjöld brytist út með öllum þeim afleiðingum, sem hún hlýtur að hafa með nútíma hernaðartækni. Ég hygg, að þetta sé nú viðurkennt af mjög verulegum hluta þjóðarinnar, enda þótt ýmsir áhrifaríkir aðilar hafi allt fram til síðustu tíma verið að berja höfðinu við steininn og neitað eða leitazt við að neita þessari augljósu staðreynd.

Nú hefur tvímælalaust skipazt svo í alþjóðamálum, að enda þótt enn séu ýmsar viðsjár milli stórvelda og hægt gangi að útrýma gróinni tortryggni, þá er þó augljóst, að verulega hefur slaknað á þeirri spennu, sem óneitanlega var mikil um skeið og hernámsflokkarnir hér notuðu til þess að réttlæta gerðir sínar árið 1951, þegar þeir buðu Bandaríkjaher hingað til dvalar. Enda þótt við þjóðvarnarmenn viðurkennum ekki, að ástandið í alþjóðamálum árið 1951 væri frambærileg röksemd fyrir því frá íslenzku sjónarmiði að bjóða hingað Bandaríkjaher til setu, þá fögnum við því á hinn bóginn, að nú eru brott fallnar jafnvel þær sýndarforsendur, sem notaðar voru af þeim flokkum, sem stóðu að herstöðvasamningnum 1951. Skilningur íslenzku þjóðarinnar á eðli hersetunnar og þeirri margvíslegu hættu og vandkvæðum, sem af henni stafa og hljóta að stafa, hefur stöðugt farið vaxandi. Þetta veldur því, að flótti hefur nú brostið í það lið, sem stóð að herstöðvasamningnum 1951, og nú er a. m. k. látið í veðri vaka af ýmsum, sem á sínum tíma stóðu að herstöðvasamningnum og síðan hafa varið þá ráðstöfun með oddi og egg, að stefna beri að því, að herinn fari úr landi og það áður en langir tímar líða.

Þessu ber vissulega að fagna, þótt óneitanlega hljóti að vakna þær spurningar, hvort hér sé um raunveruleg sinnaskipti að ræða eða hvort skýringin kunni ef til vill að einhverju leyti að vera sú, að alþingiskosningar munu fara fram í sumar og að dagur reikningsskilanna sé þess vegna að nálgast.

Fyrstur þeirra stjórnmálaflokka, sem stóðu að herstöðvasamningnum, til þess að hefja undanhaldið, var Alþfl. Þegar á Alþingi í fyrra fluttu nokkrir hv. þm. þess flokks þáltill. um endurskoðun herstöðvasamningsins, og þá var það haft á oddi, að gera þyrfti nýjan samning, Íslendingum hagkvæmari en hinn fyrri. Svipuð till. og þó heldur ákveðnari að orðalagi var lögð fram snemma á þessu þingi af hálfu þess flokks, og nú brá svo við, að allir hv. þm. flokksins stóðu að hinni nýju till. Þar er svo að orði kveðið, að náist ekki samkomulag um nýjan samning innan þess ramma, sem flm. till. telja viðhlítandi frá sínu sjónarmiði skuli farin sú leið að beita uppsagnarákvæðum samningsins.

Hér höfðu þegar gerzt nokkur tíðindi. Einn hernámsflokkanna þriggja, að vísu hinn minnsti, hafði látið undan síga, þótt enn væri augljós tregða forustumanna flokksins til að ganga alveg hreint til verks og krefjast endurskoðunar með uppsögn eina fyrir augum. Hinir flokkarnir tveir, Sjálfstfl. og Framsfl., sem fram að þessu hafa verið í innilegum faðmlögum í ríkisstj., héldu enn uppi vörn fyrir hersetusjónarmiðið, og t. d. minnist ég þess glögglega, að forvígismenn Framsóknar ýmsir hafa engin orð átt nógu sterk um okkur þjóðvarnarmenn fyrir að krefjast uppsagnar samningsins frá 1951 og brottfarar hersins. Allt fram til hinna síðustu daga hafa þessir ágætu menn valið okkur hin verstu ókvæðisorð fyrir að vilja láta landið vera óvarið, eins og þeir hafa oftast orðað þetta. En svo gerist það skyndilega, að á flokksþingi framsóknarmanna nú í þessum mánuði er samþykkt till. varðandi herstöðvamálið, sem að vísu er að mínum dómi engan veginn gallalaus, en felur þó í sér það stórvægilega atriði samkv. orðanna hljóðan, að Bandaríkjaher skuli hverfa héðan úr landi. Þótt þar skorti m. a. öll tímatakmörk um það, hvenær brottför hersins eigi að vera lokið, þá er þrátt fyrir allt svo langt gengið í þessari till., að fyrir fáum mánuðum, jafnvel fyrir nokkrum vikum, hefði hæstv. fjmrh. titlað hvern þann mann ábyrgðarlausan, jafnvel hálfgerðan afglapa, sem slíka till. hefði flutt. — Kannske eru það þarflausar getsakir, en þó er ekki því að neita, að margur mun setja flutning og samþykkt þessarar till. í samband við það, að á hinu sama framsóknarþingi, þar sem þessi till. var samþykkt, var ákveðið að knýja fram kosningar nú á komandi sumri. En hvort sem allir forkólfar Framsóknarfl. hafa tekið þá kollsteypu, sem gerð var á framsóknarþinginu síðasta, með glöðu geði eða ekki, þá er það staðreynd, að í orði kveðnu a. m. k. eru nú tveir af þeim flokkum, sem stóðu að hernáminu 1951, horfnir frá hersetustefnunni eða a. m. k. komnir á mjög augljóst undanhald.

Og það er nú komið í ljós, m. a. með allvöxtulegri rökstuddri dagskrá, sem útbýtt var hér í kvöld, dagskrá, sem fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. leggja fram í þessu máli, að jafnvel þriðji hernámsflokkurinn, sá flokkurinn, sem verið hefur eindregnastur og gallharðastur í stuðningi sínum við hersetuna fyrr og síðar í gegnum þykkt og þunnt, jafnvel sá flokkur er orðinn dálítið óvær og uggandi um sinn hag. Honum þykir það ekki ánægjuleg tilhugsun, ef hann ætti nú að standa einn uppi í komandi kosningahríð og verja sjónarmið hernámssinna. Þess vegna þykir jafnvel þeim hv. fulltrúum Sjálfstfl. skynsamlegast, a. m. k. hentugast í bili, að láta í það skína, að þeir geti svo sem ósköp vel hugsað sér, að hersetunni fari bráðum að linna. Þess vegna segja þeir hér í sinni rökstuddu dagskrá, að hafinn skuli nauðsynlegur undirbúningur þess, að svo megi verða, þ. e. að hið erlenda herlið megi hverfa héðan. Þessum virðulegu fulltrúum þykir áreiðanlega heppilegt að láta skina í það a. m. k„ að herinn eigi þó að fara einhvern tíma. Hins vegar dylst engum, sem les þessa löngu rökstuddu dagskrá, að þeim sjálfstæðishetjunum hefur ekki verið allt of ljúft að láta jafnvel í þetta skína. Þeir hafa líka í dagskrá sinni alla mögulega fyrirvara og eftirvara til þess að draga úr því, sem segir í upphafi hinnar rökstuddu dagskrár þeirra. Og niðurstaðan af bollaleggingum fulltrúa Sjálfstfl. í utanrmn. er sú, að þeir telja ekki tímabært, eins og það er orðað, að afgreiða þær þáltill. um þetta mál, sem fyrir liggja, það eigi enn að rannsaka óteljandi atriði, áður en neitt sé samþykkt, segir í þessari rökstuddu dagskrá, og fleira í svipuðum anda. En þrátt fyrir alla fyrirvara Sjálfstfl. er þó auðsætt, að hann er orðinn töluvert hræddur við að standa nú einn uppi í vörninni fyrir hernámsstefnunni, a. m. k. fram yfir kosningar. Hér er því um augljóst undanhald að ræða. þótt ekki verði sagt, að enn þá sé brostinn flótti í hernámslið Sjálfstfl.

Vitanlega er þetta undanhald þeirra flokka, sem stóðu að herstöðvasamningnum 1951, mikilvægur sigur fyrir þann málstað, sem við þjóðvarnarmenn höfum barizt fyrir og talið hinn eina rétta. Orð eru til alls fyrst, og vitanlega er það nokkur áfangi að hafa fengið viðurkenningu þessara flokka sjálfra, a. m. k. tveggja þeirra, fyrir því, að herinn skuli skjótlega hverfa úr landi. En þá eru framkvæmdirnar eftir. Og það vil ég fullvissa þá hv. framsóknar- og Alþýðuflokksmenn um, að með því verður fylgzt, hvernig þeir vinna að framkvæmd þessa nýja áhugamáls síns, brottfarar Bandaríkjahers af Íslandi.

Snemma á þessu þingi voru fluttar tvær þáltill. hér í Sþ. varðandi herstöðvamálið. Önnur þeirra var um endurskoðun og uppsögn samningsins, flutt af okkur þm. Þjóðvfl. Þar var ekki um nein hálfyrði að ræða. Þar var skýrt og ákveðið fram tekið, að endurskoðunarleiðin skyldi eingöngu farin til þess að fullnægja ákvæðum samningsins, en stefnt væri vitandi vits að því, að samningurinn yrði ekki endurnýjaður, heldur yrði honum sagt upp. Hin till. var, eins og ég hef áður getið um, frá öllum hv. þm. Alþfl. hér á Alþingi, og hef ég lítillega lýst aðalinnihaldi hennar. Þessar tvær till. hafa nú verið til meðferðar eða legið hjá hv. utanrmn. töluvert á sjötta mánuð, eða nálega allan þingtímann, og nú loksins á allra síðasta starfsdegi þingsins kemur loks álit frá n. um aðra till., þ. e. till. Alþfl. Ekkert nál. liggur enn fyrir um till. okkar þjóðvarnarmanna og kemur fráleitt fram.

Ég vil að lokum minnast lítils háttar á þær brtt., sem fram hafa komið við þá till. Alþfl. þingmannanna, sem hér er nú til umr. Fyrsti minni hl. utanrmn., fulltrúar Framsfl. og Alþfl. í n., hv. 1. þm. Árn., hv. þm. Str. og hv. 1. landsk. þm., leggja til, að þáltill. Alþýðuflokksþingmannanna verði samþykkt með nokkurri orðalagsbreytingu. Þeirri brtt. var útbýtt hér á þingi síðdegis í dag. Mér virðist till. mjög lík ályktun flokksþings framsóknarmanna um þetta mál.

Um till. þessa er það að segja í stuttu máli, að á henni eru að vísu að mínum dómi ýmsir gallar, en þó verður að líta svo á, að meginatriði till. sé það, að Bandaríkjaher skuli víkja úr landi, annaðhvort með samkomulagi við Bandaríkjastjórn eða á þann hátt, að Íslendingar beiti uppsagnarákvæðum 7. gr. samningsins. Og ég verð að segja, að sú till., sem fæli þetta í sér, yrði að vera meira en lítið gölluð að öðru leyti, ef ég teldi það ekki skyldu mína að greiða henni atkv. Það gildir einu í því sambandi, þó að maður telji sig hafa næsta rökstuddan grun um það, að einhverjir þeir, sem nú hafa fallizt á að flytja eða samþykkja slíka till. þvert ofan í fyrri afstöðu sína, hafi fremur fest hugann við það að slampast í gegnum hreinsunareld nálægra alþingiskosninga heldur en hitt, að um hugarfarsbreytingu sé að ræða. Þess verður áreiðanlega freistað að minna þá hv. þm. Framsfl. og Alþfl. á, að þá fyrst koma heilindin fullkomlega í ljós, þegar farið verður að fylgja fram meginefni þessarar till., þegar farið verður að leitast við að gera hana að veruleika. Og það skulu þeir hv. alþm. vita, sem þessa till. flytja, svo og þeir aðrir, sem gjalda henni jáyrði, að efndanna verður af þeim krafizt.

Við þjóðvarnarmenn munum fylgja brtt. þeirri, sem 2. minni hl. utanrmn., hv. 6. landsk. þm. (FRV), hefur flutt við þessa brtt., enda eru tekin upp í hana flest veigamestu atriðin úr þáltill. okkar þjóðvarnarmanna um herstöðvamálið og uppsögn herstöðvasamningsins. En sem eins konar varatill. leyfi ég mér að flytja hér skriflega brtt. við þá till., sem hv. 1. minni hl. utanrmn. hefur lagt fram. Sú brtt. er á þá leið, að fyrri málsgr. þáltill., sú sem skoðast má sem eins konar siðferðisvottorð fyrir Atlantshafsbandalagið, falli niður. Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa brtt. og æski þess jafnframt, að hann leiti afbrigða fyrir henni, svo að hún geti þá einnig legið fyrir.