27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (2448)

19. mál, varnarsamningur við Bandaríkin

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vildi út af ummælum hv. 8. þm. Reykv. gera þá athugasemd, að það er misskilningur hjá honum, að orðið hafi nokkur skoðanabreyting hjá okkur framsóknarmönnum á varnarmálinu, þótt við flytjum nú till. um, að samningnum verði sagt upp. Það er heimurinn, sem hefur breytzt, en ekki við í skoðunum okkar. Það er allt annað andrúmsloft í heiminum 1956 en var t. d. 1954. Andinn frá Genf var ekki kominn þá til eins og núna og fleiri nýrri atburðir, sem hafa gerzt.

Er ég mætti á fundi í utanrmn. í kvöld, lögðu fulltrúar Sjálfstfl. í n. fyrir mig 10 spurningar varðandi utanríkismál. Spurningar þessar eru prentaðar í hinni rökstuddu dagskrá 3. minni hl. utanrmn., og ég tel rétt að svara þeim hér lið fyrir lið.

Fyrsta spurningin er: Hefur ástand í alþjóðamálum raunverulega batnað eða aðeins á yfirborðinu ?

Ég held, að öllum, sem vit telja sig hafa á alþjóðamálum, beri saman um það, að ástandið hafi verulega batnað síðan 1951. Vera má þó, að einhvers staðar sé ófriðarhætta, eins og í hinum arabíska heimi, en engir gera þó ráð fyrir beinni árásarhættu eða upphafi heimsstyrjaldar á milli austurs og vesturs. Skal ég ekki rekja þetta mál lengra hér, því að enginn mun vera alvitur á því sviði.

Önnur spurningin er: Er nokkur sérstök hætta, sem vofir yfir Íslandi?

Ég get ekki komið auga á hana umfram það, sem yfir öðrum löndum vofir, ef til heimsófriðar dregur. Nokkurn veginn er það öruggt, að Ísland verði ekki ósnortið í þeirri viðureign, hvort sem það hefur hervarnir eða ekki.

Þriðja spurningin er: Hvaða áhrif hafa ný vopn, svo sem eldflaugar, á hernaðarþýðingu Íslands?

Ég álít og tel mig hafa nokkur rök fyrir því, að vopn eins og eldflaugar geri hernaðarþýðingu íslenzkra stöðva minni.

Fjórða spurningin er: Hvaða áhrif hefur brottför varnarliðsins frá Íslandi á varnarmöguleika og öryggi aðildarríkjanna í heild?

Ég vil ekki fullyrða neitt um þetta atriði. Aðalþýðing Íslands liggur í varðstöðu til þess að gera viðvart um óvænta árás, og mín skoðun er, að árás sé ekki yfirvofandi nú.

Fimmta spurningin: Bætir það eða dregur úr friðarhorfum í heiminum, ef dregið er úr öryggi og varnarmöguleikum Atlantshafsbandalagsins?

Þátttökuríkin í NATO töldu, er Ísland gerðist aðili, að þátttaka okkar í varnarbandalaginu væri þýðingarmikil fyrir öryggi og varnarkerfi bandalagsþjóðanna, þótt hér væri enginn her.

Sjötta spurningin: Geta Íslendingar lagt til nægan mannafla til að tryggja öryggi Íslands, eins og nú stendur?

Mín skoðun er, að á ófriðartímum sé þátttakan í bandalaginu án hers í landinu nægileg. Sjöunda spurningin: Er hægt að gera það án þess, að á herafla þurfi að halda?

Ég tel, að þessari spurningu sé svarað með spurningunni hér næst á undan.

Áttunda spurningin: Hversu mikinn mannafla þarf til þeirra starfa, sem framkomnar till. gera ráð fyrir að Íslendingar taki að sér?

Ég álít, að það þurfi mun færri en Íslendinga þá, sem nú vinna á vellinum.

Svo er níunda spurningin: Hvers eðlis er sú gæzla varnarmannvirkja, sem tillögurnar ráðgera?

Það er eftirlit og viðhald varnarmannvirkja, og er þá tekið orðrétt upp úr 7. gr. varnarsamningsins.

Og svo er tíunda og síðasta spurningin: Hvernig fer með kostnað af þessum öryggisráðstöfunum?

Ég geri ráð fyrir, að greiðsla komi annars staðar að en frá okkur, svo fremi að áhugi sé fyrir því að halda mannvirkjunum við.

Ég get ekki stillt mig um að gera hér örlitla athugasemd við eitt atriði í hinni rökstuddu dagskrá. Þar stendur, með leyfi hæstv, forseta:

„Með tillögugerð þeirri, sem nú er til umræðu, á hins vegar að lýsa yfir brottför liðsins, jafnvel áður en ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins endurskoðar, hvort lengur þurfi á að halda aðstöðu til varnar landinu, og er þó ótvíræð samningsskylda að biða slíkrar endurskoðunar, áður en samningnum er sagt upp.“

Ég held, að hér sé um mikinn misskilning að ræða, því að síðasta setningin í tillögu, sem 1. minni hl. utanrmn. flytur, hljóðar þannig:

„Fáist ekki samkomulag um þessa breytingu, verði málinu fylgt eftir með uppsögn samkvæmt 7. gr. samningsins.“

En uppsögn samkv. 7. gr. samningsins er einmitt það, að leitað sé fyrst til NATO og Bandaríkjanna um rannsókn á því, hvort þurfi á frekari hervörnum að halda.